22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með frv. þessu til laga um staðfestingu á ríkisreikningnum fyrir árið 1967 fylgir ríkisreikningurinn að venju prentaður ásamt athugasemdum yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, svörum rn. við þeim athugasemdum og úrskurði yfirskoðunarmanna að þeim athugasemdum fengnum. Ég sé hér ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega afkomu ríkissjóðs á árinu 1967, það gerði ég mjög rækilega í fjárlagaræðu í haust, og ef ástæða verður til þess að gera þau mál frekar að umtalsefni, þá tel ég eðlilegra, að það verði gert í sambandi við meðferð fjáraukalaga hér í Sþ., þegar þau koma hér til meðferðar.

Frv. um samþykkt á ríkisreikningnum er að venju aðeins til að leita samþykkis á þeim niðurstöðutölum, sem ríkisreikningurinn sýnir að lokinni endurskoðun yfirskoðunarmanna. Það mætti ýmislegt um athugasemdir yfirskoðunarmanna segja og um þennan reikning og ríkisbúskapinn í heild í þrengri merkingu. Það er auðvitað margt, sem er með öðrum hætti en það ætti að vera, og til þess eru yfirskoðunarmenn settir að benda á það, og ég vil láta í ljós hér þakkir til þeirra allra fyrir það, að þeir hafa sýnilega lagt sig fram um að reyna að kanna þau vandamál, sem við er að glíma, og benda á þau atriði, sem úrskeiðis hafa farið. Ýmis þau atriði eru með þeim hætti, að mér er mikil þökk í því, að á þeim skuli vera vakin athygli og undir þau tekið. Á það ekki hvað sízt við um þær athugasemdir, sem fram koma mjög rækilega varðandi nauðsyn þess, að betri skil séu gerð á innheimtufé innheimtumanna ríkissjóðs. Því miður vantar enn verulega á það, að skil innheimtumanna séu með fullnægjandi hætti, og það vantar á það allt of mikið, að innheimta sé jafnrækilega innt af hendi alls staðar á landinu. Það má segja, að hér í Reykjavík sé hún í mjög góðu lagi, yfirleitt, og í ýmsum embættum er það svo, en því miður er ekki sömu sögu að segja um öll embætti, og m.a. er það mjög slæmt, hversu skil innheimtumanna ríkissjóðs hjá ýmsum sýslumönnum berast seint, og er í rauninni gersamlega óviðunandi. Þetta hefur rn. reynt að lagfæra eftir því. sem möguleiki hefur verið á. Menn hafa verið sendir út til hinna ýmsu embætta, auk þess sem rætt hefur verið sérstaklega við sýslumennina á fundum þeirra hér og reynt að leggja áherzlu á, að þessu verði hraðað miklu meir en verið hefur.

Að því er stefnt með hinum nýju l. um ríkisbókhald og gerð ríkisreiknings og fjárl., að það sé hægt að loka ríkisreikningi mjög snemma árs. Þetta átti t.d. að gerast nú í ár. Það átti að vera búið að loka reikningi nú fyrir alllöngu, en það hefur verið til hindrunar, að enn þá eru nokkrir sýslumenn, sem ekki hafa gert skil, og frá vissum stofnunum hefur gengið ákaflega erfiðlega að fá fullnægjandi uppgjör. Vitanlega er ekki hægt endanlega að loka reikningi fyrr en þetta tekst. Hvaða úrræða á að grípa til til þess að koma þessu í lag og koma þeim ósið af hjá einstaka innheimtumönnum að gera ekki skil með eðlilegum hætti? Um það skal ég ekki segja hér, en ég tel óumflýjanlegt, að það verði tekið upp við dómsmrn. til hvaða bragða á að grípa í því sambandi.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér einstakar athugasemdir. Flestum þeirra hefur verið svarað, að ég hygg, á nokkuð fullnægjandi hátt, eftir því sem úrskurðir yfirskoðunarmanna benda til. Þó að þeir vekji athygli á því, að ýmislegt sé til athugunar eftirleiðis, þá eru þó einnig margar athugasemdirnar, sem þeir telja að sé svarað með fullnægjandi hætti. Ég mun taka það fullkomlega til greina, þar sem að því er vikið, að athugasemdir, sem yfirskoðunarmenn bera fram, séu þess eðlis, að þeir telja, að það þurfi að hafa vakandi auga framvegis með þeim vandamálum, sem þar er við að fást. Ég tel aðeins skylt að víkja hér að tveim athugasemdum, vegna þess að þær eru orðaðar á þann veg, að þeim er vísað til aðgerða Alþ.

Við þekkjum það frá gamalli tíð, að það hefur einstaka sinnum komið fyrir, að athugasemdum hefur verið vísað til aðgerða Alþ. Raunverulega er ákaflega erfitt að finna form fyrir því, hvernig Alþ. á að bregðast við þeim málum, en það má vel hugsa sér það, að annað hvort leiði það til ályktunar, sem fjhn., sem tekur við reikningnum, beitir sér fyrir, eða þá, að sú n. riti rn. bréf og leggi þá áherzlu á sín sjónarmið í þessum efnum eða hvað hún telur, að þurfi að gera til úrbóta. Er þá að sjálfsögðu skylt eftir því að fara, en ég hygg, að ætið muni nú fara svo, að þetta sé meira til að leggja áherzlu á mikilvægi athugasemda, en hitt að það hafi raunverulega þýðingu að vísa til aðgerðar Alþ.

