07.05.1969
Efri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að fjalla hér um þetta frv., þar sem ég var form. þeirrar n., sem kölluð hefur verið landhelgisnefnd eins og hæstv. dómsmrh. gat um. Sem kunnugt er, skipaði hæstv. sjútvmrh. skv. tilnefningu stjórnmálaflokkanna 5 manna n. 2. okt. s.l. til þess, eins og segir í erindisbréfinu, að gera till. um fiskveiðar í fiskveiðilandhelginni til ríkisstjórnarinnar. Þessir menn voru skipaðir í n.: Guðlaugur Gíslason og Sverrir Júlíusson tilnefndir af Sjálfstfl., Jón Skaftason tilnefndur af Framsfl., Lúðvík Jósefsson tilnefndur af Alþb. og Jón Ármann Héðinsson tilnefndur af Alþfl., sem jafnframt var skipaður formaður n. N. fékk leyfi til að ráða sér ritara, og var Jón Arnalds deildarstjóri í sjútvmrn. ráðinn ritari n. N. hóf störf í síðustu viku okt. og ákvað að viða að sér sem mestum upplýsingum og sjónarmiðum um togveiði innan fiskveiðitakmarkanna. Verkefni nm. var mjög viðamikið samkv. erindisbréfinu og augljóst mál, að engan veginn mundi vinnast tími til þess að gera till. um alla þætti þeirra mála, sem talað var um í erindisbréfinu. Þess vegna var ákveðið að einbeita sér að því að ná saman till. um breyttar togveiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni. Það bar brýna nauðsyn til þess strax, eins og á stóð um togveiðar landsmanna. Ég ætla til glöggvunar í örstuttu máli að rekja, hvernig víðáttu íslenzkrar fiskveiðilandhelgi hefur verið háttað og hvernig veiði, einkum botnvörpu-, flotvörpu- og dragnótaveiði, hefur verið heimiluð innan fiskveiðilandhelginnar. Ekki er hægt að tala um landhelgi Íslands í eiginlegri merkingu þess orðs, fyrr en árið 1631. Þá var landhelgin ákveðin 6 danskar mílur eða 24 sjómílur. Þessi regla gilti til 1662, en þá var landhelgin ákveðin 4 danskar mílur eða 16 sjómílur, og var út frá því gengið, að allar fiskveiðar væru bannaðar útlendingum á þessu svæði, og þá sjálfsagt einnig í flóum og fjörðum. Frá 1859–1901 var fiskveiðilandhelgin í reynd 1 dönsk míla frá landi eða 4 sjómílur talið frá yztu skerjum og eyjum, er upp úr sjó koma. Firðir og víkur landsins voru í landhelgi. Frá 1901 samkvæmt samningi við Bretland er fiskveiðilandhelgin ákveðin þrír fjórðungar úr mílu út frá yztu takmörkum, þar sem sjór gengur eigi yfir fjöru. Í flóum og fjörðum var fiskveiðilandhelgin ákveðin þannig, að lína var hugsuð dregin milli landa, þar sem næst fjarðarmynni eru 10 mílufjórðungar yfir fjörðinn eða flóann. Skyldi allt vera landhelgi, sem innan við þá línu er, enda þótt fjörður sé breiðari en 10 mílufjórðungar, er innar dregur. Út frá línunni í fjarðarmynni skyldi svo landhelgin vera þrír mílufjórðungar. Milli lands og eyja var óslitin landhelgi, ef sund eigi nema 6 mílufjórðungum. Annars höfðu eyjar sjálfstæða landhelgi. En árið 1948 markar tímamót, en þá voru sett lög um vísindalega vernd fiskimiða landgrunnsins, lög nr. 44 5. apríl 1948. Stækkun landhelginnar til þessa dags hefur verið gerð með reglugerðum, samkv. lögum þessum, en í 1. gr. þeirra segir: „Sjútvmrn. skal með reglugerð ákveða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar ísl. reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Ráðuneytið skal einnig ákveða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum.“

Með reglugerð nr. 46 22. apríl 1950 um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi, er sett var samkvæmt l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins nr. 44 1948, var fiskveiðilandhelgi fyrir Norðurl. á svæðinu frá Horni að Langanesi ákveðin 4 sjómílur út frá tilteknum beinum grunnlínum, sem dregnar voru milli yztu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Voru þessir grunnlínustaðir tilgreindir í 1. gr. reglugerðarinnar. Með reglugerð nr. 21 19. marz 1952, sem einnig var sett samkv. l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, var fiskveiðilandhelgi við Ísland allt í kringum landið ákveðin 4 sjómílur. Út frá tilteknum, beinum grunnlínum, er dregnar voru milli yztu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða voru grunnlínustaðir tilgreindir í 1. gr. reglugerðarinnar. Sjálfstæða landhelgi höfðu samkvæmt l. gr. Kolbeinsey, Hvalbakur, Geirfugladrangur og Grímsey. Með reglugerð nr. 70 frá 30. júní 1958 var fiskveiðilandhelgin ákveðin 12 sjómílur. Var reglugerð þessi sett með vísun til áðurgreindra landgrunnslaga nr. 44 frá 1948. Fiskveiðilandhelgin var afmörkuð 12 sjómílur utan við grunnlínu, sem dregin var milli þar til greindra staða, og eru grunnlínustaðir þeir sömu og eftir reglugerð nr. 21 1952. Með reglugerð nr. 3 frá 11. marz 1961, sett samkvæmt landhelgislögunum 1948, var fiskveiðilandhelgin enn stækkuð með breytingu á grunnlínu. Fiskveiðilandhelgin var sem fyrr afmörkuð 12 sjómílur utan við grunnlínu. Skipum, skrásettum í Bretlandi, og seinna skipum skrásettum í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi voru þó heimilaðar veiðar á vissum svæðum milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar til 10. marz 1964. Enn fremur voru með auglýsingu frá 1. ágúst 1961 færeyskum skipum heimilaðar handfæraveiðar á vissum svæðum innan fiskveiðilögsögunnar.

