09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árnason: Herra forseti. Ég held, að það sé öllum hv. þm. ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða, og getur verið mjög afdrifaríkt fyrir íslenzku þjóðina, hvernig fer í sambandi við afgreiðslu þessa máls og hvaða reynsla fæst í sambandi við þau ákvæði, sem þetta lagafrv. kveður á um, ef það verður að lögum. Undir afgreiðslu málsins í hv. Nd. komu nokkrar brtt. frá einstökum þm. Yfirleitt voru till. felldar, en þó ekki í sumum tilfellum með ýkja miklum atkvæðamun. Dæmi voru um það, að till. var felld með 19:16 atkv. o.s.frv. Sýnir þetta glöggt, hvað skiptar skoðanir eru innan þings um einstök atriði frv. og ákvæði, sem í því eru. Ég tel því, að það sé langt frá því, eins og sumir hv. þm. hafa haldið fram, að um frv., eins og það liggur hér fyrir til afgreiðslu í þinginu, sé mikil samstaða.

Því verður ekki neitað, að hér er um mikið vandamál að ræða, og framkvæmd l. skiptir jú vitanlega miklu máli í einstökum atriðum. Ég hygg, að það sé álit sumra, sem vel þekkja til eftirlits með fiskveiðilögsögunni, að það muni geta verið í sumum tilfellum miklir annmarkar á því, að hægt verði að framfylgja l., ef frv. verður samþ. eins og það liggur hér fyrir. Þar á ég sérstaklega við svuntuna svo kölluðu, sem er í Faxaflóa, því að það sjá allir, að eins og hún er afmörkuð, mundi það valda nokkrum erfiðleikum fyrir löggjafann eða landhelgisgæzluna að fylgjast ýtarlega með þeirri takmörkun, sem þar er ákveðin.

Eins og hér hefur verið vikið að af hv. þdm., sem talað hafa þegar í þessu máli, var frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 frá 1960 um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti til umr. og afgreiðslu hér í þessari hv. d. fyrir nokkrum dögum. Þar kom skýrt fram vilji dm. varðandi það, sem fram kemur í meiri hl. till. sjútvn. á þskj. 683, og er þar aðeins verið að undirstrika af brýnni nauðsyn þá samþykkt, sem n. gerði á sínum tíma. Ég sé ekki, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sé ástæða til þess, þegar komið er hér inn í d. annað frv., sem gengur í þveröfuga átt við það, sem þessi þd. hefur samþykkt, að við eigum þá að halda að okkur höndum og sjá til um það, hvernig þeir háu herrar í Nd. vilja afgreiða það, sem við höfum samþ. í þessari d. Nei, ég tel, að það sé vart um annað að ræða sóma okkar vegna hér í þessari d. en að við undirstrikum það, sem við höfum áður gert í þessu, nema við höfum skipt um skoðun, að við höfum farið villir vegar í þessum efnum og höfum ekki verið að gera rétt, þegar við afgreiddum málið hér í þessari hv. d.

Þetta frv., sem hér er til umr., er með skýr ákvæði um það, að það skuli leyfa dragnótaveiðar á því svæði, sem var búið að samþykkja í þessari d., að skyldi ekki vera leyft. Og að við eigum, þegar það gengur til atkv. um sama efni í þessari d., að halda að okkur höndum og taka ekki afstöðu til málsins vegna þess, að Nd. sé ekki búin að gera það — ég fæ varla skilið, að sú afstaða geti skapazt hjá þeim hv. þm., sem höfðu tekið svo skýra afstöðu til þess máls. Ég mundi treysta því, að það sé einmitt mjög kærkomið tækifæri og óefað til þess að tryggja, að þetta ákvæði verði að l. og komist til framkvæmda, að þessi till. meiri hl. sjútvn., þ.e. 6 af 7 nm. eins og áður mæla eindregið með þeirri samþykkt, hljóti enn þá samþykki í þessari hv. d.

Það er ekkert nýtt, að síðari d. geri einstakar breytingar á frv., sem hefur kannske sézt yfir í fyrri d., þegar málin hafa verið til umr., og að því sé svo hætt þessu máli um að komast til framkvæmda eða verða samþykkt. að það megi ekki hrófla við neinu, fæ ég vart séð, og þess vegna ítreka ég tilmæli mín til hv. dm., að ég vænti þess, að við verðum sjálfum okkur samkvæm í afgreiðslu þessa máls varðandi þessa brtt. sjútvn.

