06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar aths. Mér sýnist nú, að það sé ákaflega þýðingarlítið að ætla að halda uppi umr. um þetta mál á þeim grundvelli, sem hér hefur komið fram hjá ýmsum. Sérstaklega finnst mér það einkennandi, að ef skýrt er frá staðreyndum í málinu og þær passa nú ekki alveg við tilfinningar einhverra manna, þá hrökkvi þeir alveg upp af standinum og þoli slíka frásögn með engu móti. Einn hv. þm., hv. 4. þm. Vestf., sem er mjög kunnugur útvegsmálum og ætti nú að þekkja talsvert til í þessum efnum, hrökk t.d. svo upp af standinum í gær við það að heyra mig líklega aðallega segja hér frá ákveðnum hlutum — hann gefur eiginlega þá skýringu á því, að hann hafi greitt atkv. á móti frv. Ekki heyrði ég hann þó tilgreina eitt einasta atriði þess efnis, að þar hefði ég farið með rangt mál, ekki eitt einasta. En sumt af því, sem ég sagði, virðist nú hafa farið svona í taugarnar á þessum hv. þm. En ég ætla ekki að fara að karpa frekar við hann eða aðra um þetta mál. Ég vil aðeins láta hér uppi enn þá mínar skoðanir á vissum atriðum varðandi það, sem hér er umdeilt. Það er kunnugt, að þm. Vestfjarðakjördæmis hafa samþykkt fyrir sitt leyti, að opnuð yrðu tvö veiðisvæði út af Vestfjörðum fyrir togveiðibátum á tilteknum tímum, þ.e.a.s. að haustlagi til frá 15. september og til áramóta, upp að fjögurra mílna mörkum. Og þessar veiðiheimildir eru fyrst og fremst gefnar á þessu svæði vegna þess, að þarna er um að ræða, og þó aðallega á öðru svæðinu, auðug flatfiskimið, og á þessum tíma sækjast menn eftir þessum dýrmæta fiski, og menn hafa gengið til móts við þetta sjónarmið. En þegar fram koma nákvæmlega sams konar till. um að opna hliðstæð svæði vegna hliðstæðra veiða í norðanverðum Breiðafirði, þar sem alls ekki er gengið nær landi heldur en úti fyrir fjörðunum fyrir vestan, þá má ekki veiða flatfiskinn á Breiðafirði, þar sem þó er um miklu meiri almenna friðun að ræða heldur en úti fyrir Vestfjörðum. (MB: Það má ekki rétta sumum litla fingurinn.) Ég segi það, að ég get ekki fyrir mitt leyti á nokkurn hátt fallizt á þetta. Ég sé ekkert vit í þessu. Ég tel, að þar sem er meiri friðun fyrir hendi og hefur verið um langan tíma eins og er á Breiðafirði, þá sé ekki minni ástæða til þess að opna eitthvað þar fyrir þessum veiðum, af því að þar er aðeins um að ræða líka veiði að haustlagi til frá 16. september til áramóta. Og þeir, sem hér áttu mestan hlut að máli, þeir, sem mættu með okkur á fundum hér í Stykkishólmi, lögðu alveg sérstaka áherzlu á það, að þessi svæði yrðu opnuð á þessum tíma. Ég verð að segja það líka, að sjónarmið þau, sem koma m.a. fram hjá þessum hv. þm. varðandi þennan margumtalaða Húnaflóa, sem lengi er nú hægt að teygja þar norður í höf, hvert hann nái — þá verð ég líka að segja það, að sú till., sem þm. Vestfjarða sendu landhelgismálanefndinni, þar sem þeir féllust á það, að ef gengið yrði út frá grunnlínunum frá 1961 í staðinn fyrir 1958 varðandi þessar veiðar eins og alls staðar er lagt til í frv. annars staðar á öllum stöðunum — það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Vestf., að það sé ekki gert, þannig er því háttað, en þm. Vestfjarða lögðu til, að heimilaðar yrðu togveiðar á þessu svæði á norðanverðum Húnaflóa upp að fjögurra mílna mörkum og það gilti einnig fyrir togarana. Ef till. þeirra eru bornar saman við till. okkar, sem hér liggja fyrir í frv.