Hér hefur verið drepið á víðáttu fiskveiðilögsögunnar, á rétt útlendinga. Skal nú vikið að rétti Íslendinga sjálfra til veiða í fiskveiðilandhelginni. Aðalreglan er og hefur verið sú, að ísl. borgarar einir megi stunda fiskveiði í landhelgi við Ísland með hvers konar veiðiaðferðum og veiðarfærum, nema l. kveði á um annað. Að rekja þær reglur allar, sem gilt hafa á þessari og síðari öldum um notkun og bann við notkun hinna ýmsu veiðarfæra, yrði alltof langt mál. Er það svo löng og margþætt saga. Þar sem aðalinntak nál. er rýmkun heimildar til togveiða, er þó rétt að víkja í örfáum orðum að sögu löggjafar um togvéiðar í landhelgi. Lög um botnvörpu- og flotvörpuveiðar í landhelgi hafa verið sett, svo sem hér skal greina: L. nr. 13 frá 9. ág. 1889 um bann gegn botnvörpuveiðum eru fyrstu l., er banna fiskveiðar með botnvörpu í landhelgi við Ísland. L. nr. 24, 10. nóv. 1894, um bann gegn botnvörpuveiði þyngdu viðurlög við brotum að mun frá eldri l. Í l. nr. 8, 6. apríl 1898, um bann gegn botnvörpuveiðum voru hæstu sektarákvæði lækkuð og veittar heimildir til að leita hafna eða koma inn fyrir landhelgi óvart eða í öðrum tilgangi en til veiða. Einnig er innlendum botnvörpuskipum heimilað að leita lands og leggja upp afla o.s.frv., en þá skyldu þó veiðarfæri höfð í búlka. Viðaukalög nr. 27, sept. 1902, við lög 6. apríl 1898, um bann gegn botnvörpuveiðum, leggja sektir við, ef einhverjir aðrir en skipverjar sjálfir leiðbeina skipi um botnvörpuveiðar í landhelgi við Ísland. Enn fremur fjalla l. um samskipti Íslendinga við útlend botnvörpuskip. L. nr. 18, 8. júní 1902, um breytingu á l. frá 6. apríl 1898 um bann gegn botnvörpuveiðum rýmkuðu heimild fyrir erlend botnvörpuskip til að hafast við í landhelgi með búlkuð veiðarfæri um borð.

