28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef nú því miður ekki getað fylgzt algerlega með þeim umr., sem hér hafa farið fram, en þó svona að mestu leyti, og hafði nú hugsað mér aðallega að víkja hér að nokkrum almennum atriðum málsins og gera nokkrar athugasemdir við það, sem ég hef heyrt hér koma fram hjá ýmsum ræðumönnum.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að hér er um mikið ágreiningsmál að ræða meðal þeirra, sem hér eiga mestan hlut að máli, sem eru sjómenn og útvegsmenn. Deilan um það, hvernig við ættum að nýta okkar landhelgi, fiskveiðilandhelgi, hefur staðið frá því, að veruleg útfærsla á fiskveiðimörkunum var ákveðin. Öllum er t.d. kunnugt um það, að togaramenn hafa verið mjög óánægðir allan tímann yfir sínum hlut. Það er sama hvort þar hefur verið um að ræða togaraeigendur, togaraskipstjóra eða togarasjómenn almennt, þeir hafa talið, að með útfærslunni, sem varð á okkar fiskveiðimörkum á árabilinu frá 1950–1958 og síðan aftur 1961, hafi þeirra hlutur verið skertur mjög mikið til veiða hér á fiskimiðunum við landið, og nú síðari árin hefur komið upp mjög mikil óánægja hjá ýmsum útgerðarmönnum og sjómönnum, sem standa að útgerð á minni fiskibátum og hafa viljað nota botnvörpu sem veiðarfæri, og þessi óánægja hefur mjög farið vaxandi og hefur síðan brotizt út í þessu, sem allir menn þekkja hér ú Alþ.. að það mátti svo segja, að það væri að falla niður öll eðlileg landhelgisgæzla gagnvart landsmönnum sjálfum eða a.m.k. í sambandi við togveiðar hinna minni fiskibáta. Það var ekki aðeins, að fjöldamargir bátar væru teknir að ólöglegum veiðum og yfirmenn bátanna væru dæmdir, heldur var einnig vitað um það, að miklu fleiri brot áttu sér stað heldur en kærð voru. Og yfirtroðslurnar voru orðnar þannig, að það vildi svo að segja enginn sætta sig við það að búa við slíkt ástand öllu lengur. Ég held því, að það hafi verið orðin mjög almenn skoðun hér á Alþ., að þetta ástand mætti ekki verða mikið lengur, sem þarna var upp komið í þessum málum, að í þessum efnum yrði þá að reyna að skipa málum á einhvern þann veg, sem hægt yrði þá að standa við. En vegna þess að hér er um þetta mikla ágreiningsmál að ræða, sem ekki er nýtt af nálinni, búið að vera ágreiningsmál lengi, þá mátti líka búast við því, að það yrði erfitt að setja saman till. um nýjar veiðiheimildir, þannig að allir yrðu ánægðir. Enda hefur það auðvitað þegar komið hér fram í þessum umr., að sitt sýnist hverjum um þær till., sem hér liggja nú fyrir í frv.-formi og sem þessi svonefnda landhelgismálanefnd hefur sett saman.

Ég álít, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. alþm. að íhuga þessar till. landhelgismálanefndarinnar, sem hér liggja nú fyrir í frv.-formi, út frá þessu meginsjónarmiði, að það var komið upp það ástand, sem enginn vildi una við lengur. Hér þurfti að setja nýjar reglur. Málið var ekki þannig, að t.d. þeir, sem mest óttast nú auknar togveiðar, gætu óskað eftir því að gera engar breytingar, standa á því, sem fyrir var, því að það var svo miklu verra en það, ef ætti að vera frá þeirra sjónarmiði, sem mesta ótrú hafa á togveiðum, miklu verra en það, sem boðað er með þessu frv. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að það var orðin býsna almenn regla, að fiskibátar af ýmsum stærðum stunduðu þessar ólöglegu veiðar langt inn fyrir veiðimörkin og inni á víkum og fjörðum víða í kringum landið. Ég veit að vísu, að það er hægt að segja „hér átti bara að herða á gæzlunni og láta menn taka út sínar sektir,“ en ég hygg nú, að allir, sem hafa kynnt sér málið, viðurkenni það, að það var ekki fær leið að ætla að standa á þessum gömlu reglum algerlega óbreyttum miðað við það ástand, sem upp var komið. Það varð því fljótlega uppi sú skoðun í landhelgismálanefndinni, að eins og ástatt væri, væri ekki um annað að ræða en reyna að setja hér nýjar reglur, sem þyrftu þá að vera þess eðlis, að það væri líklegt, að hægt væri að standa fast á þeim í framkvæmd. En vegna þess að málið var svona mikið deilumál, þurfti auðvitað að taka hér tillit til mjög mismunandi skoðana, sem uppi voru, og það er það, sem ég tel fyrir mitt leyti, að n. hafi gert.