-formi, þá fela þær það í sér, að þeir leggja til, að stóru togararnir fái auknar veiðiheimildir nær landinu norðan til á þessu svæði og auknar veiðiheimildir frá því, sem við leggjum til, á svæðinu út af Skaga. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er rétt, (Nei.) Þetta er rétt, þýðir ekkert að bera á móti því, till. liggja fyrir. En hins vegar gera þeirra till. ráð fyrir minni togveiðiheimildum fyrir báta. Ég fyrir mitt leyti hef þá skoðun, að hér sé ranglega að málum staðið, og þetta fer líka mjög þvert á þær till., sem að öðru leyti eru mótaðar í frv. n. Og því töldum við rétt, að á þessu svæði, alveg eins og á svæðinu fyrir sunnan Langanes og eins og á svæðinu á Selvogsbanka, yrði miðað við grunnlínurnar frá 1958, en ekki frá 1961. Og þannig er að málinu staðið. En af hálfu þm. Vestf. hefur verið farið fram á það, að á eina svæðinu, þar sem þarna skakkar, sem sagt á Húnaflóa, þar yrði gengið út frá grunnlínunum frá 1961, en á hinum stöðunum frá 1958. Og afleiðingarnar yrðu þá þessar samkv. þeirra till., eins og ég segi, að norðan til á svæðinu fengju stóru togararnir auknar veiðiheimildir frá því, sem við leggjum til, og út af Skaga auknar veiðiheimildir frá því, sem við leggjum til, en bátarnir mun minni og togararnir nokkuð minni heimildir út að miðjum Húnaflóa. Það er rétt.

Ég skal svo ekki orðlengja ýkja mikið um þetta. Mér finnst, að hv. 1. þm. Vestf. ræði ævinlega um þessi mál þannig, að hafi ekki verið farið eftir því, sem þm. úr einu kjördæmi hafa lagt til, þá sé sýnd óbilgirni, eða hafi ekki verið farið eftir því í tillagnagerðinni, sem almennast hefur komið fram á viðræðufundum í héraði, þá sé líka sýnd óbilgirni. Ég vil t.d. segja þessum hv. þm. það, að þær raddir, sem komu fram á Austurlandi, voru almennt um miklu meiri lokun fyrir botnvörpu heldur en við þm. Austurlands stöndum nú að. Og við vildum á margan hátt hafa þessar reglur á annan veg en nú er gert. En við höfum fallizt á það vegna þeirrar heildarmyndar, sem kemur út úr tillagnagerðinni, að standa að þessum till. En það er vitanlega engin leið að hafa nokkurt vit í þeim reglum, sem á að setja, ef þm. úr hverju kjördæmi ættu að setja reglurnar algerlega einir fyrir sig, þá yrði landhelgin heldur skrýtileg. En það er mín skoðun, ég hef sagt það áður og hún er þannig enn, að ég tel, að það hafi síður en svo í þessum till. verið hallað á sjónarmið Vestfirðinga eða þeirra, sem mestra hagsmuna eiga að gæta hér við Faxaflóa, því að áfram er það svo, að á þessum svæðum verður friðunin fyrir togveiðum langsamlega mest við landið.

Því hefur verið lýst hér yfir, að það muni verða gefið fundarhlé hér til þess að líta á þær till.. sem fram eru komnar. N. hefur þó fjallað um þær allar, og ég hef nú ekki mikla trú á því, að afstaðan breytist mikið til þeirra. af því að þær hafa verið ræddar ýtarlega þessar till. í n. En það er sjálfsagt að athuga enn um það, hvort samstaða getur orðið hér um einhverjar breytingar, þannig að það þurfi þá ekki að raska hér heildarmyndinni. En karpi hér um önnur aukaatriði ætla ég ekki að skipta mér af eða taka þátt í. Það hefur lítið að segja, og jafnvel þó að einhverjir hafi nú reiðzt á einhverju stigi málsins út af einhverju, sem hér hefur verið sagt, vona ég það nú, að þeir þoli það að lesa yfir till. í annað eða þriðja sinn og átta sig á því, hvað í þeim felst. og reyni að miða sína afstöðu við það, en ekki við einhver skyndiviðbrögð út af einhverjum orðum, sem hér kunna að hafa fallið.