Með l. nr. 56 frá 30. júlí 1909 um undanþágu frá l. nr. 18 frá 8. júlí 1902 um breyt. á l. frá 6. apríl 1898 um bann gegn botnvörpuveiði er ísl. togurunum heimilað að hafa veiðarfæri sín óhreyfð, þótt innan landhelgi væri, samkvæmt nánari fyrirmælum landstjórnarinnar. Áður var skylt að hafa veiðarfæri í búlka innan landhelginnar. Með l. nr. 5, 18. maí 1920, um bann gegn botnvörpuveiðum var undanþága innlendra togara frá 1909 afnumin. Voru úr gildi felld öll fyrri l. um þetta efni. Má kalla, að framtíðarskipan hafi fengizt um þetta. L. nr. 38, 15. júní 1926 um viðauka við botnvörpuveiðal. kveða á um tilslökun um refsingu eða áminningu við fyrsta brot gegn löglegum umbúnaði veiðarfæra, ef ljóst sé af öllu, að eigi hafi beitt verið, né undirbúningur hafinn til veiða í landhelgi. Í l. nr. 56, 23. júní 1936 um breyt. á l. nr. 5, 18. maí 1920 um bann gegn botnvörpuveiðum var ráðh. veitt heimild til að veita vélbátum undanþágu frá banni gegn botnvörpuveiðum innan landhelgi til að stunda kampalampaveiðar á tilteknum svæðum. L. nr. 34, 13. júní 1937, veittu ríkisstjórninni heimild til að veita leyfi til síldveiða með botnvörpu á fjörðum inni. Með l. nr. 5 29. jan. 1951, um breyt. á l. nr. 5, frá 8. maí 1920 um bann gegn botnvörpuveiði var sektarákvæðum l. enn breytt. Með l. nr. 82 8. des. 1952, um breytingu á l. nr. 5 18. maí 1920 um bann gegn botnvörpuveiðum voru I. nr. 56 1936 og l. nr. 34 1937 felld úr gildi. Jafnframt voru bannaðar veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni, eins og hún hefur verið ákveðin með reglugerð nr. 31 19. marz 1952. Þá var ráðh. veitt heimild til að veita undanþágu frá banninu til að stunda kampalampaveiðar og leturhumarveiðar á tilteknum svæðum, svo og til að leyfa síldveiði í landhelgi með flotvörpu. L. þessi voru staðfest með brbl. nr. 44, 30. apríl 1952. Með reglugerð nr. 87 29. ágúst 1958 voru ísl. skipum, sem veiða með botnvörpu, flotvörpu eða dragnót, heimilaðar veiðar innan fiskveiðilandhelginnar, eins og hún var ákveðin með reglugerð nr. 70 30. júní 1958, á vissum veiðisvæðum og veiðitíma, en þó utan þeirra fiskveiðitakmarka, sem ákveðin voru í reglugerð nr. 21 19. marz 1952, þ.e. utan við línu, sem dregin er fjórar sjómílur utan við grunnlínur, sem dregnar voru milli yztu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. L. nr. 6 17. febr. 1959, um breyt. á l. nr. 5 18. maí 1920, um bann gegn botnvörpuveiðum fella úr gildi áðurgreind l. nr. 82 1952. Þau kveða svo á, að í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er ákveðin með reglugerð nr. 70 30. júní 1958, skuli bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu og flotvörpu. Rétt er ráðh. að veita ísl. skipum undanþágu frá banni þessu, þó utan þeirra marka, sem sett voru í reglugerð nr. 21 frá 19. marz 1952. Reglugerð nr. 87 1958 stendur þannig áfram í fullu gildi, það vildi ég biðja menn að hafa í huga, reglugerð nr. 87 frá 1958 stendur þannig áfram í fullu gildi. Annars voru ákvæði l. endurtekning ákvæða l. nr. 82 1952, þó með viðbótarheimildum til botnvörpuveiða í rannsóknarskyni. Með reglugerð nr. 4 í 1. marz 1961 er ísl. skipum, sem veiða með botnvörpu eða flotvörpu, veitt heimild, auk þess sem veitt var með reglugerð nr. 87 1958, til að veiða innan fiskveiðilandhelginnar á sömu stöðum og tímum sem brezk skip mega stunda veiðar samkvæmt samkomulagi íslenzku og brezku ríkisstjórnanna frá í 1. marz 1961. Heimild þessi var framlengd ótímabundið með reglugerð nr. 29 11. marz 1964. Með lögum nr. 42 1967 voru breytingar gerðar á l. um bann gegn botnvörpuveiðum, nr. 5 1920, með síðari breytingum, einkum að því er viðurlög við brotum snertir. L. nr. 42 1967 voru síðan felld inn í meginmál laganna nr. 5 frá 1920 með síðari breytingum og gefin út sem l. nr. 62 18. maí 1967 um bann gegn veiði með botnvörpu og flotvörpu. Hinn 20. des. s.l. voru sett l. um breytingar á síðastnefndum l. og gefin út reglugerð, þar sem íslenzkum bátum allt að 200 brúttórúmlestir að stærð eru veittar auknar heimildir til botnvörpu- og flotvörpuveiða fyrir Norðurlandi og Suðurlandi á tímabilinu frá 1. jan. til 30. apríl 1969. Skulu þær heimildir ekki raktar frekar að sinni.

L. um dragnótaveiðar hafa í stuttu máli verið þau, er hér skal greina: Með l. nr. 27 20. júní 1923 er veitt heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna dragnótaveiðar í landhelgi. Heimild þessi var ekki notuð. Með l. nr. 55 7. maí 1928 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi eru dragnótaveiðar bannaðar í landhelgi með vissum undantekningum. Dragnótaveiði var þó leyfð frá 1. sept. til 30. nóv. ár hvert. Brbl. nr. 85 6. júlí 1932 um breyt. á l. nr. 55 7. maí 1928 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi rýmkuðu heimildir til dragnótaveiða verulega. Brbl. þessi voru lögð fyrir Alþ. 1933 til samþykktar, en þingið felldi þau l. Samkv. l. nr. 52 19. júní 1933, um breytingu á l. nr. 55 7. maí 1928, um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi var dragnótaveiði í landhelgi leyfð, auk þeirrar heimildar, sem veitt var með l. nr. 55 1928, frá Hjörleifshöfða vestur til Látrabjargs á tímabilinu frá 15. júlí til 30. nóv., en á Faxaflóa og Breiðafirði þó eingöngu heimil þeim bátum, sem skrásettir eru innan lögsagnarumdæmisins, er að þeim liggur, en öðrum bátum ekki. Þessi l. áttu að gilda til ársloka 1934, en á Alþ. voru þau framlengd til ársloka 1936. Með l. nr. 45 13. júní 1937 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi eru heimildir til dragnótaveiða enn rýmkaðar til muna. Dragnótaveiðar voru leyfðar frá 15. maí til 30. nóv. ár hvert á svæðinu frá Eystra-Horni suður um land að Straumnesi og frá 15. júní til 30. nóv. ár hvert á svæðinu frá Straumnesi austur um land að Eystra-Horni. Skipum 35 brúttórúmlestir eða meira voru þá bannaðar dragnótaveiðar frá 15. maí til 30. sept. ár hvert. Samkv. l. nr. 26 12. feb. 1940 um breyt. á l. nr. 45 13. júní 1937 um dragnótaveiðar í landhelgi er dragnótaveiði í landhelgi leyfð á tímabilinu 1. júní til 30. nóv. bátum, sem eru innan við 35 rúmlestir að stærð, þó er ráðh. heimilt að veita stærri bátum undanþágu til þessara veiða á tímabilinu 1. okt. til 30. nóv. Ennfremur er sýslunefndum heimilað að banna dragnótaveiðar með öllu á tilteknum hafnarsvæðum. Með l. nr. 65 7. maí 1940 var fyrrgreindum l. breytt lítils háttar, þannig að sektarákvæði voru hækkuð og nánar tiltekin heimild fyrir ráðh. að skipa fyrir með reglugerð um möskvastærð neta og lágmarksstærð veiðifisks, sem hagnýtanlegur er. Með l. nr. 83 22. okt. 1945, um viðauka við l. nr. 45 13. júní 1937, um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, er ráðh. með vissum skilyrðum heimilað að ákveða frekari takmörkun eða bann gegn notkun dragnóta en eldri lög gerðu ráð fyrir. Með l. nr. 2 24. jan. 1951 var slakað á skilyrðum fyrir heimild ráðh. Með l. nr. 31 7. marz 1951 var sektarákvæðum breytt lítils háttar.