En ég ætla þá að víkja að því með nokkrum orðum. hvernig þetta lítur út frá mínum sjónarhóli séð, hvað raunverulega felst í þeim breytingum, sem hér er um að ræða. Ég hef heyrt einstaka þm., sem hér hafa talað, tala um gífurlega hættu, sem við stöndum hér frammi fyrir í sambandi við þessar gífurlega auknu heimildir. Ég dreg það mjög í efa, að þessir hv. þm., sem nota þessi orð, hafi áttað sig til hlítar á þeim till.. sem hér er um að ræða, og þeim reglum, sem áður voru í gildi.

Ég skal nú með örfáum orðum reyna að gera grein fyrir því, í hverju þessar till. eru fólgnar, sem hér er nú um að ræða. Ef við t.d. virðum fyrir okkur Norðurlandssvæðið, allt Norðurlandssvæðið, sem miðað er við í þessu frv., þ.e.a.s. svæðið frá Horni og austur að Langanesi, hvaða gífurlegar breytingar eru nú gerðar á þessu svæði til aukningar togveiðiheimilda. Jú, það er rétt, að á veiðisvæðinu kringum Kolbeinsey er nú gert ráð fyrir því, að leyfðar verði togveiðar þó nokkuð auknar frá því, sem nú er. Við höfum ekki orðið varir við það, að það væri yfirleitt hjá sjómönnum mikil andstaða gegn því, að þetta væri gert. En á öllu hinu svæðinu fyrir Norðurlandi er að mínum dómi um mjög óverulega breytingu að ræða til togveiða frá því, sem verið hefur, mjög litlar. Meginreglan, sem gilti fyrir Norðurlandi, t.d. á tímabilinu 1958, þegar útfærsla landhelginnar var ákveðin, og fram til ársins 1961, þegar samningarnir voru gerðir við Breta og breytingar voru nokkrar þá gerðar, var sú, að fyrir öllu Norðurlandi mundi gilda 8 mílna fiskveiðilandhelgi gagnvart innlendum aðilum, 8 mílna allt árið. Þá máttu jafnstórir togarar sem togveiðibátar fiska í fiskveiðilandhelginni allt árið á yztu 4 mílunum, en fyrir Norðurlandinu gilti sem sagt 8 mílna fiskveiðilandhelgi. Með breytingum, sem ákveðnar voru árið 1961, þegar samið var við Breta, bættust þarna við togveiðiheimildir upp að 6 mílum á allstórum svæðum fyrir Norðurlandi, þó ekki algerlega fyrir öllu Norðurlandi, og einkum þá yfir sumarmánuðina, svo að reglan, sem í gildi var fyrir Norðurlandi, var sem sagt 6–8 mílna fiskveiðilandhelgi gagnvart landsmönnum sjálfum. En hvaða regla á nú að gilda samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir? Það á einnig að gilda í öllum aðalatriðum 6–8 mílna reglan gagnvart öllum hinum stærri bátum og gagnvart togurum, nema nú er gerð sú breyting, að þessar auknu heimildir eru ekki heimilaðar yfir sumarmánuðina, eða þegar mest er um smærri báta á þessum miðum. En heimildirnar standa hins vegar opnari en áður yfir vetrarmánuðina, sem er auðvitað tvímælalaust hagstæðara fyrir hinn minni bátaútveg á þessum slóðum. En til viðbótar við þetta er svo gerð till. um það, að minnstu togveiðibátar, eða upp að 105 rúmlestum að stærð, megi á vissum tímum árs, aðallega yfir veturinn, veiða með botnvörpu upp að 4 mílum, eða nokkru nær en áður var, en þó ekki nema upp að 6 mílum á öðrum tímum ársins.

