22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 3. þm. Vesturl., sem er einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings hefur hér gert grein fyrir helztu aths. yfirskoðunarmanna, og hef ég ekkert við þau ummæli hans að athuga. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi til frekari skýringar láta koma hér fram.

Ég vildi þá fyrst víkja að innheimtu ríkistekna. Það gefur auga leið og held ég, að geti ekki dulizt neinum hv. þm., að það er að sjálfsögðu hið mesta áhugamál fjmrn. á hverjum tíma að innheimta ríkistekna sé sem greiðust og að sýslumennirnir geri sem skjótust skil á innheimtufé sínu. Nú vil ég taka það fram, að þetta er ekki þannig, að innheimtumenn liggi lengi með innheimtuféð. Það fá þeir ekki að gera, og það hafa verið settar mjög strangar reglur um það, að innheimtumenn geti ekki legið með fé heima í fórum sinum um lengri tíma. Það á að gera skil á því mjög fljótt og með ákveðnu millibili. Meginvandinn er að innheimta hin álögðu ríkisgjöld, og það getur vel verið, að það megi saka rn. um það að hafa ekki gefið út strangari fyrirmæli um innheimtuaðgerðir, bæði skatta og annarra opinberra gjalda. Það hafa verið gefin eins ströng fyrirmæli og auðið hefur verið, en ég skal játa það, að það er mannlegt sjónarmið hjá innheimtumönnum, að stundum standa þeir andspænis þeim vanda að loka kannske eina fyrirtækinu á staðnum. Ég skal taka sem dæmi söluskatt, sem við höfum lagt ríka áherzlu á, að væri innheimtur jafnóðum, og það er gert hér með mikilli hörku í Reykjavík. É,g tel, að það þurfi að gerast með sömu hörku út um land, en það getur verið nokkrum erfiðleikum bundið, ef t.d. er aðeins ein verzlun á staðnum, hvort á að loka þeirri verzlun vegna vanskila á söluskatti, þannig að sýslumanni er kannske nokkur vorkunn, þó að hann reyni frekari innheimtuaðgerðir, áður en til þess kemur. Hins vegar held ég, að það sé tvímælalaust til hins mesta tjóns fyrir fyrirtæki og einstaklinga einnig að safna upp skattskuldum. Það auðveldar þeim síður en svo að leysa þann vanda. Ég get enn og aftur tekið undir með hv. 3. þm. Vesturl., að fjmrn. mun áreiðanlega ekki láta sitt eftir liggja við að reyna að hraða innheimtu þessa fjár.

Varðandi lánveitingar, sem hv. þm. kom inn á, er það svo, að jafnan koma fram ýmiss konar fyrirgreiðslur, sem ríkissjóður kemst ekki hjá að inna af hendi. Það eru bráðabirgðalán fyrst og fremst til ríkisstofnana, sem oft og tíðum geta verið þannig í þrotum, að það sé ekki hægt annað en hlaupa þar undir bagga, ef ekki á að loka viðkomandi stofnunum. Það er gert ráð fyrir því, að slík lán séu greidd fyrr eða síðar, en stundum vill þetta ganga nokkuð treglega. Ég vil taka það skýrt fram, að lán til einstaklinga eru ekki veitt, og það var fyrir nokkrum árum tekið algerlega fyrir það að veita svokölluð embættislán, sem hafa nokkuð verið veitt, og önnur slík lán til einstaklinga. Hitt er annað mál, að það hefur ekki verið talið mögulegt að ganga alveg fram hjá einstaklingum, sem eru erlendis, ekki hvað sízt þegar sjúklingar eiga hlut að máli, og neita undir öllum kringumstæðum slíkri fyrirgreiðslu, og þannig hafa safnazt fyrir upphæðir, sem í flestum tilfellum eru mjög smávægilegar.

Varðandi það, hvort hætt væri við, að undan félli að gefa upp þóknanir, sem menn fá frá hinum einstöku rn., þá held ég, að það sé engin hætta á slíku. Nú hafa verið sett á þetta ennþá þrengri mörk varðandi greiðslu til nefnda, þannig að engar slíkar greiðslur eru samþykktar, nema eftir að hafa fengið um það staðfestingu og úrskurð fjmrn., sérstakra trúnaðarmanna, sem um það fjalla nú og eiga að gæta þess, að sem mest samræmi sé í þessum greiðslum.

Varðandi Ríkisútvarpið verð ég að segja það og taka undir það með hv. 3. þm. Vesturl., að ef bókhaldi þess er þann veg fyrir komið, sem hér er talað um, þá er það að minni hyggju, eins og hans, ekki rétt uppfært bókhald, og verður þá að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess, að það verði gert, og mun ég hafa samband við ríkisendurskoðunina um það, að fyrirmæli verði gefin í þá átt.

Viðvíkjandi hinum svokölluðu varaforstjórum Skipaútgerðarinnar, sem störfuðu um skeið, en sem ég vil taka fram aftur að hafa nú hætt störfum og þar starfar stjórnarn., sem hefur þóknun sem venjuleg stjórnarn. Auðvitað má ekki leggja alveg til grundvallar þá fundi, sem þeir hafa haldið, hvort þeir hafa verið 39 eða hvað þeir hafa verið margir. Mér er vel kunnugt um það, að fyrsta árið a.m.k., sem þeir voru þarna, árið 1967, voru þeir þarna flesta daga meira og minna á meðan var verið að gera þarna ýmsar athuganir og skipulagsbreytingar.

Um embætti húsameistara ríkisins get ég tekið alveg undir það með hv. 3. þm. Vesturl., að þar hefur átt sér stað óreiða, sem er fullkomlega óviðunandi og sem ríkisendurskoðunin mun í samráði við dómsmrn. sjá um, að verði kippt í lag. Ég skal ekkert fara út í einstök atriði í því máli, en það er óhjákvæmilegt, að þar verði tekið föstum tökum á og þeim málum kippt í lag.

Að lokum vil ég svo aðeins segja það í tilefni af ummælum hv. þm. um samstarf yfirendurskoðunarmanna við umboðslegu endurskoðunina, að ég tel, að samvinna sé ákaflega æskileg, og ég hef raunar rætt um það við ríkisendurskoðanda, að hann einmitt legði sig fram um það að gefa yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings upplýsingar um allt það, sem hann teldi, að færi aflaga og heyra skoðanir þeirra í því efni, því að ég tel, að hér sé engu að leyna og það eigi í hverju tilfelli að kryfja til mergjar, ef eitthvað er að, hver sem hlut á að máli. É,g er hv. þm. sammála um það, að yfirskoðunarmenn hafa það takmarkaðan tíma, að þeir gætu með engu móti, nema þeir væru starfandi fast allt árið, fylgzt nákvæmlega með ríkiskerfinu eins og það er orðið flókið og margþætt, en hins vegar geta þeir að sjálfsögðu með nánu samstarfi við ríkisendurskoðunina fengið margvíslegar upplýsingar og ábendingar um það, hvar helzt væri veilur að finna. Ég mun fyrir mitt leyti, meðan ég hef með höndum yfirstjórn ríkisendurskoðunar, leggja áherzlu á það, að ríkisendurskoðunin hafi fulla samvinnu við yfirskoðunarmenn ríkisreiknings.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en tel, að þessar umr. hafi verið gagnlegar og skýrt það, sem hefur vakað fyrir mönnum, bæði fyrir mér og fyrir hv. yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, þannig að hv. þdm. sé ljóst, um hvað aths. snúist.