Reglugerðir, sem settar voru samkvæmt þeirri heimild, er veitt var með l. nr. 83 1935, voru þessar: Með reglugerð nr. 175 23. okt. 1945 eru dragnótaveiðar bannaðar í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Með reglugerð nr. 50 1. marz 1950 eru dragnótaveiðar bannaðar í Aðalvík í Norður-Ísafjarðarsýslu. Með reglugerð nr. 64 1. marz 1950 eru dragnótaveiðar bannaðar á svæðinu frá Sandgerðisvita að Hraunsnesi. Tvær síðastnefndu reglugerðirnar voru afnumdar með reglugerð 219 20. okt. 1950. Með reglugerð nr. 37 20. marz 1951 voru dragnótaveiðar bannaðar á svæðinu frá Önglabrjótsnefi að Hraunsnesi. Þannig eru nokkrar fleiri reglugerðir, sem takmarka dragnótaheimildina, en með reglugerð nr. 46 22. apríl 1950 um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi, sem sett var samkv. landhelgislögum nr. 44 frá 1948, voru dragnótaveiðar bannaðar fyrir Norðurlandi á svæðinu frá Horni að Langanesi. En með reglugerð þessari var fiskveiðilandhelgin fyrir Norðurlandi færð út, eins og áður segir, í 4 sjómílur út frá tilteknum beinum grunnlínum, sem dregnar voru milli yztu annesja, eyja og skerja, og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Á árinu 1952 eru dragnótaveiðar bannaðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Var það gert með reglugerð nr. 21 19. marz 1952, um verndun fiskimiða landgrunnsins, sem sett var samkvæmt landgrunnsl. nr. 44 1948. Með reglugerð þessari var fiskveiðilandhelgin, eins og áður hefur verið rakið, færð út í 4 sjómílur út frá tilteknum, beinum grunnlínum, er dregnar voru milli yztu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Eins og áður var rakið, voru dragnótaveiðar heimilaðar með reglugerð nr. 87 29. ág. 1958 innan fiskveiðilandhelginnar, eins og hún var ákveðin með reglugerð nr. 70 30. júní 1958, á vissum svæðum og veiðitíma, en þó utan þeirra fiskveiðitakmarka, sem ákveðin voru í reglugerð nr. 21 19. marz 1952. Dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelginni almennt eru svo leyfðar á ný með l. nr. 40 9. júní 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, en þau lög gilda óbreytt enn í dag, sbr. það sem hæstv. Ed. hefur verið að kljást við undanfarna daga.

Ráðh. getur samkv. till. fiskideildar atvinnudeildar Háskólans og Fiskifélagsins ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði eða svæðum á tímabilinu 15. júní til 31. okt. eða skemmri tíma, eftir því sem nánar er ákveðið samkv. l. þessum. Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerð, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd.

