22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel það ekki óeðlilegt, að endurskoðandi, sem vinnur sitt starf af árvekni,velti fyrir sér, hvort það sé einhver ákveðin hugsun eða tilgangur á bak við það, sem honum finnst athugavert. Ég vil vænta þess, að áður en þetta mál verður fullafgreitt, verði kallað í þá menn, sem hlut eiga að máli, og þeir spurðir. Ég vil minna á, að hér er um að ræða afnotagjöld. Hjá hljóðvarpinu eru greiðendur þeirra tæplega 50 þús., og ég hygg, að reynsla margra undanfarinna ára hafi sýnt, hve langt er hægt að komast á hverju ári í að ná þessu inn. Hér er um það að ræða, að þeir, sem stjórna þessum málum, eru farnir að reikna jafnóðum með því að ná aldrei nema vissri prósentu og reyna að forðast að blekkja sjálfa sig og aðra með því að reikna með tölum, sem þeir vita af reynslu, að verða ekki að reiðufé.

Þegar hv. þm. bendir á, að það sé munur upp á 11/2 millj. á því, hvaða eignir útvarpið telji sig eiga og hvaða eignir ríkisreikningurinn telji útvarpið eiga, þá skilst mér, að eignirnar, sem um er að ræða, séu óinnheimt afnotagjöld. Hvað er það mikil eign? Hvað af því er raunveruleg eign? Ég hygg, að þessi meðferð á tölum stafi sjálfsagt af því, að þetta er sannarlega engin fasteign.