06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það, sem ég hef áður sagt um þetta mál. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vil leyfa mér að ítreka eftir að hafa heyrt ræðu frsm. meiri hl. Það er í fyrsta lagi það, sem fram kom hjá frsm. meiri hl., að prófessorar ýmsir við Háskólann hlytu starfs síns vegna að hafa mikil afnot af söfnum landsins, bæði Þjóðskjalasafni og Landsbókasafni, þá er það vissulega rétt. En að mínu viti er sá munur á, að prófessorar yfirleitt annast kennslu í Háskólanum í þeim fræðigreinum, sem þeir hafa á hendi að kenna. Afnot þeirra af söfnum landsins eru því að verulegu leyti við það bundin að búa sig undir kennslu og erindaflutning í Háskólanum. En starf ættfræðiprófessors verður ekki nema þá að afar takmörkuðu leyti bundið við kennslu. heldur er það fyrst og fremst rannsóknastarf, úrvinnsla úr heimildum, sem fyrir hendi eru aðallega í söfnum landsins. Það skapar nokkra sérstöðu fyrir þetta embætti eða þennan mann, samanborið við aðra prófessora. Þetta kemur greinilega fram í t.d. umsögn heimspekideildar, sem ég hef í fyrri ræðu minni vitnað til, að þar segir, að kennslustarf í þessari fræðigrein muni verða mjög takmarkað, og hlýtur okkur öllum að liggja það í augum uppi.

Hitt atriðið, sem ég vildi gera aths. um, eru þau ummæli í ræðu frsm. meiri hl., að prófessornum í ættfræði muni ekki vera ætlað að taka við öllum störfum æviskrárritara. Frvgr. er þannig orðuð: „Prófessorinn skal taka við störfum æviskrárritara samkvæmt l. nr. 30 24. marz 1956 eftir því sem nánar verður fyrir mælt af menntmrh., að fenginni umsögn háskólaráðs.“ Það er að vísu rétt, að þetta orðalag er þannig, að það segir ekki berum orðum, að hann skuli taka við öllum störfum æviskrárritara, en ég vil láta það koma fram, svo að það fari ekki fram hjá neinum, að þegar rætt hefur verið um kostnaðaraukann af þessu máli — og ég hef ekki sérstaklega fjallað um þá hlið í minni ræðu — í grg. frv., eins og það var flutt, þá er málið byggt á því, að prófessorinn í ættfræði taki við öllum störfum æviskrárritara og að kostnaðaraukinn af stofnun prófessorsembættis þess, sem hér um ræðir, ætti ekki að verða annar en mismunur á launum æviskrárritara eftir fyrri skipan og prófessors, þ.e. milli 20. og 27. launaflokks starfsmanna ríkisins. Ef þetta er rétt metið um kostnaðinn. sem málið sjálft er grundvallað á, liggur það í hlutarins eðli, að fyrirhugað er, að prófessorinn taki við öllum störfum æviskrárritara, þannig að enginn aukakostnaður fylgi því að skipta þessum störfum milli fleiri manna.