Ég held ég þurfi ekki að rekja þetta miklu meira, en ég vildi drepa á þennan inngang, þó nokkuð langur væri, til þess að sýna mönnum, að það hefur verið leitazt við á ýmsan hátt að reyna að hagnýta hér fiskveiðilögsöguna. Yfirleitt hefur friðunarsjónarmið verið ríkjandi, sem eðlilegt var, á þessum árstíma. Eins og sjá má á þessu yfirliti, hefur gengið á ýmsu um togveiðiheimildir í íslenzkri landhelgi og fiskveiðilögsögu. Þó oft hafi verið deilt um framgang mála í friðunarátt, þá verður ekki annað sagt en þjóðin hafi öll viljað ná sem mestri friðun til eigin afnota, hún stefnir að því að ná öllu landgrunninu sem fyrst undir sína lögsögu. Við útfærslu fiskveiðitakmarkanna 1952 og 1958 var aðstaða öll önnur til togveiða en verið hafði um langan tíma. Þessi breyting hafði þau áhrif, að verulega dró úr togveiðum bátaflotans, og stóð svo fram undir árin 1965 og 1966. Ein veigamesta ástæðan fyrir auknum áhuga til togveiða var breyting á síldargöngum við landið. Velflest minni síldveiðiskip gátu ekki elt síldina til hafs, og svo fór síld við Suðurland síminnkandi einnig. Útgerðarmenn þessara skipa voru því neyddir til þess að huga að öðrum leiðum til útgerðar, og vegna kostnaðarþáttarins og þæginda til útbúnaðar komu menn helzt auga á togveiði. Það verður að segjast hreint út, að gildandi l. og reglur voru ekki haldnar sem skyldi. Þótt menn væru staðnir að ólöglegum veiðum voru sektir ekki innheimtar eða brotum fylgt eftir. Hægt og bítandi seig á ógæfuhliðina í þessum efnum, og þarf ég ekki að rekja þá leiðinlegu hlið neitt hér í hv. þd. Hún er öllum þdm. vel kunn. Ég vildi þó segja frá orðum eins skipstjórans í Vestmannaeyjum, er hann mælti þau orð á fundi nokkrum í landhelgismálanefndinni, að raunverulega hefði þeim fundizt þeir vera taldir sem þjófar af almenningi og helzt ættu þeir að læðast með húsum fram og hlaupa fyrir horn, ef menn sæju þá. En hvað áttum við að gera? spurði hann. Valið var að fiska þar sem fiskurinn var, eða þá að hætta allri veiði. Við slíkt ástand getur engin þjóð búið til lengdar. Raunhæfar reglur verða að koma um togveiðiheimildir fyrir okkur. Raunar var alþm. þetta vel ljóst á s.l. ári, og svo fór, að mjög tímabær lausn var samþ. rétt áður en þm. fóru heim í jólafrí. Sumir undu vel við þessa lausn, aðrir ekki, svo verður um hvaða lausn og hvaða till., sem fram koma og verða samþ.

Því miður verða sumir þm. til þess að líta á þetta mjög svo viðkvæma mál og erfiða út frá þröngum sérhagsmunasjónarmiðum tengdum vissum svæðum og bátaflota. En málið er óleysanlegt með því móti. Því verða menn að gera sér fulla grein fyrir. Eins og fram kemur í l. frá 1958, er tilgangurinn sá að stuðla að sem mestri vernd fiskistofnanna hér við land. Það var augljóst mál, að við Íslendingar mundum nota öll hugsanleg tækifæri og ráð til þess að forðast þá geysilegu ásókn, sem var hér á miðum okkar upp að þremur mílum af veiðiskipum margra erlendra þjóða á þessum tíma. Öll okkar viðleitni hlaut að hníga að því að fæla burt erlend skip af næstu miðum okkar. Hér voru fyrir stríð mörg hundruð erlendra togara og einnig brátt eftir stríðið. Þessi skipafloti tók til sín miklu meiri afla en við gerðum sjálfir. Það gat því enginn verið á móti því, að við Íslendingar hertum baráttuna fyrir verndun fiskimiðanna hér við land, það var okkur lífsnauðsyn. Samtímis því, að við náðum svo góðum árangri til friðunar fiskimiða okkar fyrir okkur sjálfa, gerðu allir forsvarsmenn okkar öðrum þjóðum grein fyrir því, að fyrr eða síðar mundum við sjálfir setja þær reglur um hagnýtingu miðanna innan fiskveiðitakmarkanna, sem við teldum bezt geta komið okkur að gagni. Auðvitað dettur engum í hug að leggja til að drepa svo mikið af fiski innan okkar fiskveiðilögsögu, að til vandræða horfi. hvort sem um er að ræða í net eða troll. Grundvallaratriði tillögugerðar um breyttar veiðiaðferðir verða að byggjast á því, að við séum ekki að ofbjóða fiskistofninum við landið. Hins vegar verður ekki komizt framhjá þeirri staðreynd, að við verðum að veiða mikið af fiski og með sem minnstum kostnaði, jafnframt því að skila góðu hráefni í land og skapa með því næga atvinnu í landi og góða vöru til sölu á erlendum markaði. Með þetta í huga unnum við í landhelgismálanefnd að okkar verkefni.