Það má segja það, að þarna er um nokkra rýmkun að ræða til togveiða fyrir Norðurlandi. En að segja, að hún sé gífurleg, það er misskilningur. Það er mikill misskilningur. Og ég fyrir mitt leyti óttast það miklu fremur, að hér sé ekki gengið lengra en svo til móts við mjög vaxandi kröfur um það að stunda slíkar veiðar sem þessar, að það reyni fljótlega á það, að menn uni ekki þessum reglum. En nú er þó ákveðið, og það skiptir auðvitað miklu máli, að reynt sé að standa fast á því að halda uppi þessum reglum, verja þessi mörk og láta þá sæta sektum eða svipta þá veiðiheimildum, sem brjóta þau. Ef við lítum á fleiri svæði og reynum að gera okkur grein fyrir þessum breytingum svona í aðalatriðum, þá kem ég næst að Austurlandssvæðinu eða svæðinu frá Langanesi og nokkuð suður fyrir Papey eða suður undir Hvítingar. Hvaða aðalbreytingar eru gerðar frá þeim reglum, sem voru í gildi á þessu svæði? Jú, á svæðinu rétt fyrir sunnan Langanes eða frá Langanesi og suður undir Héraðsflóa, Bakkaflóa- og Vopnafjarðarsvæðinu, þar gilti áður 8 mílna landhelgi alveg eins og fyrir Norðurlandi. Skip máttu sem sagt toga upp að 8 mílna mörkunum allt árið. Nú eru till. um það, að togveiðiskip megi á þessu svæði veiða nokkru nær en áður, en aðeins á vissum tíma ársins. En það er tímabilið yfir veturinn frá 1. október til 15. apríl. Á þessum tíma má veiða á þessu svæði upp að fjögurra mílna mörkum í staðinn fyrir 8 mílna áður, yfir vetrarmánuðina, þegar heimaaðilar, sem sjó stunda á þessum slóðum, stunda mjög lítið veiðar á þessum miðum. En hinn hluta tímans, þegar veiðarnar eru nú aðallega stundaðar af bátum, þá eru mörkin þau sömu og verið hafa. 8 mílna mörkin. Ég er ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti, að hér er ekki um miklar breytingar að ræða, og þær eru auðvitað mjög fjarri því, þessar breytingar, að uppfylla kröfur þeirra, sem virkilega sóttu hér eftir því að fá aukin veiðisvæði á þýðingarmiklum tíma fyrir sig.

En svo að við athugum betur Austurlandssvæðið, þá er nú gert ráð fyrir því að opna fyrir togveiði Héraðsflóasvæðið, þ.e.a.s. allt svæðið út af Héraðsflóa. Það kom fljótlega í ljós, að heimamenn allir voru alveg sammála um það, að á þessu svæði mætti opna meira en gert hefur verið fyrir togi að ósekju fyrir þær veiðar, sem þarna eru stundaðar. Og þetta er því ekki ágreiningsmál meðal heimamanna. En þarna er um nokkra aukningu að ræða á þessu svæði, og það skiptir auðvitað mestu máli, að þarna væri mögulegt eflaust að veiða nokkuð af flatfiski seinni part ársins á haustin fram á vetur, og sýnist ekki nema sjálfsagt, að á þessum slóðum sé sá fiskur veiddur og það einmitt á þeim tíma, þegar landsmenn hafa sérstaka aðstöðu til að geta náð þeim fiski umfram útlendinga. En á veiðisvæðinu fyrir hinum eiginlegu Austfjörðum, þ.e.a.s. frá Héraðsflóa og suður að Papey, suður fyrir Djúpavog, þar gilda í aðalatriðum sömu reglur og gilt hafa frá því 1958, í öllum aðalatriðum eru það sömu reglurnar. Allan þennan tíma hafa gilt þær reglur, að togveiðiskip af öllum stærðum mega toga þar upp að fjögurra mílna mörkunum yfir veturinn eða þann tíma, sem sjósókn