09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er ekki vafamál, að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, og það er sjálfsagt rétt, sem hér hefur verið tekið fram, að þetta er eitt stærsta málið, sem þetta þing fjallar um. Þess vegna finnst mér nú ekki hægt að tala um það, að það sé verið að tefja þetta mál, þó að hv. Ed.-þm. gefi sér nú tíma til þess að hugsa um málið og tala um málið tvær dagstundir, þannig að ég held, að það sé alveg ástæðulaust að telja það eftir, þó að menn segi aðeins fáein orð um þetta mikla mál. En ég skal samt ekki fara að tefja tímann hér, en ég ætla aðeins með tveimur eða þremur setningum að gera grein fyrir minni afstöðu í þessu máli.

Ég get alveg tekið undir það, sem hv. 2. þm. Austf. sagði hér áðan, að ég hef alltaf viljað fara mjög varlega í þessum efnum. Og það vil ég enn gera. Og til þess liggja þær ástæður, sem nú skal greina: Mér er það auðvitað ljóst, óg það er enginn, sem dregur það í efa, að Íslendingar hafa full ráð í sinni landhelgi. Þeir geta sett þau l., sem þeir kjósa, að þar gildi og þ. á m. ákveðið, hverjum veiðiaðferðum skuli beitt. En í því sambandi hef ég þó alltaf viljað hafa í huga, að sú landhelgi, sem við höfum fengið viðurkennda til þessa, er ekki okkar lokamark. Við höfum það alltaf í huga, að við þurfum að færa landhelgina enn þá lengra út, og okkar markmið er það að ná undir okkar lögsögu fiskimiðum landgrunnsins alls. Þess vegna þurfum við að haga okkar nýtingu á þeim miðum, sem undir okkar lögsögu heyra, á þann veg, að notkun okkar verði aldrei hægt að nota sem rök gegn okkur, þegar við gerum frekari kröfur um útfærslu landhelginnar. En það eigum við áreiðanlega eftir að gera. Þess vegna vil ég fara varlega í þessum efnum. Í annan stað er það, að í raun og veru er öllum ljóst, að framtíð okkar Íslendinga, framtíð okkar þjóðar, er undir því komin, að hægt sé að stunda fiskveiðar með árangri hér við landið. Og þess vegna verðum við að gæta þess umfram aðra hluti að haga ekki veiðum okkar á þessum miðum á þann veg, að gengið sé á þá stofna, sem eiga að vera undirstaða okkar velmegunar í framtíðinni. Auðvitað eigum við að nýta þetta sem bezt og skynsamlegast á hverjum tíma, en ég undirstrika aftur, að að mínum dómi verður þarna aldrei of varlega farið, það má aldrei hrapa að neinu í þessum efnum með stundarhagsmuni fyrir augum.

Nú hefur verið reynt að setja heildarreglur um þetta efni í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og ég get tekið undir það, sem sagt hefur verið um málið, að því leyti til, að það hefur verið vel að því unnið, og frv. byggist að sjálfsögðu á málamiðlun. En ég lít á þetta frv. fyrst og fremst sem tilraun, fyrst og fremst sem tilraun, m.a. af því, að í þessu efni er ákaflega mikið undir framkvæmdinni komið. Við getum ekki sagt um það með vissu, hvernig þetta muni takast, m.a. af því, að við vitum ekki, hvernig framkvæmdinni í þessum efnum verður háttað og hversu vel verður á málinu haldið og þess gætt, að farið sé að öllu í þessu sambandi á löglegan hátt. En við verðum hins vegar að viðurkenna það, að það hefur verið mikill misbrestur á því að undanförnu, að það hafi verið haldið uppi í framkvæmd þeim reglum, sem settar voru um þetta. Og m.a. af því, að það var ekki talið unnt að halda þeim uppi í framkvæmd, þá var sú tilslökun gerð, sem allir þekkja. Þess vegna er það frá mínum bæjardyrum séð einna þýðingarmest í þessu máli, að gildistími þessara I. sé sem stytztur, og þess vegna