06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Fyrir 2. umr. þessa máls, sem hér er til umr., flutti ég ásamt 8 hv. þm. öðrum till. um, að með tilliti til einstaks gildis Faxaflóa sem uppeldisstöðvar fisks yrði ekki heimiluð botnvörpuveiði í miðjum flóanum. Hv. 4. þm. Austf. hélt því fram við 2. umr. í gær, að slík till. þýddi friðun frá innströnd Faxaflóa og 50 mílur á haf út. Með þessum orðum hnikaði hv. þm. að vísu staðreyndum um helming, þar hélt hann sig í u.þ.b. 25 sjómílna fjarlægð frá sannleikanum, það eru ekki nema um 25 mílur frá innströnd flóans út að línu milli Malarrifs og punkts 4 mílum vestur af Garðskaga, en að þeirri línu er botnvörpuveiði leyfð allt árið samkv. frv., og enginn hv. alþm. hefur flutt till. um breyt. á því. Með því að fella till. um bann við botnvörpuveiðum í miðjum Faxaflóa nær togveiðin nú að línu, sem liggur í aðeins um 6–8 mílna fjarlægð frá botni flóans, svo að hv. þm. ætti nú ekki að þurfa lengur að hafa áhyggjur af ímyndaðri 50 mílna friðun, sem enginn hefur að sjálfsögðu nokkru sinni gert kröfu um og hefur aldrei verið til annars staðar en í hugarheimi hans. En með slíkum og öðrum ámóta rökum hefur 21 af 40 þm. hv. deildar nú samþ. botnvörpuveiðar inni í miðjum Faxaflóa, á uppeldisstöðvum, sem ætti að vernda. Mjög mikill leiðindabragur er á allri meðferð þessa máls af hendi landhelgisnefndar og æði hart, þegar fulltrúar, sem þingflokkarnir hafa kosið í þessa nefnd, neita að taka minnsta tillit til ábendinga og óska þm. úr einstaka kjördæmum og leggja sig svo fram við það að beita blekkingum til þess að koma í veg fyrir, að hv. Alþ. fáist til þess að fallast á nauðsynlegustu leiðréttingar. Látið hefur verið í veðri vaka, að mál þetta, nýting landhelginnar til botnvörpuveiði, ætti að leysa með sem mestu samkomulagi innan Alþ., en till. landhelgisn. í svo viðkvæmu máli sem togveiðum inni í miðjum Faxaflóa hefur nú verið knúin fram hér í hv. deild með þessari atkvæðatölu, 21 atkv. Ég harma, að svo hefur til tekizt, en vænti þess, að hv. Ed. afgreiði þetta mál á annan veg, þann veg, sem yrði þjóðinni til meiri framtíðarheilla. Fyrst svo fór, að ekki varð komið í veg fyrir, að botnsköfuveiði væri leyfð inni í miðjum flóanum, mun ég nú freista þess að fá fram nokkra lagfæringu þessa máls varðandi tímamörkin, sem gilda eiga um botnvörpuveíðarnar á þessu svæði, og reyna til þrautar, hvort hjá þeim, sem knúðu mál sitt fram hér í gær, er nokkur minnsti vilji til þess að taka tillit til annarra sjónarmiða en þeirra, sem sjá stundarhagsmuni í að fara með botnsköfur um uppeldisstöðvar nytjafisks inni í miðjum Faxaflóa.

Á þskj. 653 flyt ég því brtt. þess efnis, að í stað þess að botnvörpuveiðar skuli leyfðar á svæði E–6, þ.e.a.s. inni í flóanum, frá 1. júní til 1. janúar verði þær leyfðar frá 1. ágúst til 1. janúar. Togveiðiheimildir á svæðum utan við línu milli Garðskaga og Malarrifs og út af Reykjanesskaga eru mjög auknar með frv. þessu, en um þá aukningu hefur enginn hv, alþm. gert ágreining, þar við bætist svo svæðið inni í flóanum miðjum, sem ágreiningur hefur verið um. Með þessari miklu aukningu heimilda til botnvörpuveiða á því veiðisvæði, sem einna mest hefur verið talið nýtt allra veiðisvæða, hefur verið gengið svo mjög á hlut annarra en þeirra, sem botnvörpuveiðar stunda í þessum landshluta, að það allra minnsta, sem unnt væri að koma til móts við þá, væri að breyta tímamörkunum á svæðinu inni í flóanum frá því að miðast við 1. júní í það að verða miðaðar við 1. ágúst. Er þá vert að hafa í huga, að í hinum hólfunum á þessu svæði eru botnvörpuveiðar heimilaðar allt árið með þessu frv. Ég tel, að verði till. um þessa litlu lagfæringu felld, þá sé niðangurslega að þessu máli staðið og allt tal um, að hv. Alþ. sé að leysa þessi mál með lipurð og mest hugsanlegu samkomulagi, hljómi æði ankannalega, að ekki sé meira sagt. Ég leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að hann fresti nú umr. um þetta mál um stund og óski eftir því, að hv. sjútvn. taki þessa till. til athugunar, áður en frv. verður afgreitt út úr d. Eðli málsins samkv. er þessi till. ekki komin fram fyrr en nú við 3. umr., og ég vænti þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að verða við þeirri ósk minni, að hv. sjútvn. fái hana til meðferðar.