er ekki mikil á venjulegum fiskibátum. Þessari reglu er enn haldið. En nokkrar veiðiheimildir, sem togarar höfðu samkv. samkomulaginu við Breta frá 1961 yfir sumarmánuðina upp að 6 mílna mörkunum, voru beinlínis felldar niður. Þarna er ekki hægt að segja, að sé um neinar stórkostlegar breytingar að ræða heldur. En fyrir Suðausturlandi er um eina talsvert verulega breytingu að ræða. sem snýr að veiðisvæðinu í kringum Hvalbak. Þar giltu þær reglur, að heimilt var að veiða í kringum Hvalbak upp að 6 mílna mörkum á ákveðnum tímum ársins, og það var breytilegt nokkuð, en nú er gert ráð fyrir því að heimila togveiðar í kringum Hvalbak upp að þriggja mílna mörkum. Það er þessi almenna regla, sem farið var inn á í landhelgismálanefndinni, að í kringum útsker eins og Kolbeinsey, Hvalbak og Eldey er litið talsvert öðrum augum á það að leyfa togveiðar heldur en næst meginlandinu sjálfu, þar sem sjór er aðallega stundaður af smærri bátum.

Ef við höldum svo áfram í kringum landið að virða fyrir okkur þessar breytingar í stórum dráttum og tökum svo aftur svæðið frá Papey, tökum þetta svona í stórum dráttum og þannig, að auðvelt sé að fylgjast með því, og að svonefndum Skarðsfjöruvita eða að Skaftárósum, í miðri Meðallandsbugt, þá eru gerðar á þessu svæði nokkrar breytingar til rýmkunar fyrir togveiðiskip frá því, sem áður var. En um þetta svæði svona í stórum dráttum tekið giltu þær reglur eða hafa gilt um langan tíma, að togveiðar hafa ekki verið heimilaðar á þessu svæði á aðalvetrarvertíðartímanum. þ.e.a.s. frá áramótum og fram undir miðjan maí. en þá hefur þetta veiðisvæði verið sérstaklega þýðingarmikið fyrir bátaflotann. En hins vegar giltu þær reglur, að utan þessa tíma, þ.e.a.s. frá miðjum maí og yfir sumarið og haustið fram undir áramót, var heimilt að veiða á þessum slóðum upp að fjögurra mílna mörkum. Þessar togveiðiheimildir hafa verið í gildi allan tímann, og til viðbótar við þetta komu svo nokkrar aukaveiðiheimildir, sem komu með samningunum við Breta 1961, þar sem togveiðiskip fengu heimildir til þess að veiða á ytri 6 mílunum í ákveðnum hólfum á þessum svæðum einnig á vetrarvertíðinni. Nú eru hins vegar gerðar þær breytingar í þessum efnum, að togveiðarnar eru gerðar alveg útilokaðar á þessu svæði á þýðingarmestu mánuðum vetrarvertíðarinnar, þ.e.a.s. í marz og aprílmánuði, en eru hins vegar heimilaðar í janúar og febrúar. En þá er sjósókn á þetta svæði með allt öðrum hætti, og svo er einnig gert ráð fyrir því, að á þessu svæði megi togveiðibátar, en ekki hinir stærri togarar, veiða upp að þriggja mílna mörkum frá strandlengjunni, og þar er um nokkra aukningu að ræða á vissum svæðum, á þessu heildarsvæði, frá því sem áður var. En hér er þó ekki um ýkjastór svæði að ræða í sjálfu sér, vegna þess að grunnlínurnar voru dregnar áður með þeim hætti, að þær voru látnar elta lögun landsins á þessum svæðum allmikið, svo að hér er ekki um ýkjastór svæði að ræða. Og einnig er þess að geta, að á þessu landssvæði er ekki mikið um það að ræða, að bátar séu gerðir út á þessu tímabili, þannig að hér ætti að verða um tilfinnanlega árekstra að ræða. En það verður