02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi gera hér nokkrar athugasemdir við það, sem hér hefur komið fram í umr. um þetta mál, og þá alveg sérstaklega það. þegar því er haldið hér fram, að hér liggi fyrir till. um óeðlilega rúmar togveiðar í Faxaflóa, á Breiðafirði og í Húnaflóa. Ég hef sagt það hér áður í þessum umr., en hlýt að undirstrika það enn einu sinni, að hver sá, sem vill virða fyrir sér þau kort, sem hér liggja fyrir, og kynna sér málið, eins og það er í raun og veru, hann hlýtur að sjá það, að eftir sem áður verður langsamlega mesta friðunin fyrir botnvörpuveiðum við allt landið á þessum 3 svæðum, í Faxaflóa, á Breiðafirði og í Húnaflóa, og þó allra mest í Húnaflóa, sem síðasti hv. ræðumaður var hér að tala um. Húnaflói er auðvitað enginn smáræðis fjörður. Breiddin á honum er 25–35 mílur, og það er ekki verið að tala um það að leyfa mönnum að veiða með botnvörpu inn um allan Húnaflóa. Hinn eiginlegi Húnaflói, sem jafnan hefur verið talinn markast af línu, sem dregin er frá Skaga og þvert yfir flóann að Selskeri úti fyrir Ströndum, og þó er Selsker þar nokkru norðar — það er ekki talað um að heimila neinar veiðar á hinum eiginlega Húnaflóa með botnvörpu, ekki neinar, hvorki fyrir litla né stóra báta. Deilan stendur aðeins um það varðandi Húnaflóa, sem menn kalla hér, hvort eigi að leyfa á svipaðan hátt veiðar með botnvörpu úti fyrir Ströndum norðanverðum. eins og leyft er svo að segja allt í kringum landið. þar sem m.a. bátaveiðar eru stundaðar í stórum stíl frá nærliggjandi byggðarlögum. Að halda því fram, að það sé óeðlilegt að leyfa togveiðar fyrir norðanverðum Ströndum, þar sem ekki er um nein sjávarbyggðarlög að ræða nærliggjandi, leyfa þar svipaðar veiðar með botnvörpu eins og t.d. er á tímabili úti fyrir Vestfjörðum, úti fyrir Austfjörðum og annars staðar kringum landið, er vitanlega hreint ofstæki í þessum efnum og ekkert annað. Hér er því ekki um það að ræða, að hér sé verið að ganga verulega nærri í þessum efnum. Og nokkuð svipað er að segja um Faxaflóa, sem hér hefur verið rætt allmikið um, að þar er gert ráð fyrir því í þessum till., að nánast verði Faxaflói allur, hinn eiginlegi Faxaflói, sem miðast þá við línu, sem dregin er frá Garðskaga, reyndar 4 sjómílur í vestur af Garðskaga, og að Malarrifi á Snæfellsnesi, að það verði ekki leyfðar neinar togveiðar þarna fyrir innan þessi mörk að frátöldu því, að minnstu togveiðibátar, upp að 105 rúmlesta stærð, megi veiða seinni part ársins eða yfir sumarið og haustið á litlu takmörkuðu svæði, miðað við flóann sem heild. Þetta eru auðvitað miklu minni togveiðiheimildir á Faxaflóa heldur en annars staðar við strendur landsins, það hljóta allir að sjá. Og ég fullyrði það, að þetta er mun minna, ef staðið verður vel að framkvæmdinni á þessum reglum, heldur en hefur verið í framkvæmd að undanförnu, eins og að þessum málum hefur verið staðið. Það er minna.

