29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1967. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Eins og fram kemur á þskj. 547 leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. Hv. 4. þm. Austf. með fyrirvara, en hv. 1. landsk. þm. var fjarstaddur afgreiðslu málsins. Minni hl. hefur gefið út sérnál. á þskj. 548. Þegar n. athugaði frv. þá, eins og fram kemur í nál., var það tölulega borið saman við ríkisreikninginn af skrifstofu Alþ., og var frv. í samræmi við hann.

Þingkjörnir endurskoðendur gera við ríkisreikninginn 21 aths. og eru með ríkisreikningnum birt svör ráðh. og síðan till. yfirskoðunarmanna, en þeir vísa tveim til aðgerða Alþ., þ.e.a.s. 9. og 10. Við 1. umr. málsins upplýsti hæstv. fjmrh. varðandi aths. vegna Skipaútgerðar ríkisins, að þegar væri búið að koma því í lag, sem þar var að fundið, varðandi 9. aths. lægi það ekki fyrir. Fjhn. fékk til viðræðna Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóra í fjmrn. og ræddi sérstaklega aths. þingkjörnu endurskoðendanna, sem þeir höfðu vísað til aðgerða Alþ., og gaf hann upplýsingar varðandi þau tvö atriði, sem þar koma fram. Fjhn. taldi ekki ástæðu til að gera aths. við 10. lið aths. yfirendurskoðunarmanna, en undirstrikar aths. þeirra varðandi 9. lið, þar sem um er að ræða reikningsgerð Ríkisútvarpsins og eins og segir í nál. leggur áherzlu á það, að ríkisendurskoðunin sjái svo um, að eftir þeim verði farið.

Öðrum aths. hefur ekki verið vísað til aðgerða Alþ., og hefur því n. ekki séð ástæðu til þess að gera neinar aths. þar um. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um frv., en eins og fram kemur á nál. 547, leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþ.