22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég kom fyrst og fremst hér upp til þess að mótmæla því, að ég hafi haldið hér uppi árásum á Ríkisútvarpið. Það er mikill misskilningur. Ég lít svo á, að starf mitt sem endurskoðanda sé það, að þegar ég tel, að rangt sé að farið og það brjóti í bága við meginreglu í uppsetningu ríkisreikningsins, eigi ég að gera aths. þar við. Ég tel það með öllu óhæft t.d., að Ríkisútvarpið sjálft telji sig eiga 11/2 millj. kr. minna en ríkisreikningurinn telur það eiga. Þess háttar vinnubrögð geta ekki gengið.

Um þessa aðferð ætla ég ekki að deila. En ástæðan fyrir því, að þetta er gert, hlýtur að vera einhver. Það er alveg vonlaust, að aðili, sem setur saman reikning og fer að afskrifa tekjur sínar á árinu, sem hann leggur þær á, hafi ekki einhverja hugsun á bak við. Ég held, að hugsunin sé einmitt þessi, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., að þá skortir oft rekstrarfé og með því að sýna eins mikið útistandandi og raunverulega er verður erfiðara að afla þess fjár. Ég held líka, að það hafi ekki verið rök fyrir því að fá að hækka sjónvarpsgjaldið, þegar afgangurinn var á 13. millj., eins og hann raunverulega var 1967. Það verður að vera hægt að leiða einhver rök fyrir nauðsyninni.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil bara undirstrika það, að hér verður að fá úr skorið, hvernig með skuli fara. Þetta brýtur í bága við allar reglur ríkisreikningsins og við þá venju, sem er um álögð gjöld, að það sé hægt aðafskrifa þau sama árið og þau eru á lögð. Maður hefur í raun og veru aldrei rétt til að afskrifa þau, fyrr en það er sannað, að það sé ekki hægt að innheimta þau, og það er einhver óeðlilegur tilgangur, ef það er ekki hugsað út frá því, að reynt sé á einhvern hátt að bæta reksturinn með þessari aðferð.