29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég þarf raunar ekki mikið að segja í tilefni að ræðu hæstv. fjmrh. Mér fannst ráðh. svara skýrt og skilmerkilega og greina frá því fullkomlega, sem varðar embætti hans. Ég tók eftir því, að hann sagði að þessu máli væri ekki lokið, og það tel ég eðlilegt. Það virðist vera svo margt, sem hefur orðið uppvíst í sambandi við þetta embætti, að eðlilegt er að ítarlegri og fullkomnari rannsókn fari fram, en þegar hefur orðið. Mér skilst, að hæstv. ráðh. sé mér alveg sammála um þetta, og verð ég að lýsa því yfir, að ég er alveg ánægður með þau svör hans. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að mér ber frekar að beina fsp. um það til hæstv. dómsmrh., hvað frekar kunni svo að vera gert í málinu t.d. í sambandi við það, hvort einstakir starfsmenn þarna verði látnir fara eða ekki, og er sjálfsagt, ef ástæða þykir til síðar meir, að koma fsp. á framfæri við hæstv. dómsmrh. um það atriði, en ég spurði um þetta atriði sérstaklega vegna þess, að fjmrh. hafði upplýst það í grein, sem hann birti í blöðunum, að dómsmrh. mundi þegar vera búinn að ákveða að víkja vissum starfsmanni eða starfsmönnum frá starfi. Hæstv. ráðh. taldi, að hér væri um þann mann að ræða, sem bæri mesta ábyrgð á því misferli, sem hér hefur átt sér stað. Ég skal játa það, að ég þekki ekki til hvernig störfum hefur verið háttað hjá embætti húsameistara ríkisins og hvort þar er einhver sérstakur fjármálastjórnandi, sem ræður mestu um framkvæmd þeirra mála. Það verður að upplýsast betur, og er sjálfsagt að leita eftir því við hæstv. dómsmrh., hvort heldur það verður gert utan þings eða innan.

Það, sem ber að leggja megináherzlu á, er að sjálfsögðu það, að hér fari fram ítarleg rannsókn á málinu, ekki nein málamyndarannsókn og refsing, ef refsingu verður beitt, nái til þeirra, sem raunverulega bera ábyrgð á því, sem hefur gerzt. Ég skal ekki fella neinn dóm um það á þessu stigi, hver eða hverjir það eru, en þess verður að krefjast, að hér verði fullkomins réttlætis gætt og málið ekki leyst með neinni sýndarmennsku og kannske refsing látin koma fram þar, sem ekki er mest ástæða til, en ég er ekki að fullyrða neitt í þessu sambandi. Ég ætla ekki að bera sakir á neinn einstakan mann, þar sem mér er ekki kunnugt um það, hvernig starfsháttum er háttað hjá þessari stofnun, en legg áherzlu á það, eins og ég áðan sagði, að refsingin verði látin koma raunverulega niður, þar sem hún á heima.