22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við ríkisreikninginn vil ég, eins og ég hef gert s.l. ár, gefa skýringu á þeim athugasemdum, sem yfirskoðunarmenn hafa gert við hann og ræða um hann nokkuð frekar. Ég vil undirstrika það, sem ég hef gert hér áður, að við höfum ekki litið á verkefni okkar sem endurskoðenda þannig, að um pólitíska endurskoðun væri að ræða, heldur fyrst og fremst frá sjónarmiði reikningsins og þeirra hagsmuna, sem þingið vildi, að við gættum þar. Þeirri reglu höfum við einnig fylgt við endurskoðunina núna, og þær athugasemdir, sem við gerum, eru byggðar á þessu, en ekki á öðrum sjónarmiðum. Ég vil taka það fram, að við reikninginn eru nú fleiri athugasemdir en verið hefur og tvær þeirra höfum við afgreitt á annan hátt en venja hefur verið, þar sem við vísum þeim til afgreiðslu Alþ. sérstaklega, og er það af því, að við teljum, að þær skeri alveg úr um öll þau atriði, sem eru til meðferðar í ríkisreikningnum. Þær eigi sér ekki hliðstæðu, og Alþ. verði að gera sér grein fyrir því, hvort það vill við það una eða ekki.

Um þau atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni hér við þessa umr., þá er það í fyrsta lagi það, sem hæstv. fjmrh. vék hér að áðan um innheimtu hjá innheimtumönnum. Hún er hér í athugasemdum okkar gerð upp með sama hætti og verið hefur undanfarandi ár, því að það er tekin niðurstöðutala af innheimtuskýrslu þeirri, sem fylgir hér með og prentuð er í ríkisreikningnum. Hins vegar kemur þetta nokkuð öðru vísi út á eignayfirlitinu, m.a. vegna þeirra breytinga, sem verið er að gera á formi reikningsins. Það er ljóst á því, sem hér er tekið fram, að þetta færist á þann hátt að innheimta gengur yfirleitt verr en áður hefur verið, og hefur á útistandandi ári hækkað um 121 millj. kr. Hér má geta þess, að hér er um hina almennu þróun í landinu að ræða að nokkru leyti, þar sem innheimta mun yfirleitt ganga verr nú en verið hefur undanfarin ár, og þetta kemur greinilega fram hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Hins vegar má kannske með rökum segja það, að þetta sé ekki mjög há innheimtuprósenta, en hún er nú 7.5%, en var 1965 3.75%, eða hefur tvöfaldazt á þessu tveggja ára tímabili. Ef á það er litið, þá er hér um allmikla breytingu að ræða.

Mjög er það misjafnt hvað þetta hefur aukizt hjá hinum einstöku embættismönnum á s.l. ári, en þar skáru sig úr bæjarfógetinn á Seyðisfirði, sýslumaðurinn á Hólmavík, sýslumaðurinn í S.-Múlasýslu og sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu. Hjá þessum fjórum sýslumönnum hafði innheimtan sérstaklega versnað frá því, sem áður hafði verið. En í sambandi við þessa innheimtu og það, sem ég tel þó ennþá meira þess vert, að eftír sé litið, er hvað skilin frá innheimtumönnunum ganga seint. Það hafa verið hér tilgreindir í athugasemdum yfirskoðunarmanna fjórir innheimtumenn, sem höfðu ekki skilað nema milli 30–40% af ársinnheimtunni, þegar reikningnum var lokað. Þessir sýslumenn voru sýslumaðurinn í Strandasýslu, sem átti eftir að skila 70,8%, sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu. sem átti eftir að skila 68,9%, sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu 67,7% og sýslumaðurinn í Dalasýslu 61,2%. Í athugasemd þeirri, sem við gerðum um þetta, þá spurðumst við fyrir um það, hvenær á árinu 1968 fullnaðarskil hefðu farið fram hjá þessum sýslumönnum og hvort þeim væri öllum lokið. Í svörum við þessum athugasemdum kemur þetta í ljós. Sýslumaðurinn í Dalasýslu hafði gert upp að fullu í febrúar 1968, sýslumaðurinn í Strandasýslu hafði greitt upp að fullu í maí 1968, sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu á ógreitt 45.000 kr. og sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu átti eftir að greiða um 2 millj. kr. í okt. 1968, eða 13,3% af því, sem hann taldi sig vera búinn að innheimta í árslok 1967. Þær skýringar eru gefnar á þessum seinagangi, sem er mjög óeðlilegur og gæti verið hættulegur, að þessir innheimtumenn ríkissjóðs liggi með ógreidda reikninga, m.a. fyrir refaveiðar og vegna endurbóta á embættisbústöðunum, sem rn. hafa ekki viljað taka frá sem greiðslu af þeirra hendi og af því stafi þessi vanskíl. Ríkisendurskoðunin og rn. hafa fullyrt það, að þeir hafi endurskoðað hjá þessum mönnum það oft, að ekki geti verið um neina hættu að ræða, en á það má benda, að hér eru mjög alvarlegir hlutir á ferðinni, ef það tekur 10 mánuði að skila innheimtum, sem eiga að vera greiddar á áramótum.

