02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú vera stuttorður og reyna að haga orðum mínum þannig. að þau þurfi ekki að gefa tilefni til andsvara eða deilna. Mér þótti þó rétt að gefa í mjög stórum dráttum yfirlit yfir þau störf, sem þarna hafa verið unnin í landhelgisnefnd í sambandi við þær till., sem hér hafa komið fram til breytinga. Ég skal taka fram, að þó að till. komi fram um breytingar á þessu frv., þá er síður en svo, að ég fari í nokkra fýlu í því sambandi. Við reiknum alltaf með því, að það hljóti að koma, en ég vil undirstrika það mjög, að þetta mál í heild eins og það hefur verið sett fram hangir raunverulega allt saman saman. Hvert veiðisvæði bindur annað nokkuð, og verði gerðar róttækar breytingar á einu veiðisvæði, þá hefur það óneitanlega áhrif á aðstöðu frá öðrum verstöðvum. Ég vil mjög biðja menn að athuga þetta, því að vissulega fékk n. ábendingar um margt. bæði frekari opnanir og frekari lokanir, en hún reyndi að vinna þannig að þessum málum, að það væri mætt svona sjónarmiðum sem flestra aðila á þann veg, að ekki þyrfti að koma til neinna stórdeilna um málið eða annars slíks.

Í sambandi við till. á þskj. 622 frá Geir Gunnarssyni o.fl., þar sem lagt er til, að hólfið í Faxaflóa verði nú látið niður falla. fellt út, þá hygg ég, að allir sjái, sem nokkuð þekkja inn í þessi mál, hafa kynnt sér þau, að það hlýtur óhjákvæmilega að hafa nokkur og allveruleg áhrif á Breiðafjarðarsvæðið og aðstöðu þeirra báta, sem þaðan eru gerðir út. Hvort þessi eina míla, sem þar er lagt til, að verði farið utar við Snæfellsnes sjálft, það tel ég alveg sjálfsagt að skoða og eins það, sem hv. 3. þm. Vesturl. benti á með hólfið utan til í Breiðafirði, sem ætlað var öllum skipum, hvort það yrði látið ná til allra eða þá smærri skipa, eins og hann var nú með í huga. Það er sjálfsagt að skoða það einnig, en Breiðafjarðarhólfið er sett alveg eins og það kemur fram á kortum, alveg eins og hv. 3. þm. Vesturl. réttilega sagði, þetta virtist vera það, sem gat orðið samkomulag við þá aðila, sem þarna stunda útgerð. Ég skal viðurkenna, að við vorum ekki með sjónarmið Vestfirðinga í huga, þegar var verið að setja þetta svæði niður, og ég minnist þess ekki, það má vel vera, að það sé rangt hjá mér, en ég minnist þess ekki, að á Ísafjarðarfundinum hafi komið ábendingar eða mótmæli um Breiðafjarðarsvæðið. Má vel vera, að þetta hafi farið framhjá mér, en ég minnist þess ekki, þannig að við vorum þarna í sambandi við þennan stað mjög að fara eftir till. þeirra aðila, sem þarna stunda veiðarnar mest. Það vita Vestfjarðabátar, þeir stunda sérstaklega yfir vetrarvertíðina veiðar inni á Breiðafirði og út af Breiðafirðinum, en ég hygg, að það svæði, sem þarna er um að ræða norðan til og gert er ráð fyrir, að sé opnað frá 16. september til áramóta — það er þá af ókunnugleika mínum. en ég hélt, að þetta væri á þeim tíma ákaflega lítið stundað af Vestfjarðabátum. Nú má það vel vera, eins og ég segi, að það sé af ókunnugleika mínum, að ég viti ekki um það, en ég hef staðið í þeirri meiningu, að á þessum tíma, september og til áramóta, stunduðu Vestfjarðabátar lítið veiðar þarna inni á Breiðafirðinum.

Með Húnaflóasvæðið voru vissulega uppi raddir og till. um það að fara miklu róttækara í Húnaflóann heldur en við gerðum. Það voru ábendingar um að fara að taka hólf inn í Húnaflóann, langt inn fyrir það, sem nú er gert ráð fyrir. Við vissum um harða andstöðu gegn þessu og tókum það því út aftur. vegna þess að við vildum ekki setja málið í kannske beina hættu eða fá mjög harða andstöðu við slíkri till. og fórum því inn á það að færa þetta utantil nokkuð innar heldur en þm. Vestfirðinga vilja fallast á, en slepptum aftur því, sem mjög var mikið rætt um, að taka hólf inn í sjálfan Húnaflóann.