Brtt. á þskj. 682 er um fyrri liðinn við 2. gr., að e-liðurinn falli niður. Það er varðandi togveiðarnar, og er þar algerlega um sama veiðisvæði að ræða, eða það er innan sömu takmarka og getur um varðandi dragnótaveiðarnar. Að vísu er það minna svæði, sem þarna er, heldur en dragnótaveiðin er heimiluð eða hefur verið heimiluð á á undanförnum árum eftir sérstöku leyfi, en eigi að síður er þetta innan þess svæðis, sem margir telja, að sé nauðsynlegt að friða vegna ungfisksins. Það eru margir, sem telja það höfuðnauðsyn til þess að viðhalda fiskstofnunum við strendur Íslands, að friðaðar verði vissar uppeldisstöðvar víða við strendur landsins, og ein af þeim uppeldisstöðvum er einmitt Faxaflóinn. Það hefur komið fram opinberlega oftar en einu sinni frá fiskifræðingum, að það sé þeim mikið áhyggjuefni, að gengið sé meira á íslenzka þorskstofninn heldur en hann þoli, og þess vegna má það vera ljóst, að það er ekki einhlítt og ekki það eitt, sem okkur vantar, að geta náð í meira og meira af stofninum heldur en við höfum getað að undanförnu, og sérstaklega er það ekki höfuðnauðsyn, þegar áherzlan er lögð á það að leggja undir sig þær fiskstöðvar, sem vitað er um, að er mikið af ungfiski á. Það liggja fyrir skýrslur um það, hve mikið sé drepið af ókynþroska þorskfiskí og tölur, sem við höfum í þeim efnum eru jafnt frá útlendingum eða útlendum sérfræðingum sem innlendum, og því miður er það svo, að stór hluti af þeim veiðum á sér stað utan íslenzku landhelginnar við Norðausturlandið langt úti. Þar erum við ekki einir um að ráða eða ákveða. Þar verðum við að leita sérstakra samninga við aðrar fiskveiðiþjóðir til þess að forðast þá spillingu, sem á sér þar stað í veiðunum. Það er talið, að það sé vaxandi skilningur meðal annarra fiskveiðiþjóða á nauðsyn þess, að komið verði á takmörkun á veiði ókynþroska fisks. Í því skyni hefur, eins og vikið hefur verið að, verið ákveðið t.d. að víkka möskvastærðina sem eina leið í þeim efnum. Um það eru menn aftur ekki sammála að öllu leyti a.m.k., hvaða áhrif það hefur til þess að koma í veg fyrir að veiða ungfiskinn eða ókynþroska fiskinn, þó að möskvarnir séu stækkaðir. Það er ýmislegt fleira, sem þarf sjálfsagt að taka þar með í reikninginn, til þess að öruggt sé, að það eitt að stækka möskva trollsins, jafntakmarkað og það hefur enn þá verið gert og ákveðið, það komi að fullu gagni.

Með hliðsjón af því, að hér er verið að fara í stórum stíl inn á nýjar leiðir varðandi nýtingu veiðisvæðanna við strendur landsins, þá er það álit þeirra, sem eru flm.brtt. á þskj. 682, eins og fram kemur í 2. tölul. á því þskj., að einmitt með tilliti til þess, að hér er verið að fara algerlega inn á nýjar brautir, sem geta haft mjög mikil og afdrifarík áhrif, þá eigum við að fara okkur varlega í þessum efnum, og með hliðsjón af því er lagt til, að l. hafi ekki gildi nema til ársloka 1970 í staðinn fyrir 1971, eins og er í frv. Við teljum, að þessi takmörkun sé þó ekki það mikil, að það eigi að fást nokkur reynsla á þessu tímabili, þar sem segja má, að að mestu leyti sé hér um tveggja ára togveiðitímabil að ræða. Við vitum a.m.k. um þá báta, sem ætlað er að hagnýta veiðisvæðin næst landinu sem eru 105 smál. og þar undir að þeirra tími er fyrst og fremst sumar- og haustvertíðin, og þar ætti að fást nokkur reynsla með að fá fullkomnar tvær slíkar vertíðir, eins og ætti að verða, ef þessi brtt. verður samþ. Um brtt., sem hér liggur einnig fyrir varðandi Húnaflóann, vil ég segja það, að það er svipað sjónarmið, sem um er að ræða eins og hér varðandi Faxaflóa, og ég skil vel sjónarmið þeirra, sem þar hafa viljað fara varlegar í sakirnar heldur en felst í till. landhelgisnefndarinnar. Og ég mun stuðla að samþykkt þeirrar till.

Herra forseti. Enda þótt menn kannske greini á um ýmislegt meira, sem fram kemur í þessu frv., heldur en felst í brtt., sem fyrir liggja við afgreiðslu málsins í þessari hv. d., þá hafa menn þó verið sammála um, að það sé ekki rétt að gera víðtækari brtt. heldur en hér er lagt til, en við teljum, að þær séu nauðsynlegar, og þær ættu á engan hátt að stofna málinu í neina hættu, þótt samþykktar verði.