02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var ekki hér við á föstudag, þegar umr. fóru fram, en skal ekki halda langa ræðu þar fyrir. Ég flutti á sínum tíma frv. um lausn á þessu máli. en hún gekk skemmra en þessi. þannig að þar var aðallega miðað við minni báta og ekki jafn ákveðnar reglur settar og eru í þessu frv. Ég vil á engan hátt vanþakka þessari n. hennar störf, hún hefur unnið þarna mikið verk og reynt að kynna sér þetta, en það eru viss atriði, sem ég er ekki sammála. Það, sem næst mér er, er Húnaflóasvæðið. Í því atriði er breytt frá þeirri grunnlínu, sem gildandi er, og farið eftir gamalli grunnlínu inn að Selskeri, það er sem sagt leyft stærra svæði til veiða fyrir stærri togara og rýmkað ákaflega mikið fyrir þá. Ég sé ekki, að það sé bein ástæða til þess. Við höfum ekki óskað eftir þessu í Norðurl. v., og ég veit ekki til þess um Vestf., ég held, að þeir séu á móti því líka. Ég held allir. Ég veit þess vegna ekki, hvaða ástæða hefur verið fyrir n. að fara að miða við eldri grunnlínu, en ekki þá, sem nú er. Hins vegar er ég ánægður með þær till. að hafa 2 mílur eingöngu fyrir báta. Ég tel raunar óþarft að leyfa togurunum að fara jafn mikið inn fyrir landhelgislínuna eins og gert er, bæði á Húnaflóa og eins víðar. Til þess höfum við stór skip, að þau geti veitt á meira dýpi og fjarlægari miðum, og ef þau geta það ekki, þá hafa þau enga kosti umfram bátana. Ég var samferða manni suður í gær, sem hafði verið á togara. Sigurði, s.l. vor. Hann sagði mér, að á 3 dögum hefðu þeir fyllt hann af karfa við Grænland, svo að segja innan um ísinn. Þarna eru möguleikar fyrir þessi skip að veiða, sem ekki er fyrir minni bátana. Ég ætla ekki að skipta mér af því hérna við Suðurlandið. Mér virðast þeir hafa gengið of langt, en ég ætla ekki að gera neinar till. um það eða deila á þær ákvarðanir, en ég get ekki neitað því, að mér finnst vera gengið of langt þar, því sums staðar er leyft að veiða alveg upp að fjöruborði. Við vitum, að smáfiskurinn heldur sig meira fyrir norðan, þar vex hann upp, svo það má vera, að þetta sé ekki svo skaðlegt. Ég vil ekki fullyrða það. En þó þykir mér nokkuð langt gengið, einkum vestan við Eyjar, en þeir um það. Reynslan sker úr um það. hvað hentugt er. En ég sé enga ástæðu fyrir þm. að vera á móti þessari brtt. okkar um Húnaflóasvæðið. Við óskum eftir þessu þm. Norðurl. v. og eins þm. Vestf., og ég sé þess vegna enga ástæðu fyrir þm. að leyfa okkur ekki að koma þeirri breyt. fram. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða fyrir n. að gera það að miklu metnaðarmáli að fá frv. svo að segja alveg óbreytt í gegn. Það er eins og gerist og gengur, n. semja frv. og leggja þau fram, og svo geta komið fram brtt. og er ekkert óeðlilegt. Viðvíkjandi bátunum þá er það þannig, að það er farinn að koma ís nokkuð oft fyrir norðan, og þá verður það þannig í framkvæmd, að þeir fara ekki nákvæmlega eftir þessu, ef aðstaðan er þannig, að þeir geti ekki veitt annars staðar, enda heimilt samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir, ef samþ. verður að veita undanþágur í slíkum tilfellum. Hvað snertir Faxaflóa og Breiðafjörð á að veita stærri togurum og stærri bátum leyfi til að veiða á vissum svæðum inni í fjörðum. Það verður í framkvæmdinni þannig, að þessi skip veiða bara þar sem þeim sýnist í þessum fjörðum. þar sem togveiðisvæði eru, og þannig verður það með bátana líka. Þið sannið til, hvernig gengur að halda þeim við einhverja vissa geira. þegar þeir vita, að varðskipin eru ekki á stjái og ekki flugvélar, þá skjótast þeir eitthvað