29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér er ríkisreikningurinn fyrir 1967 til meðferðar. Eins og venjulegt er, hafa yfirskoðunarmenn þeir, sem Alþ. kýs, gert aths. við hann. Ein af þeim og 2. í röðinni er um það, að verulegar fjárhæðir séu í vörzlum innheimtumanna ríkissjóðs í árslok af því fé, sem þeir hafa innheimt á árinu. Já, víst eru það verulegar fjárhæðir. Í árslok 1967 voru rösklega 200 millj. kr. í vörzlum innheimtumanna af því fé, sem þeir höfðu innheimt fyrir ríkið á árinu, en þeir voru ekki búnir að skila þessu til ríkissjóðs. Það er næsta furðulegt, að slíkt skuli gerast, og ég veit ekki, hverju þetta sætir. Vitanlega ættu þessir menn að skila jafnóðum af sér til ríkissjóðs innheimtufé. Það mundi ekki þykja góð fjármunameðferð hjá einkafyrirtæki, ef það léti rukkara, sem það sendi út, geyma geysiháar upphæðir í vösum sínum mánuðum og jafnvel missirum saman, án þess að skila þessu til þeirra, sem eiga þetta fé. En þetta er það, sem hefur verið að gerast á ríkisbúinu samkv. því, sem hér er frá skýrt.

Yfirskoðunarmenn segja í þessari aths. m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það hlýtur samkv. eðli málsins að verða svo, að nokkur fjárhæð sé í þeirri vörzlu, þ.e. hjá innheimtumönnum, vegna innheimtu síðustu daga ársins, þar sem ríkisféhirðir lokar sjóði 31. desember.“

Ég er ekki alveg sammála yfirskoðunarmönnum um þetta. Þeir þurfa ekki að senda innsiglað peningabréf til Reykjavíkur. Þetta tíðkaðist á öldinni, sem leið. Þá urðu menn að senda peninga þannig með póstunum, sem gengu þá oft ekki nema einu sinni í mánuði, eða fá sérstaka sendimenn til þess að flytja slík verðmæti milli byggðarlaga. En nú er öld önnur. Nú eru bankar, bankaútibú eða sparisjóðir að ég hygg á öllum stöðum, þar sem innheimtumenn ríkisins eiga heima. Vitanlega á ríkissjóður að hafa innlánsreikninga í þessum stofnunum, bönkum og sparisjóðum, og þannig ætti hann að láta innheimtumenn borga jafnóðum inn í þá reikninga, það sem þeir innheimta af ríkistekjum. Þá þarf eiginlega ekkert að vera í þeirra vörzlu. Þeir gætu borgað inn á gamlársdag, síðasta degi ársins það, sem þá væri hjá þeim og aðra daga gætu þeir gert það einnig, ef safnaðist fé hjá þeim, þá gætu þeir farið með það og lagt það inn í þessa ríkisreikninga í bönkum eða sparisjóðum. Vitanlega ætti að taka upp þennan hátt, og ég er hissa á, að það skuli ekki vera búið að gera það fyrir löngu. Þá gæti ríkissjóður fengið þetta fé til ráðstöfunar tafarlaust, enda veitir honum víst ekki af því oft og einatt. Við leggjum áherzlu á það í minni hl. fjhn., að þessi óreiða, sem hér er, verði upprætt strax og komið eðlilegri skipan á þessi mál.

Það eru nokkrar fleiri aths., sem yfirskoðunarmenn gera við reikninginn, en ég sé ekki ástæðu til að nefna þær sérstaklega utan eitt, sem þarna kemur fram. Það er það, að enn á eftir að endurskoða marga reikninga, reikninga margra stofnana og embætta, sem ríkisreikningurinn byggist á. Ég held, að það séu um 20 stofnanir og embætti, sem þarna eru talin á bls. 299. Þarna er um að ræða reikninga frá 1967, og einnig frá fyrri árum. Hér er t.d. talið embættiskostnaður tollstjóra 1966 og 1967, tollgæzlan í Reykjavík 1966 og 1967, hæstiréttur sömu ár, Vegagerð ríkisins einnig þessi tvö ár, bændaskólinn og búið á Hvanneyri sömuleiðis, bændaskólinn og búið á Hólum 1965–1967 og rannsóknastofnanir atvinnuveganna 1965–1967 og atvinnudeild háskólans fyrir 1964. Ég tel, að það sé ekki tímabært að samþykkja þennan reikning nú á Alþ. meðan endurskoðun hans er ekki lokið. Ég hef ávallt undanfarin ár gert aths. við þetta og haldið því fram, að Alþ. eigi ekki að samþykkja ríkisreikning, fyrr en endurskoðun hans er að fullu lokið, og þess vegna förum við fram á það í minni hl. fjhn., að hæstv. forseti taki nú þetta mál út af dagskrá, og það verði ekki tekið fyrir aftur til endanlegrar afgreiðslu, fyrr en fyrir liggja upplýsingar um það, að endurskoðun þeirra reikninga, sem ríkisreikningurinn er byggður á, sé að fullu lokið. Það getur vel verið, að það takist ekki að ljúka þessu verki, meðan þetta þing er að störfum, en það gerir ekki svo mikið til. Væntanlega yrði þessu lokið, þegar Alþ. kemur saman á næsta hausti, og þá er hægt að taka málið upp aftur, ef þá liggur fyrir, að þessu sé lokið, og afgreiða málið.

Það er sem sagt till. okkar, herra forseti, að meðferð málsins verði nú frestað og það tekið út af dagskrá.