Okkur var það einnig ljóst, að ekkí verður þetta mál leyst af nokkru viti nema líta á hafið umhverfis landið sem eina heild og miða till. við heildarnýtingu til þess að forðast ofálag á takmörkuðum svæðum. Það er löng reynsla fyrir því, að menn hafa mótað skoðanir sínar til togveiða mjög eftir aðstöðu í það og það skiptið. Okkur í landhelgismálanefnd voru kunnug þessi viðhorf, og vildum við því kynnast af eigin raun túlkun manna á þessum málum. Minnugir þess, að fjórar n. höfðu áður starfað og skilað áliti til breyttra heimilda til togveiða innan fiskveiðilögsögunnar, sem engan hljómgrunn fundu, ákváðum við ferðalög um landið til þess að ræða þessi mál sem mest við þá, er hlut áttu hér að. Við héldum samtals níu fundi utan Reykjavíkur, og voru haldnar á þessum níu fundum nærri 200 ræður. Öllum ræðumönnum til lofs vil ég segja það, að þeir ræddu þessi mál af einurð og skilningi, þótt skoðanir væru eðlilega skiptar og stundum á þann veg, að svo virtist, að um óbrúanlegt bil væri að ræða. Engu að síður lögðu menn á það ríka áherzlu, að nú væri brýn nauðsyn til þess að leysa það öngþveiti, sem togveiðimálin væru komin í, og það yrði að gerast á víðum grundvelli. Eins og undirstrikað er í grg., spurðu menn ekki „á að auka togveiðar?“ heldur „hvernig á að auka togveiðar innan fiskveiðitakmarkanna?“ Þetta er sannarlega mikið breytt viðhorf frá því, sem áður var. Það er of langt mál að rekja í sjónarmið manna á fundunum, en ég ritaði jafnóðum niður aðalatriðin úr ræðu næstum hvers einasta manns til þess að styðjast við, þegar unnið væri að till. um breyttar veiðiheimildir. Auk þessara umr. höfum við fengið mörg bréf, sem fjalla um samþykktir hreppsnefnda og félaga, og till. einstakra hópa manna, jafnframt því að þm. sumra kjördæmanna rituðu n. bréf um sín sjónarmið í málinu. Við nm. höfum því fengið allhressilegt matreiðsluefni til þess að sjóða saman till. okkar úr. Með því að fara gaumgæfilega yfir till. og innihald í ræðum manna mátti finna vissan grunntón til breytinga um auknar togveiðiheimildir. Á þessum grunntóni eru till. okkar samþ., og ég fullyrði hér, að þær njóta mjög mikils meiri hl. stuðnings þeirra manna, er koma til með að stunda sjósókn og eiga að starfa við þessar reglur. Ef svo væri ekki, hefði n. örugglega fengið mikla gagnrýni, en aðeins eitt bréf hefur komið til mín frá smáplássi til að mótmæla. Fjöldamargir hafa lýst stuðningi við málið, fáeinir talið gengið of langt, en samt viðurkennt, að hér væri um mjög stutt tímabil að ræða, og þess vegna væri rétt að reyna þetta. Hjá útvegsmönnum minni togbáta í Reykjavík hefur komið ákveðin beiðni um mikla aukningu í Faxaflóa, en á það vildi n. ekki fallast. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram, að hér séu settar einhverjar reglur, sem séu þannig, að þær geti staðið óbreyttar í langan tíma. Við leggjum á það mikla áherzlu, að endurskoðun fari fram fyrir árslok 1971 og þá sé metið, hvað betur megi fara, og reynslan verði sá skóli, sem við lærum af og hlítum. Við teljum nauðsynlegt að reyna í rúmlega 2 ár, þ.e. að fá 2 vertíðir, því að á einni vertíð næst ekki reynsla til að byggja á svo mikilvægar till. sem till. og reglur í togveiðimálum verða alltaf.

Áður en ég fjalla um till. sjálfar, vil ég í fáum orðum drepa á nokkur sjónarmið, sem verður að hafa í huga, þegar þessi mál eru rædd. Á fundum lögðum við fyrir fundarmenn ýmsar spurningar, sem við vildum heyra svör við, það er fá fram sjónarmið manna. Fyrsta spurningin var jafnan þannig: Hvað segja menn um þá skoðun, að fiskveiðilögsaga okkar sé þegar fullnýtt með núverandi veiðiaðferðum? Það var skoðun meiri hl. fundarmanna, að hvað snertir magn, þá sé varla um mikla aukningu að ræða, hins vegar gætum við og yrðum að bæta gæðin verulega og fiska með miklum mun minni tilkostnaði en verið hefur. Netaveiðin var víða harðlega gagnrýnd og vildu ýmsir setja strangari reglur um notkun netanna, sérstaklega banna veiðar í netin fyrir 1. marz. Margir vildu herða eftirlit með fjölda neta í sjó, en reglugerð um netafjölda er þverbrotin, án þess að nokkuð sé gert í því efni að fylgjast með fjölda neta í sjó. Ég vil í þessu sambandi segja frá eyðileggingu aflans í síðustu páskahrotu, en núna um páskana gerði vont veður, og fóru net og afli mjög illa. Samkvæmt matstölum frá Ferskfiskeftirlitinu kemur eftirfarandi í ljós: Ég fékk hér yfirlit, sem ég ætla að lesa, frá Vestmannaeyjum. Á tímabilinu 27/3 til 2/4 var landað 3157 tonnum, þeir fengu 63,3% í fyrsta flokk a, sem er athyglisverður og góður árangur, fyrsta flokk b 24,7%, í annan flokk 12%, ekkert í 3. flokk, sem er mjölfiskur. En páskavikuna var landað tæpum 900 tonnum og þá fóru aðeins 25,5% í fyrsta flokk a, í fyrsta flokk b fóru 33,3% og í annan flokk 35,7% í stað 12% áður, og í mjöl fóru beint 5,5%. Þorlákshöfn sömu tímabil, 874 tonn, var 51,8% 1. flokkur a, en páskavikuna 27,9%, 1. flokkur b, fyrri vikuna 28,7, en páskavikuna 21,4 annar flokkur 19,5%, en páskavikuna 41,4% og tæp 10% fóru beint í mjöl. Grindavík, vikuna fyrir páska 3509 tonn, fóru 44,7% í 1. flokk a en hjá Vestmannaeyingum 63%, páskavikuna fóru aðeins 17,4% af fiskinum t 1. flokk a, í fyrsta flokk b 25,2%, í annan flokk 41,3%, og rúmlega 16% fóru beint í mjöl. Í Reykjavík, sama skipti, fyrri vikuna 1677 tonnum landað og helmingur í 1. flokk a, 26% í 1. flokk b og 23% í annan flokk, en ekkert í mjölvinnslu eða 0,2%. Páskavikuna fóru 17,3% aðeins, úr 50%, í 1. flokk a, 1. flokk b aðeins 15,2% í staðinn fyrir 26% áður, og í annan flokk fóru 57,3%, og rúmlega 10% fóru beint í mjöl. Augljóst var af þessu dæmi, að óhæfa er að láta netin liggja í sjó yfir páskana. Því miður er þetta ekkert einsdæmi um erfiðleika með netin á páskunum. Við eigum að læra af reynslunni og taka upp öll net — þetta er mín skoðun, persónulega skoðun, — í 3 sólarhringa frá skírdagskvöldi og leggja ekki netin í sjó aftur fyrr en kl. 6 að morgni á mánudag. Sjómenn eru vel að fríinu komnir og það fólk, sem við fiskvinnsluna vinnur, því páskahelgin er orðin mesta fríhelgi ársins og fiskvinnsla fer úr skorðum þessa helgi. Það er staðreynd, að langmestur hluti hins lélega fisks kemur á land um þessa helgi, en svo lélegur fiskur er alltaf mjög erfiður í útflutningi. Auk þess er öll vinna við fiskinn unnin í nætur- eða helgidagavinnu, sem er fiskvinnslunni þung í skauti. Þótt þessir dagar gefi mörg kg í land, er heildarútkoman neikvæð bæði fyrir fiskvinnsluna og útgerðina, því að óhemjuleg netaeyðsla á sér stað undir svona kringumstæðum. Þess vegna á að hætta svona vinnubrögðum.