Ég vil undirstrika það, að hér er um atriði að ræða, sem ekki geta gengið eins og verið hefur og farið versnandi, án þess að til sérstakrar athugunar verði gripið. Það er með öllu óhugsandi, að slíkur seinagangur á skilum embættismanna geti verið forsvaranlegur, eins og það hefur verið nú síðustu árin, og ég tek undir það, sem ráðh. sagði um þetta. Hér verður að verða breyting á, því að hér gæti verið um alvarlega hluti að ræða, þó að það sé vonandi, að svo sé ekki, en þá er a.m.k. um algerlega óeðlilega hluti að ræða.

Ég vil líka í sambandi við þessi skuldamál ríkissjóðs benda á það, að það er víðar, sem brestur nokkuð á um innheimtu af hendi ríkisins, en hjá svokölluðum innheimtumönnum þeirra. Það er hér á eignareikningi ríkisins færð innistæða hjá sendiráðunum, sem er um 12 millj. kr. Þessi innistæða hefur færzt mjög í aukana á s.l. ári, og ekki hefur verið gefin nægileg skýring á því hvers vegna þessi innistæða er svo mikil hjá sendiráðunum og hvers vegna í raun og veru þarf að vera innistæða ríkissjóðs hjá sendiráðum erlendis, nema í sérstökum tilfellum, eins og vitnað er til í svari ráðh., þar sem talað er um, að keypt hafi verið hús fyrir sendiráðið í Brüssel á því ári, sem reikningurinn nær yfir. Hins vegar er hér um allháar upphæðir að ræða hjá hinum einstöku sendiráðum, og er ekki fullkomin skýring á því, að svo þurfi að vera, og hafa yfirskoðunarmenn rætt það við ríkisbókhaldið og rn., að nauðsyn beri til að herða á innheimtu hjá þeim og koma í veg fyrir þessa skuldasöfnun, sem þarna á sér stað. Hæsta fjárhæðin, sem ríkið á inni hjá sendiráðum, er í Brüssel, en það eru 5,6 millj. Þar næst er svo Kaupmannahöfn með 1,8 millj., Washington með 1,4, Moskva með 1,6 millj. og önnur sendiráð með lægri fjárhæðir. Hér eru mál, sem einnig þarf að taka til athugunar og herða á innheimtu frá þessum aðilum.

Þá er hér á ríkisreikningnum tala, sem er lán til ýmissa að upphæð 84 millj. kr. Hér er um að ræða samansafn af alls konar greiðslum, sem ríkið hefur innt af hendi, m.a. eru það margs konar fyrirgreiðslur, sem ríkissjóður hefur annazt fyrir atvinnustofnanir í sambandi við erfiðleika þeirra og fleira, sem ég man nú ekki fullkomin skil á, en ýmislegt í þessu eru ógerðir hlutir, sem rn. hefur talið sér til eigna í sambandi við alls konar fyrirgreiðslur. Enn fremur er hér um að ræða einhver lán til einstaklinga, sem ekki hafa verið innheimt þó nokkuð langt sé um liðið. Þá eru hér rúmar tvær millj. kr., sem eru líka lán til ýmissa, sem eru m.a. að einhverju leyti sama eðlis og þau, sem ég áður greindi, vegna þess að ekki hafi verið upp gert og alls konar fyrirgreiðslur, t.d. er þar nokkuð um að ræða lán til Íslendinga, sem hafa verið á ferðum erlendis, bæði sjúklinga, sem hafa notið þar læknishjálpar og þrotið fé til þess að ganga frá sínum málum og rn. hafa greitt úr og jafnvel til annarra ferðamanna, sem notið hafa fyrirgreiðslu af hálfu ríkísins og hefur ekki verið innheimt, þegar reikningnum var lokað. Sumt af þessu er þess eðlis, að það getur nú aðeins hafa verið spursmál um það, að þetta hafi fallið svo seint til á árinu, að innheimtu varð ekki lokið þess vegna, en annað er af því, að ekki hefur verið nógu fylgt eftir af hálfu rn., að innheimta þessa fjármuni, og er það mikil nauðsyn að færa þær færslur, sem færa á og innheimta þá fjármuni sem innheimta á.

