09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessa umr. með örfáum orðum að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar, að okkur bæri, Íslendingum, að fara varlega í því efni að leyfa togveiðar innan landhelginnar, og ég hef ekki að undanförnu farið dult með þessa skoðun. Ég gerði grein fyrir henni m.a. fyrr á þessu þingi í sambandi við bráðabirgðabreytingu, sem þá var gerð á l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Hins vegar liggur það í augum uppi, að fiskstofnarnir njóta ekki friðunar, ef stunduð er togveiði innan landhelginnar, sem ekki samrýmist l. og reglum um það efni. Og fyrri reynsla er sú, að í því efni hefur stundum því miður verið pottur brotinn. Ég tel því mikla nauðsyn bera til, að settar séu reglur um þetta efni, og ég tel, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafi verið mjög vel undirbúið, og það er þannig úr garði gert, að menn leitast við að hafa heildaryfirsýn yfir málið allt.

Í þessu frv. er gengið lengra um heimildir til togveiða heldur en ég hefði óskað. Ég tel þó miklu skipta, að í frv. er gert ráð fyrir, að þessar reglur gildi einungis um takmarkaðan tíma, þannig að fylgzt verði með, hvaða reynsla fæst af þessum reglum, sem frv. greinir. Ég tel það ákvæði frv. mjög mikilvægt.

Mér virðist, að málið liggi nú þannig fyrir:

Í fyrsta lagi hefur það verið mjög rækilega undirbúið, og haft hefur verið samband bæði við þm. í kjördæmunum og þá, sem áhuga hafa og hagsmuna að gæta í þessum efnum úti um landsbyggðina. Það er því sú niðurstaða, sem fengizt hefur af víðtækri athugun, sem hér liggur fyrir í þessu frv.

Í öðru lagi er mér ljóst, að hér er um málamiðlun að ræða milli mjög ólíkra sjónarmiða. Og málamiðlun fæst aldrei á þann hátt, að allir geti verið ánægðir. Þær till., sem við þm. Austurl. gerðum til landhelgisnefndar, voru einnig byggðar á málamiðlun okkar á milli, en við stóðum þannig að þeim till., að við létum þær frá okkur fara sem samkomulagstill., og vil ég fyrir mitt leyti standa að því samkomulagi og þeirri málamiðlun, sem við gerðum okkar á milli í þessu máli.

Í þriðja lagi er hér leitazt við, eins og ég sagði áðan, að hafa heildaryfirsýn yfir málið allt, og þessar till. eru áreiðanlega þannig gerðar, að reynt er að hafa sem fyllst samræmi í þeim um aðstöðu hinna einstöku landshluta og sókn á hin ýmsu veiðisvæði. Þetta tel ég mjög mikilvægt, og ef heildarmyndinni verður raskað, þá sýnist mér, að það geti leitt af því nýtt ósamræmi þannig, að bátar úr vissum landshlutum sæki þá meira á mið út af öðrum landshlutum heldur en eðlilegt má telja.

Í fjórða lagi er mér ekki ljóst, hvað tekur við, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Mér skilst og ég veit raunar með vissu, að þau brbl., sem sett voru í þessu efni, falla úr gildi nú á næstu dögum, og mér er alls ekki ljóst, hvernig á framkvæmdinni yrði haldið í þessum efnum. ef þetta frv. næði ekki fram að ganga. Niðurstaðan er því sú, að þrátt fyrir það að ég er ekki ánægður með þetta frv. í öllum greinum, mun ég fyrir mitt leyti styðja að því, að það verði lögfest, og vík þá aftur að því, að ég tel það ákvæði, að þessar reglur eigi að gilda um takmarkaðan tíma, svo sem í tilraunaskyni, vera mjög mikilvægt atriði í þessu máli.

Um brtt. á þskj. 683 vil ég segja það eitt, að þessi þd. er búin að afgreiða efni þess máls, sem þar er um fjallað, og ég fæ ekki séð, að það sé annars kostur í því efni heldur en hlíta þeim úrskurði, sem það mál fær í hv. Nd.