þó að segjast eins og er, að á þessu svæði er um talsverða aukningu að ræða, talsverða, þó að í till. sé einnig dregið úr heimildum á þessu svæði frá því, sem áður var á vissum greinum. Þegar síðan er litið á svæðið frá Skaftárósum og alveg að Reykjanesi, eða Suðurlandssvæðið og þá sérstaklega öll hin miklu Vestmannaeyjafiskimið, sem oft eru kölluð, þá er þar að vísu um að ræða talsvert verulega auknar heimildir frá því, sem áður var í lögum og reglum. En veiðiheimildirnar eru ekki miklar samkv. þessum till. umfram það, sem ákveðið var með I. frá 20. desember í vetur. Þá var gengið inn á það að heimila á þessu svæði bátum að stunda togveiðar, bátum upp að 200 rúmlesta stærð, og þegar þær reglur, sem þá voru settar, eru bornar saman við þær till., sem hér liggja fyrir, þá er ekki um verulega miklar breytingar að ræða. En það er rétt, að á þessu veiðisvæði er um allverulegar breytingar að ræða frá þeirri meginreglu, sem gilti í okkar fiskveiðilandhelgi frá árunum 1958 og einnig frá 1961. En ég hygg líka, að þeir, sem mestra hagsmuna eiga að gæta á þessu svæði, þ.e.a.s. þeir, sem eiga heima í Vestmannaeyjum og í nærliggjandi útgerðarstöðum, séu tiltölulega mjög sammála um það, að rétt sé að setja reglur svipaðar þeim, sem hér er um að ræða.

Ég kem þá næst að Faxaflóasvæðinu og gæti þá alveg rætt um leið um Breiðafjarðarsvæðið. Það er auðvitað enginn vafi á því, að á þessum tveim veiðisvæðum, þ.e.a.s. veiðisvæðinu í Faxaflóa og í Breiðafirði og reyndar einnig í Húnaflóa, þar hefur verið um langsamlega mesta friðun að ræða frá 1958 og reyndar í Húnaflóanum alveg frá 1950, langsamlega mesta friðun að ræða, sem þekkzt hefur hér innan okkar fiskveiðilandhelgi í kringum landið. Faxaflóinn er nú engin smávík, þó að menn orði það nú þannig, að það sé verið að leyfa hér togveiðar inn um víkur og firði. Breiðafjörðurinn er það ekki heldur, þó að heiti fjörður. Hann er enginn smáræðis fjörður. Fiskveiðimörkin út af Faxaflóa eru á mjög stóru svæði, yfir 40 og jafnvel yfir 50 mílur frá landi. Og það hafa verið í gildi þær reglur einnig á þessum svæðum í Breiðafirði og Faxaflóa, að þar hafa verið nokkrar heimildir til togveiða á ákveðnum árstímum. Það er rétt, að í þeim till., sem hér liggja nú fyrir og landhelgismálanefndin stendur að, þá er gert ráð fyrir nokkrum auknum togveiðiheimildum á þessum svæði, bæði í Faxaflóa og Breiðafirði. En auðvitað leikur enginn vafi á því, að eftir sem áður verður friðunarsvæðið í Faxaflóa og Breiðafirði eitt það mesta, sem þekkist við landið. Og þess er líka að gæta, að þær viðbótarheimildir, sem gerð er till. um í Faxaflóa, eru að langsamlega mestu leyti mjög utarlega í flóanum, langt frá landi, og eru aðeins á takmörkuðum tímum árs, þar sem um viðauka er að ræða. (Gripið fram í.) Já, ég kalla 40–50 sjómílur langt frá landi, en það gera nú kannske ekki allir. (Gripið fram í.) Nei, ég er að tala um Faxaflóa og Breiðafjörð, og þeir eru nú ekki aðeins rétt naumt svæði í kringum Bjargtanga. En það er rétt, að í till. n. hefur verið gengið inn á það sjónarmið að gera ráð fyrir nokkru togveiðisvæði, sem gengur talsvert langt inn í