Næsta spurning var þannig: „Er að vænta árangurs varðandi gæði á fiski og kostnað pr. veitt kg með því að breyta um veiðarfæri?“ Langflestir töldu, að þegar rétt væri staðið að togveiðum, mundi góður fiskur koma að landi og jafnara framboð einnig. Allir voru sammála um að ódýrari veiðiaðferð miðað við árangur væri varla völ á, ef menn hefðu ársútgerð í huga.

Þriðja spurningin fjallaði um það, hvort rétt væri að auka togveiðina á sumrin og haustin vegna atvinnuskilyrða. Sú skoðun var almennt ríkjandi, að á þessum árstíma væri aukning æskileg, þó bentu sumir á, að á sumrin og nokkuð fram á haustin væri víða öflug sókn smábáta, sem yrðu að hafa eðlilegt athafnafrelsi.

Fjórða spurningin var um, hvort gera ætti greinarmun á skipastærðum varðandi togveiðiheimildina. Um þessa spurningu voru sjónarmiðin verulega skipt, en mitt mat er það, að verulega fleiri vildu skiptingu og töldu reyndar útilokað annað, ef friður ætti að vera um nýjar till. til togveiðiheimildanna. Þeir, sem vildu ekki gera mismun eftir skipastærðum, benda réttilega á, að hafið væri eign landsmanna og samkvæmt stjórnarskránni bæri öllum sami réttur til afnota á sameign landsmanna. Engu að síður var það mat landhelgisn., að viss skipting á veiðiflota landsmanna yrði að vera varðandi togveiðiheimildir. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að smábátar sæki á miðin fyrir utan stór togveiðiskip, og svo verður að ætlast til þess, að við smíði stærri skipa geri menn ráð fyrir að halda þeim út til hafs, en ekki inni í flóum. Allur útbúnaður þeirra bendir til þess. Sú samlíking var sett á einum fundinum, að börnin væru látin smala heimahagana, unglingarnir nálægari svæði og þeir fullorðnu fjöllin. Þá var spurt á móti: „En hvað um öldungana, hvar smala þeir?“ Já, vissulega eru togararnir hjá Íslendingum í dag öldungar, en samt verður að hafa þá utar.

Um 5. spurninguna voru menn sammála, sem var á þá leið, hvort rétt væri að friða viss svæði handa vissum veiðarfærum. Vandamálið við svæðafriðun handa vissum veiðarfærum er fólgið í því, að göngur þorsksins eru verulega breytilegar og því vandamál að vera viss um, að friðað svæði gefi góðan árangur fyrirfram. Engu að síður er svo mikilvægt að stuðla að línuveiðum, t.d. á vissum tíma, að menn telja eðlilegt að gefa línunni sérsvæði á vetrarvertíðinni.

Í 6. spurningunni var spurt um, hver ætti að velja veiðarfærin, útgerð eða einhver annar aðili. Nær undantekningarlaust töldu menn, að valið um útgerðarhætti væri bezt með því að útgerð og skipstjórar tækju ákvarðanir um þau mál, en ekki einhver opinber aðili.