Menn geta svo í sambandi við þessi mál farið að rifja upp fyrri baráttutíma Íslendinga um Faxaflóa, þegar jafnt okkar fiskifræðingar og þjóðin öll sameinaðist um það hér fyrir 2 áratugum síðan, að það þyrfti á aukinni fiskfriðun að halda við strendur landsins og m.a. þyrfti að snúa sér að því að auka fiskfriðun í Faxaflóa og taka upp gömul skrif og gamlar ræður frá þessum tíma, en þá var svo ástatt og hafði verið svo ástatt hér við land um langan tíma, að ekki aðeins allir íslenzkir togarar, heldur einnig allir erlendir togarar, máttu stunda togveiðar inn um allan Faxaflóa og elta þriggja mílna mörkin miðað við strandlengju inn um allan flóa allt árið, því að þá gilti hér þriggja mílna landhelgi eftir þessari reglu. Þá var þjóðin auðvitað sammála um það. að hér væri gengið allt of nærri og að við þyrftum hér á aukinni fiskfriðun að halda, og okkar fiskifræðingar börðust þá fyrir því, að aukin yrði friðun í Faxaflóa, og síðan höfum við náð því fram og friðað Faxaflóann á þann hátt, að hann hefur samkvæmt reglum nánast verið lokaður fyrir botnvörpu. Það hefur verið heimiluð nokkur dragnótaveiði í flóanum, en hreint ekki mikil. Það er rétt, að það hefur verið brotið nokkuð, en nú er um það að ræða að reyna að setja reglur og setja hömlur á þetta. Það er auðvitað alger fjarstæða að ætla að fara að koma með grg. frá þessum fyrri tíma í þessa átt, og þeir, sem það gera, ættu bara að lesa t.d. bók, sem Árni Friðriksson fiskifræðingur, sem hér var vitnað í í þessum efnum, gaf út varðandi togveiðar og dragnótaveiðar, þar sem hann mælir eindregið með því að heimila dragnótaveiði allt í kringum landið og um allan Faxaflóa og telur, að hér sé um álíka fordóma að ræða í sambandi við það að leyfa dragnótaveiðar, m.a. í Faxaflóa, eins og það hafi verið á sínum tíma, þegar menn börðust á móti því, að það mætti nota beitu á krókana, og vildu banna slíkt, og það var bannað, og ýmsar aðrar hliðstæðar reglur voru þá í gildi. Við skulum alveg gæta að því, að jafnhliða því, sem við viljum halda hér uppi eðlilegum reglum, sem verndað geta fiskistofnana við landið, svo dýrmætir sem þeir eru fyrir okkur, þá skulum við ekki setja þannig reglur, að við getum ekki nýtt þessa fiskistofna með eðlilegum hætti. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það getur verið hættulegt að heimila hér of miklar botnsköfuveiðar inn um þessa þýðingarmiklu flóa eins og Faxaflóa, Húnaflóa, Breiðafjörð og aðra flóa við landið, en ég vil ætla það, að þær till., sem hér liggja fyrir núna varðandi þessi mál, taki fyllilega tillit til þessa, og það er í mesta máta óeðlilegt, þegar menn standa þannig að málum, að þeir vilja ætlast til þess, að áfram verði haldið að heimila togveiðar einnig fyrir hina stærstu togara t.d. fyrir öllu Suðurlandinu og hálft árið fyrir öllu Austurlandi og víðar, ýmist upp að fjögurra mílna mörkum eða upp að þriggja mílna mörkum, en á sama tíma gera menn kröfur um það, að flóar eins og Faxaflói séu með öllu lokaðir, jafnvel þó ytri mörk landhelgisfiskveiðimarkanna séu um 50 mílur frá landi út af miðjum Faxaflóa. Það gefur auðvitað alveg auga leið, að ef slíkum till. ætti að fylgja, þá hlyti það að leiða af því, að það yrðu gerðar breytingar á þessum mörkum líka annars staðar við landið. Ég verð að játa það með mig, að ég get ekki fengið mig til þess að hugsa á þann hátt. sem sá hv. þm. gerir, sem hér talaði næstur á undan mér, hv. 5. þm. Norðurl. v., en hann sættir sig prýðilega við það, eftir hans málflutningi, að loka meginhlutanum af Norðurlandi fyrir togveiðum, fyrir því að menn geti þar veitt smáan fisk, vegna þess að hann hefur það í huga, að þessi fiskur eigi eftir að synda síðar meir suður fyrir land og veiðast af þeim í Vestmannaeyjum, sem ætla sér að toga allt upp í landsteina þar. Ég geri mér grein fyrir því, að það er rétt, að sá fiskur, sem er hér á fiskimiðunum við landið, er í öllum höndum sami fiskurinn fyrir norðan og fyrir sunnan. Landsmenn eru allir að ganga hér með sínum veiðum í einn og sameiginlegan sjóð. Það er engin von til þess, að einn landshluti hagi sínum málum þannig. að hann neiti sér um að fiska, til þess að annar landshluti geti svo fiskað þennan fisk síðar meir. Það er engin von til slíks. Ég held, að það þurfi sjómenn og útgerðarmenn af alveg sérstakri tegund til þess að fallast á þetta sjónarmið. Því er það, að ef togveiðar eru leyfðar við landið, þá verða að gilda um það nokkuð svipaðar reglur allt í kringum landið. Og ég verð nú að segja það, að varðandi þá, sem búa í kringum Húnaflóa og hafa verið á margan hátt harðast leiknir á undanförnum árum vegna atvinnuleysis og lélegrar afkomu, að það er lítil huggun fyrir þá að loka sínum veiðisvæðum, m.a. fyrir botnvörpu, þó að þeir í Vestmannaeyjum fiski þeim mun betur í staðinn. Ég er ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti, að það væri hægt með eðlilegum hætti að koma á land til vinnslu við Húnaflóann margföldu því fiskmagni, sem þar hefur komið á land að undanförnu, ef menn stæðu að veiðunum með eðlilegum hætti.