Eins og kemur fram í svari rn. er nú stefnt að því að koma þessum málum í betra horf, enda ber hina mestu nauðsyn til þess. Þá höfum við yfirskoðunarmenn gert athugasemd í sambandi við greiðslur til n. Það hefur komið fram, að í flestum tilfellum eiga þær greiðslur sér stað með þeim hætti, að nm. eru tilgreindir með nöfnum og launagreiðslur til þeirra. Hins vegar er það svo einnig, að það er greitt einum manni, sem hefur haft einhvers konar framkvæmdastjórn fyrir n., án þess að það væri tilgreint, hvaða aðrir aðilar hafi notið þessarar greiðslu. Við spurðum um það í þessu sambandi, hvort t.d. væri tryggt, að launagreiðslur sem þessar væru taldar fram til skatts. Rn. telur, að svo muni vera og einstök rn. annist það, en hins vegar er það óeðlilegt að hafa þessa tvískiptu færslu um meðferð þessara mála. Eðlilegast er, að það sé þannig, eins og í flestum tilfellum, að það séu greind nöfn þeirra manna, er greiðsluna hljóta og fjárhæðin, því að þá orkar það ekki tvímælis, að um mistök geti ekki verið að ræða.

Þá höfum við gert athugasemd við reikning Ríkisútvarpsins fyrir s.l. ár. Í fyrsta lagi er um það að ræða. að þegar borinn var saman reikningur Ríkisútvarpsins, sem stofnunin lét af hendi, og reikningur sá, sem prentaður er hér með ríkisreikningnum, þá bar þeim ekki saman. Mismunurinn var 1.5 millj. kr., sem ríkisreikningurinn, eins og hann liggur hér fyrir, telur höfuðstól útvarpsins vera hærri en reikningur útvarpsins sjálfs greinir. Þegar farið var að skoða þetta, kom það í ljós, að stofnunin hafði afskrifað óinnheimt gömul afnotagjöld um 1.5 millj. Það verður að teljast eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að hún hafi ekki leitað samráðs, hvorki við það rn., sem hún tilheyrir, menntmrn., né ríkisendurskoðunina eða ríkisbókhaldið. Af þessum ástæðum er þessi mismunur, sem er alveg óhæfur, því að það er ómögulegt, að á ríkisreikningi séu taldar til eigna þær eignir, sem stofnanirnar sjálfar eru búnar að afskrifa og telja sig ekki eiga lengur. Hins vegar er það skoðun okkar, sem þessa athugasemd gerðum, að ekki væri það óeðlilegt, þó að eitthvað af þessum afnotagjöldum væri afskrifað, þar sem ljóst er, að það mundi vera óinnheimtanlegt. Það, sem við erum ekki sáttir við Ríkisútvarpið um, er þetta, því að auðvitað verður það að vera samhljóða á milli ríkisreiknings og reiknings útvarpsins, að af álögðum afnotagjöldum árið 1967, sem eru 34.917.304 kr., hefur útvarpið afskrifað á sama ári og gjöldin eru á lögð 11.9% eða 4.138.826 kr. Þetta finnst okkur brjóta algerlega í bága við allar þær reglur, sem ríkisreikningurinn er byggður á, og við fáum ekki neins staðar hliðstæðu, að álögð gjöld séu afskrifuð á sama ári og þau eru á lögð, nema fyrir liggi sannanir fyrir því, að þau hafi verið ranglega á lögð og þess vegna séu þau afskrifuð. En þá verður að gera grein fyrir því með hvaða hætti þau hafa verið ranglega á lögð og af hverju sé verið að fella gjöldin niður.