Faxaflóa, og þetta svæði er þá ætlað minnstu togveiðibátunum, bátum, sem eru undir 105 rúmlestir að stærð. Og þetta svæði á að vera þeim opið seinni hluta sumars og á haustin, en algerlega lokað yfir mesta aflatímann, þ.e.a.s. frá áramótum og fram undir 1. júní. Það virðist vera, að sumir álíti það, að það mætti kannske leyfa togveiðar allvíða í kringum landið, en þó ekki í Faxaflóa og ekki í Breiðafirði. Ja, fiskifræðingar hafa verið spurðir um það, hvort þeir teldu, að þessi tvö svæði, Faxaflói og Breiðafjörður, hefðu einhverja stöðu sem þýðingarmiklar uppeldisstöðvar fyrir fisk. Og þeir svara því alveg hiklaust neitandi, og það er ekkert. sem bendir til þess, að það sé meiri ástæða til þess að loka þessum flóum út af fyrir sig en öðrum svæðum í kringum landið. Það er líka alveg augljóst mál. að ef farið yrði eftir því sjónarmiði að ætla að loka alveg öllum Faxaflóa og öllum Breiðafirði fyrir botnvörpuveiðum, þá mundu þeir mjög svo mörgu bátar, sem eru gerðir út frá útgerðarbæjum frá þessum veiðisvæðum, auðvitað leita á miðin, þar sem opið er, og þar gæti vitanlega orðið um hættulega árekstra að ræða og ofveiði á takmörkuðum svæðum, ef þannig væri staðið að málum. Það er því mín skoðun, að ef á að auka eitthvað, sem heitir togveiðiheimildir við landið, verði þær auknu heimildir að vera allt í kringum landið, og það sé ekki hægt að skilja þar út jafnþýðingarmikil svæði eins og Faxaflóa og Breiðafjörð með öllu. En auðvitað þarf á þessum stöðum ekki síður en annars staðar að taka fullt tillit til þess, að þær togveiðiheimildir, sem samþykktar kunna að verða, séu ekki þess eðlis, að þær skapi hér óeðlilega árekstra við þá sem stunda veiðar á þessum slóðum með öðrum veiðarfærum en botnvörpu. Og það álítum við í n., að það verði reynt að miða till. við það. Það er svo auðvitað alltaf álitamál, hvort á að veita þetta miklar heimildir, sem þarna er gert ráð fyrir, eða hvort þær eiga að vera eitthvað þrengri. En það er mín skoðun, að þær heimildir, sem gert er ráð fyrir í frv. varðandi Faxaflóa og varðandi Breiðafjörð, séu enn í miklu þrengra formi heldur en hliðstæðar heimildir eru t.d. fyrir öllu Suðurlandi og Suðausturlandi, miklu þrengra formi. Ég álít líka, að t.d. lokun á Faxaflóanum alveg en aftur veiðiheimildir fyrir tog í Breiðafirði nái heldur engri átt. Ég álít, að það verði að vera visst samræmi á milli opnunar. sem gerð er í báðum þessum stóru flóum, því að annars getur verið hér um alveg óeðlilega sókn á mið annars aðilans að ræða. þar sem stór bátafloti leitaði þarna á milli.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það eru fyrir hendi mjög mismunandi skoðanir á því, hvort rétt sé að veita þær auknu togveiðiheimildir, sem gert er ráð fyrir í frv. varðandi Faxaflóa og Breiðafjörð, þó að þar sé gengið miklu skemmra til opnunar en víða annars staðar. Það er enginn vafi á því, að ágreiningur er uppi um þetta, en mér sýnist, að í þeim efnum verði menn að meta þetta nokkuð með tilliti til þeirrar stefnu, sem felst í frv. sem heild. Og ég get ekki tekið undir það, að hér sé um neinar gífurlegar viðbótarheimildir að ræða á þessum stöðum.

