02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. mikið, enda hef ég ekki ástæðu til þess. En það voru viss atriði, sem komu fram í ræðu seinasta hv. ræðumanns, sem mér finnst rétt að víkja nokkrum orðum að. Hann er nú orðinn svo mikill áhugamaður í þessu máli, að hann gengur alveg fram fyrir skjöldu ráðh. og svarar fsp., sem er beint til þeirra.

Nú, það getur vel verið, að ráðh. láti þetta svar gilda, svoleiðis að það komi ekki annað frá þeim. En í tilefni af því finnst mér rétt að segja þetta: Alþ. hefur sett það takmark í landhelgismálunum, að fiskveiðilandhelgin nái til alls landgrunnsins. En það hefur nú verið heldur lítill skriður á því máli að undanförnu. Það getur vel farið svo, þrátt fyrir vonir okkar, að það tefjist eitthvað enn, að okkur takist að koma þeirri stefnu fram, að fiskveiðilandhelgin nái til alls landgrunnsins. Það er því hægt að hugsa sér þann milliveg, á meðan þessi stefna fæst ekki fram, að það sé leitað eftir alþjóðlegu samkomulagi um það, að viss svæði utan fiskveiðimarkanna, eða 12 mílna markanna, sem eru talin vera mikilvæg sem hrygningar- og uppeldisstöðvar fyrir fiskinn, njóti sérstakrar friðunar. Um það hefur verið sérstaklega rætt í þessu sambandi, að því er mér skilst. að vinna að því að fá slíka friðun fyrir allstórt svæði úti fyrir Norðausturlandi, þar sem eru mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir fiskinn. Ég held, að það sé meginatriði, ef við ætlum að koma þessari stefnu fram eða þessum sjónarmiðum okkar fram, að fá aðra til þess að viðurkenna friðun á vissum svæðum utan 12 mílna markanna, að þá þurfum við að vernda á svipaðan hátt þau svæði innan 12 mílna markanna, sem við ráðum yfir, að þar muni verða látin gilda svipuð vernd og við ætlumst til, að verði á þessum svæðum utan 12 mílna markanna. Ég held, að ef við höldum þannig á þessum málum, að við beitum bæði dragnót og botnvörpu á þeim svæðum innan fiskveiðimarkanna, sem eru mikilvægar uppeldisstöðvar. verði það til þess, að okkur gangi lakar að fá aðra til að fallast á það, að svipuð vernd eigi sér stað á svæðum utan 12 mílna markanna. Það er af þessum ástæðum, sem ég hef gerzt alveg sérstakur talsmaður þess, að Faxaflói njóti sérstakrar verndar, vegna þess að það hefur um langt skeið verið viðurkennt af öllum aðilum, sem til þessara mála þekkja, að þar sé um mjög mikilvægar hrygningar- og uppeldisstöðvar að ræða, sérstaklega fyrir ýsustofninn. Það, sem ég sagði hér áðan, gilti alls ekki um allar þær innfærslur, sem eiga sér stað samkv. þessu frv., heldur fyrst og fremst Faxaflóa. Ég tel, að friðun hans sé eitt mikilvægasta skilyrðið til þess að við getum haldið uppi í framtíðinni gifturíkri sókn í landhelgismálunum út á við. Þess vegna tel ég. að sú till., sem hér er flutt af nokkrum þm., um að fella niður veiðileyfið á Faxaflóa, sé byggð á fullum rökum og fyllstu nauðsyn, vegna þess að þar sé verið að leggja eina undirstöðuna að því, að við getum haldið uppi fullri sókn í landhelgismálunum á komandi ári. Ég hygg, að hv. 4. þm. Austf. geri sér þetta ljóst, með því að athuga þetta mál nánar. Ég skal viðurkenna það, að ef ég væri í hans sporum og hugsaði eingöngu um hagsmuni Austfjarða, mundi ég sennilega vera með þessu frv. En það þarf að hugsa um fleiri landshluta en Austfirði og alveg sérstaklega um þau veiðisvæði, þar sem eru hrygningar- og uppeldisstöðvar fiskstofnsins. Þau svæði á að undanþiggja, eins og Faxaflóa.

Ég vænti þess, að það séu þm. hér, sem geri sér grein fyrir því, að verndun Faxaflóa er ekki neitt sérstakt mál okkar hér á Suðvesturlandi, enda er talsvert um það deilt hér syðra. Það eru vissir aðilar, sem vilja komast inn í landhelgina. Ég tel, að verndun Faxaflóa eða friðun Faxaflóa sé mál landsins alls, því að með því að sýna það í verki, að við sjálfir verndum slíkar uppeldisstöðvar, þar sem við ráðum sjálfir, þá er miklu auðveldara að gera kröfur um það til annarra, að þeir fallist á það, að hliðstæð svæði séu vernduð utan fiskveiðilandhelginnar.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar við vorum að sækja okkar mál á sínum tíma í sambandi við útfærslurnar bæði 1952 og 1958, var lögð á það megináherzla í okkar málflutningi, að hér væri ekki um að ræða eingöngu hagsmunamál okkar, heldur allra þeirra þjóða, sem stunduðu fiskveiðar á Íslandsmiðum, vegna þess að sú verndun, sem fengist með þessari útfærslu hjá okkur, yrði til þess að auka fiskstofnana, og við mundum ekki aðeins njóta góðs af því sjálfir, heldur líka aðrar þær þjóðir, sem stunduðu veiðar í nálægð við Ísland. Það hefur líka komið í ljós, að þessi friðun, sem hefur fengizt við útfærslurnar 1952 og 1958, hefur ekki orðið til þess tjóns fyrir erlenda fiskimenn, sem þeir óttuðust, vegna þess að friðunin hefur orðið til gagns fyrir þá alveg eins og okkur. Og á þessum grundvelli hljótum við að sækja þetta mál áfram, að með aukinni friðun á vissum mikilvægum stöðvum hér við land séum við ekki aðeins að vinna fyrir okkur, heldur líka almennt fyrir þá, sem stunda veiðar á þessu hafsvæði. Ég sagði það við fyrri umr., að ég gæti vel fallizt á það, að það eigi sér stað innfærsla á vissum svæðum, þannig að þar séu leyfðar auknar togveiðar. En ég álít, að við verðum að gæta þess vel, að þessar auknu togveiðiheimildir nái ekki til þýðingarmikilla uppeldisstöðva eins og Faxaflóa. Það tel ég, að sé grundvallaratriði að áframhaldandi sókn okkar í landhelgismálinu.