02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég geri lítið af því að tala þrisvar í málum, en það var vegna þess að hv. 4. þm. Austf. lét mín sérstaklega getið og Húnvetninga, að mig langar til að segja örfá orð.

Hann skildi ekki í þeim hugsunarhætti. að ég vildi ekki hirða smáfisk fyrir norðan, en leyfa honum að fara suður og láta Vestmannaeyinga veiða hann þar og aðra. sem stunda fiskveiðar hér fyrir sunnan land. Ég álít þetta vera víðsýni hjá mér. Ég lít á hag þjóðarinnar í heild og álít það ekki neina sérstaka búmennsku, að við förum að drepa unglömbin til þess að passa það, að aðrir njóti þeirra ekki, þegar þau eru orðin stór. Við njótum þeirra líka, þegar þau verða stór, og ég álit það sameiginlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn að drepa ekki stofninn fyrr en hann er orðinn það stór, að hann sé einhvers virði.

Hv. þm. var að tala um fátækt og eymd okkar Húnvetninganna. Við erum óvanir þessu, Húnvetningar. Við lítum á okkur eins og frekar efnafólk. En það hefur verið þannig, að við höfum ekki verið neinir forgöngumenn í sjávarútvegsmálum, ég skal játa það, og það kemur meðfram af því, að sjávarþorpin liggja tiltölulega langt frá miðum, miðað við annars staðar á landinu. Og annað það, að við búum í heldur góðu landbúnaðarhéraði, þannig að þeir, sem eru orkumeiri, hafa heldur snúið sér að landbúnaðinum, þótt það tryggara. En hv. þm. Lúðvík Jósefsson verður að játa, að yfirleitt hafa verið betri bændur í Árnessýslu og Húnavatnssýslu en víðast hvar annars staðar á landinu, og þetta getur hann séð, ef hann vill fara yfir búfjárskýrslur. Enn fremur verður hann að athuga það, að Húnvetningar hafa lagt öllu meiri rækt við andleg efni en Austfirðingar, þó að ég geri engan veginn lítið úr þeim og þeirra gáfum. Flateyjarbók var skrifuð í Húnavatnssýslu, á meðan Austfirðingar kunnu ekki að lesa, og á flestum sviðum höfum við lagt til forgöngumenn. Við höfum t.d. lagt til Nordalana með sína miklu bókmenntaþekkingu og fjármálavit, eins og sést á stjórn Seðlabankans. Við höfum lagt til afburðalækna eins og Hjalta frá Hjaltabakka og Sigurð landlækni og Guðmundana alla o.s.frv. Það er fleira einhvers virði en síld í tvö eða þrjú ár, við verðum að meta hina andlegu auðlegð líka.

Það eina, sem við förum fram á, þessir menn, þm. Vestf. og Norðurl. v., það er, að tekið sé tillit til óska okkar, sem við vitum, að er líka vilji fólksins heima fyrir, að miða við þá grunnlínu, sem nú er í gildi. Ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti. að ég get sætt mig alveg við þessa línu. ef stærri togurunum væri ekki hleypt inn í þetta horn. Fiskurinn gengur fyrir Vestfirðina og inn í flóann, og við höfum reynslu fyrir því, að togararnir hafa elt hann vor eftir vor. Við höfum reynslu fyrir því líka, að þegar stærri togararnir komu inn á fjarðarmynnið og verið var að veiða þar með línu, hvarf línufiskurinn að meira eða minna leyti. Ég get ekki skilið, að það sé neitt við það að athuga, þó að einhverjar smábreytingar séu gerðar á þessu frv. Það er metnaðarmál orðið hjá þessari nefnd að fá allt samþykkt óbreytt. Ég mundi ekki koma með neina till. viðvíkjandi Faxaflóanum, ef þm. þeirra legðu það ekki eindregið til sjálfir. Ég ætla að styðja þá í því, af því að ég álít, að þeir hafi rétt fyrir sér. (Gripið fram í.) Margir, nei, ekki allir, þeir sem eru fyrst og fremst forgöngumenn í þessu eru ekki af verri endanum hvað gáfur snertir, þar sem eru Þórarinn Þórarinsson og Geir. Ég álít, að þm. viðkomandi staða eigi að hafa forgöngu í þessum málum. En ég vitanlega stæði ekki með þeim, ef ég hefði ekki sannfæringu sjálfur fyrir því, að þeir hafa alveg rétt fyrir sér, og þá get ég ekki séð, að þetta sé nein móðgun við þessa nefnd, að við séum að setja nein málefni í strand fyrir þetta. Ég ætla að greiða atkv. með frv., þó að þessar brtt. séu felldar, ég er búinn að lýsa því yfir. Það er eins og hvert annað offors, þó mönnum líki ekki allt í frv.. að þurfa endilega að vera á móti því. Það getur verið meira jákvætt við það en neikvætt þrátt fyrir það. Ég játa, að það var ekki hægt að hafa þetta eins og það var, og frv. þetta, þótt langt sé gengið, of langt, einkum gagnvart stóru togurunum, því að það er alveg óþarfi að hleypa þeim svona inn á landgrunnið, er mikil bót frá því, sem áður var, því að þeir veiddu alls staðar þessir togbátar, og því eru vitanlega allir á móti.

Ég vona, að þetta leysist allt saman vel og í bróðerni. Það fer hver eftir sinni sannfæringu, þetta er ópólitískt mál, og við skulum ekkert vera að hleypa æsingi í það. Og við látum það skríða í gegn, þótt það sé meira og minna vitlaust, ef við fáum ekki komið þeim breytingum fram, sem við álítum til bóta. En hinu mótmæli ég algerlega að fara að tala um okkur Húnvetninga sem andlega og efnalega kotunga, og allra sízt vil ég, að Austfirðingar geri það.