inn fyrir línuna. Annars mun reynslan skera úr um það. En ég er sammála því, sem Jón Árnason hefur haldið fram, að við ættum að friða Faxaflóann fyrir dragnót og togveiði. Ég er sannfærður um, að þarna eru miklar uppeldisstöðvar. Ég hef ekki ómerkari mann fyrir mér heldur en Jón Axel bankastjóra, hann sagði mér, að hann hefði verið við veiðar á Faxaflóa, þeir hefðu reynt smáriðna nót, sem hann sagði, að hefði verið alveg full af seiðum, ufsaseiðum, ýsuseiðum og þorskseiðum. Hins vegar segir Jón Jónsson fiskifræðingur, að þorskseiðin haldi sig aðallega fyrir norðan og þar sé þeirra aðaluppeldisstöð. En þeir, sem hafa verið við veiðar á Faxaflóa með smáriðnar nætur, hafa sagt mér, að það sé fullt af þessum seiðum hér í Faxaflóa. Við vitum, að straumarnir liggja þannig og hafa alltaf legið, að þeir liggja til vesturs fyrir Reykjanesið og svo inn á flóann. Hvernig fóru öndvegissúlur Ingólfs? Hvernig fóru öndvegissúlur Þórólfs mostrarskeggs? Þær bárust til Stykkishólms. Það þarf enginn að segja mér, þótt þeir segi, að þorskseiðin haldi sig aðallega fyrir Norðurlandi, að það sé ekki fullt af þeim hér á innfjörðunum líka. Annað atriði drap ég á í n., og það var það, að við legðum til, a.m.k. færðum það í tal hér, að stækka möskvastærðina. Ég hef átt tal um þetta við Jón Jónsson fiskifræðing, og hann sagði mér, að hann væri því frekar meðmæltur, að hún væri stækkuð a.m.k. í 135–140 mm. Það eru dálitlar deilur um það. hversu mikið möskvarnir dragast saman, þegar togað er, Jón heldur því fram, að þeir dragist ekki mikið saman, og þykist hafa myndir af því, hafa rannsakað það. En aftur hafa vanir togveiðimenn sagt mér, að þeir dragist mjög mikið saman. Ég hef ekki fengizt við togveiðar, svo ég get ekki persónulega fullyrt neitt um það. En hvað sem því líður, þá er það atriði út af fyrir sig, að það er skaðaminna í öllum tilfellum að veiða í tog með því að hafa möskvastærðina meiri, og það ættum við að geta gert okkur að skaðlausu. Reynslan sýnir, að bátar norðanlands veiða mjög vel í tog, og við hefðum alltaf getað haft nóg hráefni, ef togveiðar hefðu verið stundaðar. En þó togveiðar séu hagkvæmar og hentugar, þá þurfum við að hafa viss takmörk fyrir því, hversu langt er gengið í því efni. Ég held, að við ættum að athuga það vel með Faxaflóann að leyfa ekki togveiðar og dragnótaveiðar eins mikið og verið hefur. Auk þess væri hentugt að friða þetta svæði fyrir togveiði og þar væru stundaðar línuveiðar og færaveiðar. Þetta er hentugt fyrir fólk hér í bænum, bæði skólafólk og fleiri, að hafa möguleika til þess að stunda þessa atvinnu að sumrinu a.m.k. Ég efast um. að við höfum efni á að hafa jafnmörg prósent af þjóðinni í alls konar þjónustustörfum og gert er nú, og þá geti verið gott fyrir þá, sem hættu störfum hjá ríkinu, að hafa aðstöðu til færaveiða í Faxaflóa, þannig að ég held, að frá hagnýtu sjónarmiði geti það verið mjög hagkvæmt að friða einmitt Faxaflóann fyrir togveiðum og stunda þar færaveiðar og línuveiði og e.t.v. veiði í þorskanet, því að þorskanetin taka ekki smáfiskinn, þannig að ef þetta frv., sem Jón Árnason flytur í Ed., kemur hér í deildina. þá geri ég ráð fyrir, að ég muni styðja það. Ég er á móti því að leyfa togveiðar í Faxaflóa og mun greiða atkv. með þeirri brtt. Ég hef einnig samúð með því að banna togveiðar á Breiðafirði, þó má vera, að það geri minna til, ég skal ekki fullyrða það, en ég er sannfærður um það með Faxaflóann í gegnum viðtöl við vana fiskveiðimenn, að það er stórkostleg uppeldisstöð bæði fyrir ýsu og ufsa. Geri ég ráð fyrir, að Breiðafjörður sé það líka.