29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. segir, að það sé ekkert nýtt, að endurskoðun ríkisreikningsins sé ekki lokið, þegar hann er lagður fyrir Alþ. til samþykktar. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Það er alveg rétt. Ég hef gert athugasemdir um þetta á hverju þ., þegar ríkisreikningur hefur legið fyrir og flutt till. um það, eins og nú, að meðferð málsins yrði frestað, þar til endurskoðuninni yrði lokið. Hv. ráðh. segir, að það séu ekki nógu margir menn við endurskoðun hjá ríkisendurskoðuninni. Ég vil benda honum á það, og ég held að hann hljóti að vera mér sammála um það, að það sparar ekkert mannahald, að draga endurskoðunina á langinn, ef meiningin er, eins og ég hygg að sé, að allir reikningar séu þó endurskoðaðir um síðir. Hann segir, að það sé ekki sérstök ástæða nú til að gera athugasemdir um þetta, því að þessu hafi þokað til réttrar áttar að undanförnu, en það eru samt margir reikningar óendurskoðaðir, og þess vegna er full ástæða til að gera þessa athugasemd, nú eins og áður.

Þá eru það 200 milljónirnar, sem voru hjá innheimtumönnum í lok ársins. Ljótt er ef satt væri, segir hæstv. ráðh. Hann bar þó ekki brigður á, að athugasemdin hjá yfirskoðunarmönnunum væri rétt, en hann var með ýmsar skýringar og það er nú ýmislegt við þær að athuga. Hann nefnir í fyrsta lagi það, að innheimtumennirnir, þ.e.a.s. sýslumennirnir, hafi ýmsar útgreiðslur fyrir ríkið og þetta hafi verið áætlað um 35 millj. um áramótin í fyrra. Ef það er svo, sem mun vera, að sýslumenn annist útborganir fyrir ríkissjóð, þá eiga þeir vitanlega ekki að borga annað en það, sem þeim er falið af þeirra yfirboðurum að borga út af ríkisfé. Þeir hljóta að fá kvittanir fyrir öllu, sem þeir greiða, og þá geta þeir sent þær jafnharðan til fjmrn. eða ríkisféhirðis ásamt peningunum, og þá er þetta bara hluti af því, sem þeir hafa innheimt. Þá á líka að taka það sem fullgilda greiðslu frá þeim, ef þarna koma kvittanir fyrir greiðslum, sem þeim hefur verið falið að inna af höndum. Svo þetta er engin afsökun.

Þá er það síðasti dagur ársins, þá á nú mikið að gerast og sjálfsagt gerist mikið á gamlársdag. Ráðh. segir, að það sé ómögulegt að koma til ríkissjóðs öllu þessu fé. Ég benti á það, að ríkissjóður ætti að hafa reikninga í bönkum og sparisjóðum alls staðar, hvar sem innheimtumenn eru búsettir. Þeir ættu að leggja innheimtuféð inn á þessa reikninga ríkissjóðs jafnóðum og þeir fá það í hendur, og þetta geta þeir gert líka á síðasta degi ársins eins og aðra daga, og þá getur ríkissjóður ávísað til Seðlabankans á þessar innistæður sínar í bönkum og sjóðum úti um allt land, hann getur gert það, og þannig getur þetta komið honum strax að fullum notum.

Ráðh. sagði, að það hefði verið ómögulegt t.d. að koma til ríkissjóðsins 6–7 millj. á gamlársdag hér í Reykjavík. Ég veit ekki hver lokar fyrstur þennan dag, tollstjórinn, ríkisféhirðir eða bankarnir. Það getur skeð, að það yrði eitthvað lítið eitt eftir hjá tollstjóra, ef hann er lengur að þennan dag en hinar stofnanirnar, en það getur aldrei munað miklu, og hann hefur víst sendimenn, sem hægt er að trúa fyrir því að fara með peninga í banka eða til ríkisféhirðis.

Ráðh. segir, að reikningar í bönkum og sjóðum úti um land séu á vegum embættanna, en ekki ríkissjóðs, og þetta skipti ekki máli. Ég er nú ekki sammála hæstv. ráðh. um þetta. Ég held að það geti skipt máli, hvort fé sem ríkið á er á reikningi einhvers sýslumanns eða þá á reikningi ríkissjóðsins sjálfs, og vitanlega á ríkissjóður sjálfur að hafa viðskiptareikninga í þessum bönkum og sjóðum, og það á að leggja þetta inn á reikning ríkissjóðs. Hitt er ekki rétt, og þetta getur skipt máli, það verða allir að viðurkenna. Þá segir hann, að ríkisféhirðir loki sínum reikningi 31. desember. Það er gott, það er góður siður. En margir sýslumenn gera þetta ekki, en þá á að láta þá gera það, og þá helzt þetta, sem þeir innheimta eftir nýárið. Þá telst það vitanlega á þeirra spjöldum í ríkísreikningnum með óinnheimtum tekjum í árslokin. Þetta er það eina rétta, þetta er rétt bókhald, en hitt er það ekki. Þess vegna eiga þeir ekki að telja janúarinnborganir með desembergreiðslum, það er rangt, og það á að koma þeim í skilning um það, að þeir eigi að hætta þessu. Hæstv. ráðh. taldi þarna upp að það hefðu komið stórar fjárhæðir til ríkisins í janúar, febrúar og marz. Ég tók niður tölurnar, og ég held að það hafi komið út úr þessu samtals 158 millj., en þá eru þó eftir fullar 40 millj. af því, sem þeir voru búnir að innheimta af fyrra árs tekjum, þegar marz er liðinn, og þetta er hvergi nærri gott. Ég þykist nú alveg vita, að hæstv. ráðh. sé mér í raun og veru sammála um það, að þessu þurfi að koma í betra lag; og ég vænti þess, að hann taki þessar ábendingar mínar til greina að láta ríkissjóð opna reikninga út um landið, þar sem innheimtumenn eru búsettir, og láti þá borga jafnóðum inn á þessa reikninga á nafn ríkisins allt, sem þeir innheimta, og ef þeir eru beðnir að inna einhverjar greiðslur af höndum fyrir það opinbera þá sendi þeir kvittanir fyrir þeim greiðslum jafnharðan í staðinn fyrir peninga til ríkissjóðs. Ég þykist alveg vita, að hæstv. ráðh. vilji hafa þetta í lagi, og þá er það þetta, sem hann á að gera.