Ég tel, að þær till., sem hér liggja fyrir, séu, eins og við höfum tekið fram, sem að þessum till. stöndum, málamiðlunartill. Og það er hreint ekki gengið langt í þá átt að opna fyrir togveiðum og alls ekki lengra en svo, að það fær fyllilega staðizt. Og ef þessum reglum verður framfylgt á eðlilegan hátt, ætti að vera hér betur staðið að málum en hefur verið í reynd, eins og framkvæmdin hefur verið á landhelgismálunum.

Það hefur verið gerð hér grein fyrir því, að sjútvn. þessarar d. hefur viljað fallast hér á nokkrar brtt., sem hafa komið fram, efnislega séð. Ein þeirra var um það að heimila ekki togveiðar alveg eins nærri landi og gert var ráð fyrir í tillögunum á litlu svæði framan á Snæfellsnesi, og því sjónarmiði, sem fram kom í brtt. um það efni, hefur í rauninni verið mætt í aðalatriðum. Þá hefur n. einnig fallizt á það, að sett verði inn í frv. ákvæði þar að lútandi, að ef skipstjóri gerist brotlegur við þessar reglur ítrekað, skuli heimilt að svipta hann skipstjórnarréttindum um tiltekinn tíma. Og þá verður það auðvitað að metast af dómstólunum hverju sinni, hversu brotið er alvarlegt, og réttindasviptingin að fara eftir því. Nú, það var nokkuð leitað eftir því í sjútvn. hvort hægt væri að skapa samstöðu eða meiri samstöðu um afgreiðslu málsins en hér virðist vera, með því að eitthvað yrði gengið til móts við þær till., sem fram hafa komið til breyt. á frv. En það reyndist nú ekki vera, og því liggja till. fyrir að öðru leyti eins og þær komu hér fram í frv. Ég hef lýst því yfir sem minni skoðun, að ef svo fer, að gerðar verði á þessu frv., sem er samkomulagsfrv., breyt., sem fela í sér verulega efnisbreyt. eins og t.d. sú till. að ætla sér að halda sig við það að friða Faxaflóann fyrir botnvörpu algerlega, þýðir það, að ég fyrir mitt leyti mun ekki fylgja frv. eins og það liggur fyrir og breyta afstöðu minni til opnunar á öðrum stöðum líka. Ég tel alveg sjálfsagt, að þá verði Breiðafirði lokað á sama hátt, ef á að loka öllum Faxaflóa. Og þá verður af skiljanlegum ástæðum einnig að gera breytingar á veiðiheimildum annars staðar við landið.