Nú hefur Ríkisútvarpið svarað því til, að hér sé ekki ætlazt til þess, þó að svo sé með farið, að þessi gjöld eigi ekki að innheimta síðar, ef það tækist. En þessi meðferð á málinu hefur veigamikil áhrif á rekstur Ríkisútvarpsins. Hljóðvarpsdeildin sýnir með þessum hætti, að það er halli á rekstri hljóðvarpsins um 935 þús. 830 kr. árið 1967, en þetta er gert með þeim hætti, að af álögðum afnotagjöldum þetta umrædda ár eru afskrifaðar 4.138.826 kr. Ef þessi afskrift hefði ekki verið gerð af afnotagjöldum útvarpsins sama árið og þau eru á lögð, hefði tekjuafgangur þessarar deildar verið 3.102.995 kr. Ég vil benda á það, að þetta hefur verið notað sem áróður fyrir rekstur þessarar stofnunar. T.d. er ég sannfærður um, að þegar stofnunin fór fram á það við menntmrn., að hún fengi að hækka afnotagjöldin nú, hefur hún lagt til grundvallar reikninginn, sem sýndi tæprar millj. kr. rekstrarhalla. Hins vegar hafi þeir ekki verið að skýra það, að þeir eru þá búnir að leggja til hliðar afnotagjöld upp á 4 millj., sem þeir að sjálfsögðu vonast til að innheimta síðar. Ég held því líka fram, að með þessum hætti verði innheimtan slappari en að öðrum kosti hefði verið, ef þetta væri ekki gert svona, og það verði ekki eins fylgt eftir innheimtunni, þegar búið er með afskrift með einföldu pennastriki prósentvís að leggja til hliðar 12% af öllum álögðum afnotagjöldum hljóðvarpsins á sama ári og þau eru á lögð.

Ef við höldum svo áfram með þennan rekstur og komum að sjónvarpsdeildinni, eru uppi nákvæmlega sömu vinnubrögð. Þar eru gjöld þessarar deildar Ríkisútvarpsins meðhöndluð á sama hátt og hljóðvarpsins, þau eru afskrifuð í heild um tæp 12%, eða um 6 millj. 581 þús. 840 kr. Með þessum hætti hefur útvarpið fyrir báðar sínar deildir og með eldri gjöldum afskrifað á einu og sama árinu 12 millj. 220 þús. kr. Ef þetta er eðlilegur reikningsmáti og æskilegur til uppsetningar fyrir ríkisstofnun, þá verð ég að játa, að ég skil ekki fullkomlega, hvernig á að meðhöndla og umgangast verulega fjármuni. Hér er verið að skapa alvarlegt los um fjármál þessarar ríkisstofnunar og gefa þeim mönnum, sem þar ráða ríkjum og með fara, mikil tækifæri til þess að hagræða hlutunum. Ég vil fá úr því skorið hér á hv. Alþ., hvort Alþ. viðurkennir þessa uppsetningu á reikningnum eða ekki. Ef það telur hana rétta, þá er óþarfi að vera að breyta ríkisreikningnum sjálfum á þá leið að festa þetta, eins og er lagt til með lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, og verður þá að athuga það síðar.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, höfum við endurskoðendur ríkisreikningsins lagt til, að Alþ. fjallaði sérstaklega um þennan þátt. Það er enginn vafi á því, að tilgangurinn með því að setja reikninginn svona upp er sá að sýna rekstur útvarpsins og sjónvarpsins verri en raun er á. T.d. hefði hagnaðurinn af sjónvarpinu orðið 12.645.000 kr. á s.l. ári, 1967, ef þessi meðhöndlun á reikningnum hefði ekki verið viðhöfð og reikningurinn hefði verið settur upp eins og venja er til um reikninga. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta dregur úr innheimtunni, og tilgangurinn með þessu hlýtur að vera sá að fá afnotagjöldin hækkuð. Þetta hlýtur að vera sett upp í þeim tilgangi að eiga auðveldara með að hækka afnotagjöldin og fá sér þannig aukið rekstursfé. Þetta er ekki gert í samráði við rn., ríkisbókhald eða ríkisendurskoðun, það hefur komið fram í svörum stofnunarinnar, og þess vegna legg ég mikla áherzlu á það, að Alþ. sjálft segi álit sitt um þetta mál.