Næsta veiðisvæðið er svo út af Vestfjörðum. Þar er gert ráð fyrir í till. n. að opna tvö tiltölulega lítil svæði takmarkaðan tíma af árinu, aðallega að haustlagi til, svo að þar er auðvitað heldur ekki um gífurlegar breytingar að ræða, heldur tiltölulega litlar breytingar. Það heyrist stundum, að það sé eðlilegt, að það sé ekki opnað jafnmikið fyrir togveiðiskip út af Vestfjörðum eins og víða annars staðar við landið, vegna þess að þar hafi verið um tiltölulega minni friðun að ræða með reglugerðunum, sem settar voru 1958 og aftur 1961, vegna þess að þar er ekki um neina stóra flóa að gera, sem auka við friðunina, en það er nú auðvitað ekki hægt að neita því þó, að Breiðafjörður sunnan við Vestfirðina og Húnaflóinn að norðan og austan — þarna er auðvitað um stóra flóa að ræða, sem hafa allmikið að segja fyrir fiskimið Vestfirðinga, og þeir nutu auðvitað á sínum tíma mjög góðs af þeirri friðun. ekki síður en aðrir.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, sýnist mér augljóst af þessum till., sem hér liggja fyrir, að það sé ekki hægt að tala um það, að hér sé um neitt gífurlega mikið stökk að ræða til aukinna togveiðiheimilda frá því, sem í gildi hefur verið. Það er um talsverðar breytingar á vissum árstímum að ræða, það er rétt, og vissum stöðum við landið, og ef menn taka einnig með í reikninginn það, sem samþykkt var með I. frá 20. des. í vetur, er hér ekki um ýkjamiklar togveiðiheimildir að ræða umfram það. sem þá var ákveðið.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta mikið meira að þessu sinni, en vil taka það alveg skýrt fram varðandi mína afstöðu. að mín afstaða til málsins mótast af því, að ég hef tekið hér þátt í samkomulagi í landhelgismálanefnd um það að reyna að finna hér sæmilega skynsamlega lausn á þessu erfiða máli. Ég tel því, að það skipti miklu máli, að till. n. fari hér í gegn og verði lögfestar lítið eða ekki breyttar. Verði gerðar á þessu verulegar breytingar á ákveðnu svæði, þá tel ég fyrir mitt leyti alveg óhjákvæmilegt að gera breytingar á fleiri stöðum, því að málið hangir hér saman sem heild, og það er ekki hægt að gera hér verulegar breytingar á einu veiðisvæði og skilja þá hitt alveg eftir. Því tel ég, að það skipti hér mestu máli að reyna að skapa samstöðu um það að samþykkja till. n. eins og þær liggja hér fyrir, a.m.k. lítið breyttar. Og mín afstaða til málsins er bundin við það. Ég vil fylgja frv. eins og það liggur fyrir í öllum aðalatriðum, en áskil mér alveg rétt til þess að breyta um afstöðu, ef samþ. verða á frv. einhverjar veigamiklar breytingar.

Þá vil ég einnig leggja ríka áherzlu á það, að þegar lög verða nú sett um þessi mál að nýju, þá skiptir það auðvitað öllu máli, að það sé ákveðið að framfylgja þeim alveg miskunnarlaust og gera öllum hlutaðeigendum það ljóst, að þeir geta ekki vaðið inn fyrir þau mörk, sem sett eru, að eigin vild, eins og átt hefur sér stað með gömlu reglurnar. Ég tel einmitt, að með þessum nýju reglum eigi að koma í veg fyrir það, að togveiðiskip íslenzk geti vaðið inn á víkur og firði á svipaðan hátt og átti sér stað í mörgum tilfellum nú aðeins á s.l. ári, svo að maður fari ekki lengra aftur í tímann. Þessar reglur eru hugsaðar að standa í rúmlega tvö ár og þurfa því vitanlega að takast til endurskoðunar á því tímabili. Hér er því um vissa tilraun að ræða, og svo verður auðvitað reynslan að skera úr um það, hvort rétt sé að draga þessar veiðiheimildir eitthvað til baka eða hvort rétt sé að auka þær a.m.k. á vissum svæðum og vissum tímabilum frá því, sem gert er ráð fyrir í þessum till. En málið fer nú til sjútvn., og þar fæ ég aðstöðu til þess að fjalla um málið áfram og skal því ekki ræða frekar um það hér við þessa umr.