07.05.1969
Efri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breytingu á l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu hefur hlotið afgreiðslu Nd. með ekki ýkja miklum ágreiningi. Frv. er þannig til komið, að ég tel mig ekki þurfa að gera hv. þm. sérstaka grein fyrir efni þess, það hefur verið haft það náið samband við alla þm. og reyndar miklu fleiri í sambandi við undirbúning málsins. Hv. þdm. er fullkunnugt um með hverjum hætti þetta frv. er til orðið. Það hefur fallið í minn hlut að flytja þetta frv. eftir að landhelgisnefnd, sem undirbjó málið, hafði um það bil lokið störfum sínum. Þá var hafizt handa um það í dómsmrn. að koma till. n. í frv.-form, og unnu að því ráðuneytisstjórar í dómsmrn. og sjútvmrn., auk deildarstjórans í sjútvmrn., sem var hnútum öllum kunnugastur, en hann hafði verið ritari landhelgisn., en einnig kvaddi ég Gizur Bergsteinsson hæstaréttardómara til ráðuneytis við undirbúning frv.

Ég vil aðeins á þessu stigi málsins láta í ljós þakklæti mitt til landhelgisn. fyrir ágæt störf, sem hún hefur unnið af mikilli elju og að mínum dómi innt af hendi mjög gott starf við undirbúning þessa frv. Fjórir nm. eiga sæti í Nd., en einn nm., formaðurinn, 5. landsk. þm., hér í þessari hv. d.

Ég veit, að hv. þdm. gera sér fulla grein fyrir eðli þessa máls. Það er alvarleg tilraun til þess að afgreiða löggjöf í mjög viðkvæmu máli, sem æ ofan í æ hefur mistekizt á undanförnum árum. Það liggur að mínum dómi mjög mikið við, að frv. nái fram að ganga. Það hefur verið haft við orð af sumum, að allt að því sómi Alþ. liggi við, að þetta mál hljóti afgreiðslu nú. Mér er ljóst, að það getur ekki orðið með samkomulagi allra. því miður, en ég vil leyfa mér að vara við því, að nokkrar breytingar, sem verulegar geta talizt, verði úr þessu gerðar á þessu máli, því ég hygg, að með því muni framgangi þess vera stefnt í verulega hættu. Um þetta skal ég ekki fara fleiri orðum, en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.