Nú vill það, sem betur fer, þannig til, að þessar athugasemdir eru nú ekki veigamiklar, þegar þær eru skoðaðar. Önnur þeirra, sem fjallar um Skipaútgerð ríkisins, er fyrst og fremst um það, að þar hafi verið tveir menn á launum og hafi fengið hálf forstjóralaun hvor þeirra. Þetta telja yfirskoðunarmenn að sé rausn um of og benda á, að því hafi ekki verið komið enn í lag að gera á þessu breytingu og benda jafnframt á, að Skipaútgerðin muni hafa reynt að leyna þessu í upplýsingum, sem gefnar hafa verið varðandi launagreiðslur Skipaútgerðarinnar. Ég hef kannað þetta síðasta atriði um leyndina nokkuð, og þar er um algeran misskilning að ræða. Það hefur enginn reynt að leyna neinu. Ég veit, að yfirskoðunarmenn hafa verið í góðri trú, er þeir skrifa þetta á blað, en bæði af hálfu launamáladeildar fjmrn. og Skipaútgerðarinnar, sem ég lét hafa samband við strax og ég sá þetta, er það tekið fram, að það hafi aldrei komið til álita annað en að þetta væri gefið upp, og hafi það fallið niður af launaskrá þá hafi það verið af algeru gáleysi, enda eru þessar upphæðir færðar í reikninga Skipaútgerðarinnar. þannig að það er alveg ljóst, hvað um er að ræða. Þá voru það einnig mistök í svari samgmrn. að taka það ekki fram, að þessum launagreiðslum hefur verið hætt og það fyrir nokkru. Þessu hefur verið breytt þannig, að stjórnarnefndin fær laun sem hver önnur n.. Ég hef ekki nákvæmlega þær tölur, en þær eru ekkert, sem um er að fást, en hins vegar var það svo í upphafi, að þessir tveir menn höfðu það veigamiklum störfum að gegna. að þeir unnu þarna daglega meira og minna, og þess vegna þótti það vera óumflýjanlegt að greiða þeim þessi laun, sem má telja óeðlileg. en eru í rauninni þá miðuð við. að þarna væri aðstoðarforstjóri, eins og sakir stóðu. Ég skal ekki fara út í þá sálma hér af hverju þetta var gert, en það var talin brýn nauðsyn á að gera þetta í það sinn til þess að koma þar við ýmsum breytingum, og eftir að það hafði verið gert þá var að sjálfsögðu engin ástæða til þess að halda þeirri skipan mála áfram, þó að stjórnarn. starfaði sem slík. Þetta vil ég leiðrétta, því að það er ekki yfirskoðunarmönnum að kenna, þó að þeir geri þessa athugasemd, heldur hitt, að það hefur fallið niður í svari samgmrn., að þessum launagreiðslum hafi verið hætt, þegar að þessu var fundið af hálfu yfirskoðunarmanna.

Varðandi hina ströngu gagnrýni yfirskoðunarmanna um innheimtumál Ríkisútvarpsins, þá hef ég ekkert sérstakt við það að athuga. Það má vel vera, að innheimta þess sé ekki með nægilega traustum hætti, og það er vitanlega ekkert nema gott um það að segja, að því sé komið í betra horf, og sjálfsagt að gera það, eftir því sem ástæður og atvik standa til, ekki sízt eftir að yfirskoðunarmenn hafa lagt eins ríka áherzlu á þetta og raun ber hér vitni um.

Að öðru leyti, eins og ég segi, hef ég ekki hið minnsta við athugasemdir yfirskoðunarmanna að athuga. Ég tel, að þeir hafi reynt að kanna ríkisreikninginn vel og rækilega og benda á þær veilur, sem mér í flestum tilfellum eru ákaflega ljósar, en sem er ekki mjög þægilegt við að fást í mörgum tilfellum, eins og ég gat um áðan varðandi erfiðleikana við innheimtu, sem hafa farið vaxandi að sjálfsögðu bæði af því að innheimtuféð fer stórhækkandi og því, að þegar á árinu 1967 var farið að þrengja mjög að ýmsum aðilum, ekki sízt atvinnurekstri, um greiðslur.

Ég tek undir það með yfirskoðunarmönnum, að það beri hina brýnustu nauðsyn til þess, að þessu sé haldið í eðlilegu horfi, og á það mun verða lögð hin mesta áherzla. Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, nema frekara tilefni gefist til, að gera ríkisreikninginn að umtalsefni, en legg til, að honum verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vildi jafnframt leyfa mér að fara þess á leit við hv. n., enda þótt nú sé orðið áliðið þings, þegar reikningurinn er tilbúinn, að hún leitist við eftir föngum að afgreiða málið frá sér, þannig að reikningurinn gæti orðið endanlega afgreiddur nú á yfirstandandi þingi.