22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. flutti í hinum ýtarlegu og athyglisverðu aths. sínum allharða gagnrýni á rekstur Ríkisútvarpsins. Enda þótt fjármál Ríkisútvarpsins heyri ekki undir útvarpsráð. þar sem ég er þingkjörinn fulltrúi, tel ég rétt að segja um þetta örfá orð.

Það var svo að skilja, að hv. þm. þættu bókhaldsatriði nokkur vera óvenjuleg og óeðlileg. Um þetta er ég ekki fær að deila við hann, en vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að úr þessu þarf að fá skorið, og þetta verður að vera á þann hátt, sem eðlilegt er í ríkisfyrirtæki. Hins vegar dró hv. þm. þá ályktun af þessu, að forráðamenn útvarpsins hafi hagað reikningshaldi sínu á óeðlilegan hátt til þess að auðvelda hækkun afnotagjalda. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu eindregið. Í fyrsta lagi er mér kunnugt um, að sá útvarpsstjóri, sem nýlega hefur látið af störfum, lét sér ákaflega annt um, að afkoma Ríkisútvarpsins væri reikningslega góð, og hann gat ekki til neins hugsað, sem honum var verr við heldur en þess, ef reikningar Ríkisútvarpsins sýndu halla.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, að við ákvörðun afnotagjalda hefur, eftir því sem ég bezt veit, fyrst og fremst verið byggt á áætlunum um komandi ár, hvað tekjur útvarpsins snertir. Er ekki mjög erfitt að gera það, af því að þar er um fáa tekjuliði að ræða. Ég vil einnig taka það fram, að þær rekstraráætlanir, tekju- og gjaldaáætlanir, sem ákvarðanir um afnotagjald hafa yfirleitt verið byggðar á, hafa ávallt verið rækilega yfirfarnar af Efnahagsstofnuninni, þannig að það hefur ekki eingöngu verið mál á milli Ríkisútvarpsins og ráðh., heldur hefur hann ávallt látið prófa alla reikninga, allar áætlanir, sem útvarpið hefur lagt fram, svo að þar hafa fleiri komið að.

Ég vil leyfa mér að segja, að ég tel það mjög óverðskuldað, að einmitt núna skuli vera ráðizt á Ríkisútvarpið fyrir stefnu þess í afnotagjöldum, því að í þeirri miklu hækkunaröldu, sem gengið hefur yfir, þar sem ríkisfyrirtæki hafa ekki farið hægar en aðrir aðilar í hækkunum á þjónustu sinni, hefur Ríkisútvarpið einmitt lagt sig mjög fram um að hækka sem minnst gjöld sín. Sjónvarpsgjaldið verður óbreytt og hljóðvarpsgjaldið hækkar mjög litið. Til þess að þetta sé mögulegt, hefur orðið að gera margvíslegar ráðstafanir, sem ég reði ekki hér, en þarna hefur Ríkisútvarpið augljóslega lagt sig mjög fram um það að halda þessum gjöldum niðri á erfiðum tímum.

Hv. þm. sagði, að þessi bókhaldsstefna, að afskrifa svo og svo mikið af afnotagjöldum, hlyti að draga úr innheimtu. Við fyrstu sýn mætti ætla, að það væri nokkuð til í þessu. En mér er kunnugt um, að hjá Ríkisútvarpinu eru stóran hluta ársins svo miklir erfiðleikar með rekstrarfé, að það er engin hætta á því, að stjórnendur fjármála þar leggi sig ekki fram, eins og þeir framast geta við innheimtuna. Aðgerðir, sem kunna að vera notaðar við uppgjör á ársreikningum eftir á, hafa ekki nokkur áhrif á, að starfslið útvarpsins dragi úr innheimtustarfsemi sinni.

Ég vil vonast til þess, að í n. verði aths. um bókhaldsaðferðir athugaðar og þingið reyni að komast til botns í því, eins og hv. þm. leggur til, hvernig þetta á að vera og hvort það er óeðlilegt eða ekki. En ég vil vænta þess, að hv. þm. íhugi og endurskoði þær ályktanir, sem hann dró af málinu og ég tel, að séu ekki réttar.