Í sambandi við Skipaútgerð ríkisins er málið annars eðlis, en ástæðan til þess, að við sendum það sérstaklega til Alþ. er sú, að það brýtur í bága við allt launakerfi ríkisins. Það orkar ekki tvímælis, að það hefur verið tekin ákvörðun um þetta og sú deila, sem að vísu er smáatriði um greiðslu á þessu, þá vil ég upplýsa það, að við óskuðum eftir því í vetur hjá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins að fá þeirra launaskrá yfir þeirra starfsfólk. Og á þeirri skrá voru aðstoðarforstjórarnir ekki. Í þeim reikningum, sem við fengum, varð ekki séð, hvar laun þeirra væru færð, og síðar, þegar við vorum að úrskurða aths., vorum við upplýstir um það í ríkisbókhaldinu, að upphaflega hefðu þeir tekið sína greiðslu þar, en síðar hefði Skipaútgerðin endurgreitt það, og er það það rétta í málinu. En það, sem upplýsist við þetta er það, samkv. svari því, sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins gefur við aths. yfirskoðunarmanna, að þessir aðstoðarforstjórar hafa á árinu 1967 setið 39 fundi. Þeir hafa ekki setið þar að störfum, eins og venja er með starfsfólk, og fyrir þessa 39 fundi fengu þeir greidd 139 þús. í laun og 10 þús. í bílastyrk. Það er ekkert sambærilegt dæmi í ríkiskerfinu, að því er við höfum séð, sem jafnast á við þetta. Þessar greiðslur eru svo yfir máta að okkar dómi, að það er ekki hægt annað en vekja athygli á því. Það er líka rétt, að það kom ekki fram í svari rn., að það væri hætt að inna þessar greiðslur af höndum eða þessir menn væru hættir að starfa eins og þeir hefðu gert, en hæstv. fjmrh. upplýsti það núna. Ástæða til þess, að við vekjum athygli Alþ. á þessu er einmitt þetta, að þetta brýtur í bága við allt launakerfi ríkisins og er með öllu óeðlilegt, að fyrir 39 fundi þágu menn um 150 þús. í laun. Þetta er hins vegar ekki þess eðlis, eins og hitt atriðið, sem við óskum eftir, að ríkið meðhöndli, því að þar er það uppsetningin á ríkisreikningnum eða á reikningi útvarpsins, sem við deilum um, og viljum ekki viðurkenna, að sé rétt að farið.

Eins og fram kemur í aths. okkar, komu fram frá ríkisendurskoðuninni veigamiklar aths. við embætti húsameistara ríkisins, miklu meira en áður hefur verið við slík embætti. Í svari því, sem dómsmm. gefur við þeim fsp., sem við gerðum þar að lútandi, kemur það í ljós. að rn. er ríkisendurskoðuninni og yfirskoðunarmönnum sammála um það, að hér þurfi aðgerða við, því að hér sé komið út af þeirri braut, sem ríkisstofnun geti leyft sér. Það, sem er einkennandi við þær aths., sem gerðar hafa verið þar um, er það algera stjórnleysi, sem virðist vera hjá þessari ríkisstofnun. T.d. kemur það í ljós, að aukavinnugreiðslur eru þar bæði með sérkennilegum hætti og takmarkalitlar, og það t.d. kemur fram í þeim aths., að gjaldkeri stofnunarinnar hefur greitt sjálfum sér um 120 þús. í aukavinnu á árinu 1967, og forstjóri stofnunarinnar viðurkennir ekki, að hann hafi samþykkt þær aukagreiðslur. Enn fremur kemur í ljós, að skrifstofustjórinn hafði verið heilsuveill og fékk fri frá störfum, þannig að hann þurfti ekki að inna af höndum fullkomna dagvinnu, en hélt þó launum. Hins vegar kemur það líka í ljós, að hann hefur haft þó nokkrar umframgreiðslur vegna aukavinnu þrátt fyrir þetta. Hér virðist okkur vera gengið algerlega á snið við það. sem á að vera í slíkri stofnun, og það skal tekið fram, að ríkisendurskoðunin hefur nú úrskurðað þetta og lagt til, að það verði endurgreitt.