Hv. 4. þm. Reykv. lagði hér spurningu fyrir ríkisstj. varðandi þýðingarmikið mál hér, um það hvort ekki yrði að telja, að aðstaða okkar Íslendinga kynni að versna í því máli að fá aukna friðun á tilteknum fiskimiðum fyrir utan 12 mílna fiskveiðimörkin fyrir Norðausturlandi umfram það, sem nú gildir, ef við samþykktum frv. af þeirri gerð, sem hér liggur fyrir. Ég ætla mér nú ekki að fara að svara fyrir hæstv. ríkisstj., það gerir hún að sjálfsögðu sjálf. En ég vil láta uppi mína skoðun varðandi þetta atriði, því að hér er um þýðingarmikið atriði að ræða. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að við Íslendingar og aðrir þeir, sem veiða hér fisk við Ísland, veiðum allmikið af smáum fiski langt fyrir utan okkar fiskveiðitakmörk. Það er nú einu sinni svo, að smái fiskurinn heldur sig ekki eingöngu inni í fiskveiðilandhelginni. Nú að undanförnu hafa t.d. togveiðiskip fyrir Austurlandi veríð að afla allvel og veitt mjög smáan fisk, en veiðislóð þeirra hefur verið um 30 sjómílur suðaustur af Hvalbak, sem er útsker alllangt úti í hafi. Við höfum ekki aðstöðu til þess að setja þar einir reglur um veiðar á þessum slóðum, og svona er þessu farið víða í kringum landið, og það er vitanlega mikið áhugamál fyrir okkur Íslendinga, að hægt verði að fá samkomulag um það við aðrar þjóðir, sem veiðar stunda hér við land, að takmarka með settum reglum smáfiskveiðarnar hvar sem er hér við landið. Ég get ekki ætlað, að það ætti að draga úr möguleikum okkar til þess að fá samkomulag við aðrar þjóðir í þessum efnum, þó að við leyfum nokkra veiði í okkar fiskveiðilandhelgi með botnsköfuveiðarfærum, þegar það liggur fyrir, að allar aðrar þjóðir, sem stunda fiskveiðar hér við land, leyfa botnvörpuveiðar í sinni eigin fiskveiðilandhelgi í miklu ríkara mæli en við gerum. Og hvernig ættu þær þá að geta krafizt þess af okkur, að við lokuðum einir allri okkar fiskveiðilandhelgi fyrir botnvörpuveiðum, til þess að þeir vildu eiga við okkur samkomulag um reglur varðandi þessi mál? Ég get því ekki séð það, að samþykkt á þessu frv. ætti á nokkurn hátt að spilla okkar stöðu varðandi þetta mál. Því aðeins gæti það verið að mínum dómi, að því yrði haldið fram með réttu, að við værum að ganga óeðlilega hér á fiskistofnana með smáfiskveiði okkar. Nú liggur það hins vegar fyrir í opinberum skýrslum frá Alþjóðahafrannsóknastofnuninni, að engin þjóð, sem veiðar stundar hér við land, veiðir jafnlítið hlutfallslega af smáum fiski og við Íslendingar. Allar hinar þjóðirnar veiða miklum mun meira af smáum fiski miðað við heildarveiðimagn sitt en við gerum. Okkar staða í þessum efnum er því mjög sterk. Ég hef ekki neina ástæðu til þess að ætla, að breytingar á þessu hlutfalli yrðu neitt teljandi, þó að þetta frv. yrði samþykkt.

Nú. ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál að sinni, en vil nú vænta þess, að þeir hv. þm., sem hér hafa einkum komið fram með óánægju út af þeim till., sem hér liggja fyrir, reyni að átta sig til hlítar á því, hvernig till. eru í raun og veru miðað við þær reglur, sem í gildi hafa verið, og að þeir reyni að setja sig í þau spor, að það verði að gilda nokkuð svipaðar reglur um veiðarnar allt í kringum landið. Það geta ekki gilt allt aðrar reglur í Faxaflóa en í Breiðafirði, og það geta ekki gilt allt aðrar reglur um veiðar í Breiðafirði en annars staðar við landið. Auk þess er rétt, að menn hafi það í huga, að þetta frv. er þannig upp byggt, að það á ekki að gilda nema í tvö og hálft ár. Þá ganga þessar reglur samkv. lögunum sjálfum úr gildi. Lögin verða að endurskoðast, og hafi Alþ. ekki sett nýjar reglur fyrir árslok 1971, eru þessar reglur úr gildi fallnar, svo að hér er um tilraunatímabil að ræða, þar sem stefnt er að því að reyna að leysa mikið vandamál, sem allir viðurkenna. að hefur verið komið í hið mesta óefni hjá okkur núna að undanförnu, því að það er í rauninni ekki hægt að búa við það ástand, sem upp var komið, það viðurkenna allir. Ég vil því mega vænta þess, að við nánari athugun geti nú meiri hl. þdm. fallizt á það, að þær reglur, sem er að finna í þessu frv., séu réttlátar miðað við allar kringumstæður.