7. spurningin: Telja menn rétt að stækka möskva trollsins enn meir, ef auknar togveiðiheimildir verða leyfðar? Skoðanir manna voru hér nokkuð misjafnar, sumir vildu stækka, aðrir sögðu möskvana svo stóra, að yfirleitt slyppi allur smáfiskur, sem hætta væri í að veiða. Mjög svipuð rök koma fram hjá fiskifræðingum um kjörsvið möskvans, eins og hann er í dag. Við í n. lögðum þó ekki til, að lögboðið væri að stækka möskvann, en vissulega gæti verið gott fordæmi af okkar hálfu að lögbinda stærri möskva og leggja síðan að öðrum þjóðum að gera hið sama. Við lögðum nokkrar fleiri spurningar fyrir fundarmenn, en of langt mál er að rekja það allt hér, þó vil ég ekki skilja svo við þáttinn um fundarhöldin að geta þess ekki, að langflestir voru á því máli, að rétt væri að hafa til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands í þessum málum. Þó kom nokkuð hörð gagnrýni fram á fiskifræðingana, og sérstaklega töldu menn, að upplýsingar lægju ekki fyrir nægilega vel frá þeim, þeir mættu gjarnan koma víðar til þess að fylgjast með fiskveiðum okkar.

Sem innskot hér vil ég benda á í þessu sambandi, að allt upplýsingarstarf kostar mikið fé og útgáfa á prentuðu máli um rannsóknir. En nú eigum við sjónvarpið, og það er kjörstaður fyrir fiskifræðingana að koma fram með myndir og kynna rannsóknir sínar fyrir þúsundum manna í þágu alþjóðar. Ég legg áherzlu á gildi öfgalausra umræðna og fræðslu um fiskveiðar okkar og alla meðferð á fiski frá fyrstu til síðustu stundar. Hér þarf stórt samstillt átak til að koma og það mun borga sig fyrr eða síðar. Einnig kom það mjög greinilega fram alls staðar, að menn vilja, að föstum tökum sé tekið á öllum brotum og mönnum líðist það ekki hér eftir að brjóta l. um togveiðar innan fiskveiðitakmarkanna. Landhelgismálan. leggur á þetta atriði mikla áherzlu, og í samtali við forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Pétur Sigurðsson, kom fram, að hans vilji er sá sami. Dómsmálastjórnin í landinu má ekki bregðast í þessu efni, þá er voðinn vís. Enginn vafi er á því, að aflaaukningu á togveiði þarf að athuga mjög gaumgæfilega, fyrst og fremst af því að trollið er veiðarfæri, sem gefur mjög mikla möguleika til meiri sóknar á miðin en önnur veiðarfæri, sérstaklega þegar um togara er að ræða. Þetta var okkur í n. vel ljóst, og þess vegna viljum við fara varlega í allar brtt. til aukinna heimilda. Í samtölum við hina mætustu skipstjóra, sem eru formælendur togsins, kom það fram, að almennt væri enn um að ræða mikla hleypidóma um skaðsemi trollsins, og einnig kemur fram í grg. Jóns Jónssonar, sem hér fylgir með, hið sama. Sömuleiðis má vitna til greinar eftir Aðalstein Sigurðsson fiskifræðing í Ægi nýlega. Þótt geysilegur munur sé á botnvörpunni í dag sem drápstæki á smáfiski frá því, sem áður var, vegna þess, að nú er möskvinn næstum helmingi stærri en fyrr, getur þó skeð í mokfiski, að óeðlilega mikið drepist af ónothæfum fiski í botnvörpunni. Hér er við höfuðvandamál að etja. Ég er samt þeirrar skoðunar, að með miklum áróðri og með hvatningu til skipstjórnarmanna á togveiðibátum megi hafa veruleg áhrif á það, að menn fari úr smáfiski yfir í stærri fisk, þótt tregari sé, vegna þess að skömm er að því að drepa fisk, er engum verður að gagni. Slík vinnubrögð sæma engum og alls ekki fiskveiðiþjóð sem okkur Íslendingum. Þegar menn velta fyrir sér till. þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, að lögleiða eigi til togveiðiheimilda, verða menn að hafa það í huga, að í gildi eru miklar togveiðiheimildir um allt land innan fiskveiðitakmarkanna, nema úti fyrir Vestf. Einnig er rétt að minna á þá staðreynd, að vegna almennra lögbrota var trollið notað á miklu stærra svæði en heimildirnar sögðu til um. Enn höfum við ekki fengið nákvæman útreikning um, hversu mikil aukning verður nú, en hún er víða lítil og nánast lagfæring til betri framkvæmda við eftirlitið. Á öðrum svæðum er um meiri aukningu að ræða. Ég sé nú, að tíminn er kominn langt fram yfir fundartíma í Sþ. og væri líklega rétt að staldra hér við. Annars ætlaði ég að skýra nánar í hverju breytingarnar væru fólgnar, en ég held, að það sé rétt með tilliti til fundarhalda í Sþ., að ég doki hér við, en ef tækifæri gefst til í sambandi við 2. umr., mundi ég þá fara nánar yfir mismun á þeim till., ef það þyrfti mikla gagnrýni, þ.e.a.s. till. n. og þeim reglum, sem eru í gildi í dag.