Þá er ferðakostnaður alveg gífurlegur hjá þessari stofnun, og flestir menn þar hafa bílastyrki og t.d. hafði skrifstofustjórinn um 40 þús. í bílastyrk árið 1967, en hann notaði leigubíla, sem stofnunin varð að greiða sérstaklega fyrir um 30 þús. Ýmsir embættismenn við þessa stofnun hafa bíl allt árið eins og t.d. húsameistari sjálfur, en hafa samt nokkra greiðslu vegna keyrslu á leigubílum. Það skal tekið fram í sambandi við þetta embætti, að umboðsleg endurskoðun hefur nú úrskurðað þetta og krafizt endurgreiðslu á ýmsum liðum, sem hún hefur ekki viðurkennt og talið, að embættið hafi farið út fyrir sitt starfssvið. En það er enginn vafi á því, að hér er um mikið stjórnleysi að ræða, og fullkomin ástæða til að hafa þarna sterkt eftirlit, enda mun það nú vera gert.

Ég vil svo segja það, að vegna breytinga á ríkisbókhaldinu er þessi reikningur með nokkrum öðrum hætti en verið hefur, og kennir meira loss á ýmsu í sambandi við færslu hans en áður hefur verið, sem m.a. stafar af því, að þær sveigja hann inn á það, að ríkisreikningurinn fyrir árið 1968 geti þá þegar verið með þeim svip, sem l. um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárl. ætlast til. M.a. vegna þess eru færðar hér á sérstakan reikning eða sérstakt yfirlit utan við rekstrarreikning ýmsar greiðslur, en fyrir því er gerð grein í aths. hér að aftan eða þeim, sem fylgja ríkisreikningnum. Það hefur verið svo með okkur, sem höfum unnið að endurskoðun ríkisreikningsins, til þess kosnir af Alþ., að eftir því, sem við höfum starfað meira að þessu, hefur það færzt meira í það að hafa samstarf við umboðslegu endurskoðunina og fá hennar umsagnir og fá hennar aths. til meðferðar. Þetta samstarf hefur gengið vel og mun færast í aukana, því að það er í alla staði hagkvæmt, og hafa nokkrar umr. farið fram um það milli þessara aðila, hvernig að því mætti standa.

Ég vil svo að lokum geta þess, að hér í ríkisreikningnum er birt skrá yfir þá reikninga. sem ríkisendurskoðunin hefur ekki lokið við að endurskoða ennþá. Það hafa stundum verið deilur um það hér á hv. Alþ., hvort réttmætt væri, að kjörnir endurskoðendur ríkisreikningsins tækju hann til endurskoðunar fyrr en þessu væri lokið. Það getur orkað tvímælis, en reynt hefur verið að stefna að því, að ekki væri ólokið nema síðasta ári eða því ári, sem um er fjallað, þó að það hafi ekki tekizt ennþá, en verulega hefur áunnizt með þetta. því að það er mjög óeðlilegt og óheppilegt, að yfirskoðun og afgreiðsla ríkisreiknings á Alþ. dragist mjög ára á milli. Af þeim ástæðum höfum við farið í gegnum þessa endurskoðun á öllum undirreikningnum, þó að ríkisendurskoðuninni hafi ekki verið lokið.

Hins vegar er mér fullkomlega ljóst, að þessu eru sem öðru takmörk sett og verður að gæta þess, að ekki dragist mjög að endurskoða og hefur ríkisendurskoðunin borið því við, hvað fátt starfsfólk væri þar að verki og hana skorti æfða menn til þessara verka. En eins og ég tók fram verður reynt að hafa samstöðu um það að ljúka þessu, svo að ekki verði óendurskoðað nema það ár, sem um er fjallað, og það verði þá tekið til meðferðar næsta ár á eftir, ef upp kemur eitthvað, sem nauðsyn ber að taka til endurskoðunar.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða þetta mál meira að sinni, enda hef ég gert hér grein fyrir þeim þáttum í endurskoðuninni, sem ég tel að mestu máli skipti og tel, að hv. Alþ. verði að taka til meðferðar við afgreiðslu ríkisreikningsins, eins og t.d. uppsetningu á reikningum Ríkisútvarpsins.