legg ég mesta áherzlu á þá brtt., að gildistíminn sé bundinn við árslok 1970. Það getur illa tekizt til um þessa framkvæmd, en það er vonandi, að sú verði ekki raunin. Ef vel tekst til, þá er hægurinn hjá að framlengja gildi þessara l., og þá munu ugglaust menn verða því meðmæltir yfirleitt. En ef illa tækist til, og þeim möguleika höfum við ekki leyfi til að gleyma, þá er betra að binda sig í upphafi við hinn skemmri tímann og láta þetta ekki gilda nema til ársloka 1970. Og þess vegna vil ég biðja hv. þm. að athuga það vel, áður en þeir greiða atkv. um þessa brtt. Ég get ekki séð, að hún geti spillt neinu frá sjónarmiði þeirra, sem vilja gera þessa tilraun. En með því að fallast á hana er gengið til móts við okkur, sem höfum meiri efa í okkar huga um þessi efni. Og ég held þess vegna, að allir, sem vilja fara varlega í þessu efni, hljóti að gjalda þessari brtt. já-atkv. En það, sem varð þess valdandi, að ég stóð upp, var það, að ég kann ekki við þau rök, sem hér hafa verið borin fram, að engu mætti breyta í þessari hv. d. í þessu frv., af því að svo mikil hætta væri þá á því, að málið strandaði í Nd. Eins og ég minntist lauslega á, þá hefur þetta mál verið til meðferðar alllengi í Nd., og hún hefur haft tíma til þess að fjalla um það og sinna því nokkuð rækilega, en hingað upp í Ed. kemur þetta mál fyrst í fyrradag, þannig að þessari hv. d. er ekki ætlaður langur tími til þess að fjalla um málið. Ég tel það alveg óviðeigandi að ætla að setja þessa hv. d. í þá klemmu að segja við hana: annaðhvort samþykkir þú þetta frv. óbreytt eða það er hætta á því, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Með slíkum vinnubrögðum, að þvæla málunum svo og svo lengi í Nd. og setja þau svo á síðustu stundu hingað upp í Ed. og segja þá, að það sé ekki um annað að ræða fyrir hv. Ed. heldur en afgreiða málin óbreytt, ef hún vilji ekki sigla þeim í strand, þá er Ed. sett í þá sjálfheldu, sem ekki er viðunandi. Ed. hlýtur auðvitað að taka sjálfstæðar ákvarðanir í þessu efni og verður auðvitað að gera þær breyt. á frv., sem hún álítur skynsamlegar. Og það er vanmat á hv. Nd. að ætla, að hún geti þá ekki eins og Ed. afgr. á skömmum tíma mál, sem hún í raun og veru vill láta fram ganga. Það er vissulega hægt að setja Nd. þá í svipaða klemmu eins og gert virðist vera með Ed. og gefa Nd. valið um það, ef breyt. væru hér einhverjar samþ., hvort hún vilji fallast á frv. í þeirri mynd, sem það kemur frá Ed., eða hún vilji sigla málinu í strand. Nei, þannig er ekki hægt að flytja mál. Ef það á að halda uppi þessari deildaskiptingu og hún á að hafa þýðingu, þá er ekki hægt að halda þannig á málum. Og auðvitað er ekki hætta á því, að málið sigli í strand, því auðvitað er sú leið eftir, ef d. kemur ekki saman, að taka málið fyrir í Sþ., þannig að það eru engar frambærilegar mótbárur gegn því að gera brtt. við frv., og þessar brtt., sem hér eru bornar fram, eru mjög hófsamlegar. Ég viðurkenni þó, að það geta eðlilega verið skiptar skoðanir um brtt., sem lúta að Faxaflóa og Húnaflóa, og að það geta verið mismunandi sjónarmið og hagsmunir, sem þar rekast á og koma til greina, en ég held, að það ætti ekki að þurfa að rekast á neinir hagsmunir, þegar um gildistíma l. er að tefla. Ég held, að það hafi miklu meiri málamiðlun átt sér stað í þessu máli heldur en sú að fallast á það sjónarmið, sem felst í þeirri brtt. okkar nokkurra þm. að takmarka gildistímann meir en gert er í frv. og binda hann við 11/2 ár í staðinn fyrir 21/2 ár.