Um það, sem kemur fram í till. Geirs Gunnarssonar o.fl., að hafa þetta aðeins bundið til ársloka 1970, ég mundi telja það of stuttan tíma. Að mínum dómi þarf meiri reynslu á það heldur en við getum fengið á þessum tíma, sem þar um ræðir. Ég hygg, að skemmsti tíminn, sem við getum reiknað með að afla okkur nokkurrar verulegrar reynslu á í sambandi við þetta, sé að þetta standi til ársloka 1971, eins og gert er ráð fyrir í I. Ég hygg, að nm. hafi allir verið sammála um það. Það voru hugmyndir um að hafa svigrúmið lengra, en þetta varð samkomulagsatriði, en ég held, að við höfum allir talið, að þetta væri sá stytzti tími, sem mætti vera, til þess að við gætum aflað okkur reynslu í málinu og framkvæmd þess.

Í sambandi við till., sem fram kemur á þskj. 610 frá Pétri Sigurðssyni, um að veita togurum sama rétt og öðrum stærri bátum, þá var þetta vissulega mjög mikið rætt í n. Það sem ég hygg, að fyrir okkur öllum hafi vakað, er það, að við vildum sýna þarna meiri gætni heldur en þessi till. gefur tilefni til. Þó að það sé talað um, að höfuðlína sé, eins og rétt er, kannske ekki mikið lengri á stórum togara heldur en stórum bát, þá er það alveg vitanlegt, að þarna er um mun aflmeiri og kröftugri skip að ræða og þau geta farið yfir svæði, sem bátar ná ekki til að fara yfir, og það vakti fyrir mér nokkur ótti um togarana. Þó að þeir séu ekki fleiri en þeir eru í dag. þá gæti það farið svo víðar, að það hefðu kannske allir minna út úr því heldur en eðlilegt væri, bæði togarar og bátar, og þetta gæti orðið að því leyti til þess að skemma fyrir öllum, sem þessar veiðar vilja stunda. Af því var þetta sett eins og við gerðum. En ég skal geta þess í sambandi við togarana, að þó að kannske einstaka mönnum finnist, að þeirra málum hafi verið lítið sinnt af n., þá er það þó svo, að hinir fyrstu aðilar, sem komu að tala við okkur frá togaramönnunum, þeir vissulega settu fram kröfur um það, að togarar fengju nákvæmlega sama rétt og bátar eða önnur skip, sem togveiðar stunduðu. Þetta var þeirra aðalkrafa, en þegar farið var að ræða um þann hugsanlega möguleika, að þetta mundi ekki nást fram á Alþ., jafnvel þó að n. hefði viljað leggja það til, þá mundi það ekki nást fram á Alþ., þá bentu þeir þarna vissulega á ákveðna staði, sem mundu verða þeim til hagræðis, ef þeir yrðu opnaðir. Það var talað bæði um Kolbeinsey, Hvalbak, aðstæðurnar við Eldey og aðstöðuna út af Faxaflóa. Þetta minntumst við allt á, að mundi verða þeim eitthvað til hagræðis, og auðvitað er þetta nokkuð þeim til hagræðis, að þarna hefur verið opnað meira fyrir þeim. mun meira á þessum stöðum öllum heldur en áður var, þó að ég þykist vita, að þeir hafi sömu afstöðu og áður og telji, að þarna eigi engin skipting að vera á milli, en það er bara þetta, sem ég a.m.k. tel, að verði að hafa mjög vakandi auga fyrir, að það verði ekki farið það róttækt í þetta, að það verði til þess að skemma meira og minna fyrir öllum, þannig að það komi ekki út úr þessu, hvorki fyrir bátana né togarana, það sem hægt er með öðru móti að fá út úr því, því að miðin eru því miður yfir sumartímann ekki það sterk, að það verður vissulega að gæta alls hófs í sambandi við veiðarnar á þeim tíma.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi, að ég mundi verða stuttorður, og ég skal standa við það. Ég tel ekki, að ég þurfi að fara fleiri orðum um þetta nú við þessa umr., en ég hygg, að við séum allir sammála um það að skoða þau smærri atriði, sem hér hefur verið bent á, skoða þau að nýju. En ég vil mjög undirstrika það, sem ég gerði í upphafi, að málið hangir allt saman saman. Veiðarfærin eru sett eins og þar er gert að mjög yfirveguðu, þrautyfirveguðu, máli og byggt á þeim óskum og ábendingum og niðurstöðum þeirra viðræðna, sem urðu eftir margvísleg samtöl við einstaka hagsmunahópa og einstaklinga víðs vegar og ég vil segja um land allt, þannig að ég vona það, að þetta mál leysist í stórum dráttum, eins og frv. er lagt fram, og það verði til þess að ná þeim árangri, sem við, sem trúum því, að það megi nokkuð bæta aðstöðu vélbátaflotans með auknum togveiðum — það verði til þess að sá árangur, sem við væntum, komi síðar í ljós, ef frv. verður samþ. og bátunum gefin til reynslu þennan tveggja ára tíma aðstaða til þess að nýta fiskimiðin á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv.