28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felst það, að nýjum hópum námsmanna á Íslandi er veitt aðild að Lánasjóði íslenzkra námsmanna. Er hér um að ræða nemendur í kennaradeild stúdenta, menntadeild og framhaldsdeild Kennaraskóla Íslands og nemendur í 1. hluta Tækniskóla Íslands. Um þessa nemendur gildir, að þeir eru stúdentar eða hafa að baki sér jafnlangt nám og stunda nám, sem er hliðstætt námi á 1. ári við Háskóla Íslands eða erlenda háskóla og erlenda tækniskóla. Gildandi lög gera ráð fyrir því, að heimilt sé að veita námslán og styrki stúdentum við Háskóla Íslands og námsmönnum við erlenda háskóla og tækniskóla. Að því er nám á Íslandi snertir, er því aðild að Lánasjóði íslenzkra námsmanna bundin við stúdenta við Háskóla Íslands. Kennaraskóli Íslands og Tækniskóli Íslands eru hins vegar nýir skólar, og við þá báða er nú stundað nám, sem er hliðstætt 1. árs námi í háskólum eða tækniskólum erlendis. Þeir stúdentar, sem stunda nám í kennaradeild stúdenta eða framhaldsdeild Kennaraskólans, gætu að sjálfsögðu eins verið við nám á 1. ári í Háskólanum og mundu þá eiga aðild að Lánasjóðnum. Þeir, sem stunda nám í menntadeild Kennaraskólans, hafa að baki sér nám, sem er jafnlangt menntaskólanámi, þ.e.a.s. fjögurra ára nám eftir landspróf eða hliðstætt gagnfræðapróf. Þeir, sem stunda nám í 1. hluta Tækniskóla Íslands, hefðu getað fengið inngöngu sem námsmenn á 1. ári í tækniskóla erlendis og hefðu þá getað orðið aðilar að Lánasjóðnum, enda eru ýmsir stúdentar í þessum hópi. ÖII rök virðast því mæla með því, að þessir námsmenn á Íslandi fái aðild að Lánasjóðnum, enda hefur stjórn Lánasjóðsins einróma mælt með því, að svo yrði. Var gert ráð fyrir þessum breytingum á lánakerfinu, þegar fjárlagafrv. var samið, þannig að fjölgun aðila að Lánasjóðnum skerðir ekki hlut þeirra, sem fyrir eru.

Síðan ákvörðun var tekin um gengislækkun íslenzku krónunnar hafa námsmenn og aðstandendur þeirra, sérstaklega námsmenn erlendis og þeirra aðstandendur, mjög um það spurt, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera í lána- og styrkjamálum námsmannanna. Ríkisstj. hefur þegar tekið ákvarðanir sínar í þessum efnum, og viðræður hafa farið fram við bankana um þátt þeirra í lausn málsins. Munu verða fluttar till. um breytingar á fjárlagafrv. í samræmi við þetta. Skal ég nú skýra frá niðurstöðum í þessu máli.

Fyrir gengisbreytinguna var gert ráð fyrir því, að lán, styrkir og útgjöld Lánasjóðs íslenzkra námsmanna yrðu sem hér segir: Lán áttu að nema 34 millj. 182 þús. kr., þar af 20 millj. 499 þús. kr. til námsmanna erlendis, en 13 millj. 683 þús. kr. til námsmanna hér heima. Til hinna svo nefndu stóru styrkja áttu að ganga 1 millj. 776 þús. kr., þar af 1 millj. 66 þús. til námsmanna erlendis, en 710 þús. kr. til námsmanna hér heima. Til ferðastyrkja áttu að ganga 4 millj. 475 þús. kr. og til kandidatastyrkja 1 millj. Rekstrarkostnaður sjóðsins og afborganir lána áttu að nema 1 millj. 60 þús. kr. Ákveðið hefur verið að hækka allar þær fjárhæðir, sem ganga til íslenzkra námsmanna erlendis, um 54,4%, eða sem svarar hækkun erlenda gjaldeyrisins, þannig að lán og styrkir til íslenzkra námsmanna erlendis verða á næsta ári jafnhá í erlendum gjaldeyri og þau voru fyrir gengislækkunina. Lán og styrkir til íslenzkra námsmanna hér heima munu á næsta ári hækka um 18% frá því, sem ráð var fyrir gert. Lánin hækka því alls í 47 millj. 796 þús. kr., þar af til námsmanna erlendis í 31 millj. 650 þús., en til námsmanna hér heima í 16 millj. 146 þús. Stóru styrkirnir hækka í 2 millj. 484 þús., þar af til námsmanna erlendis í 1 millj. 646 þús. og til náms­ manna hér heima í 838 þús. Ferðastyrkirnir hækka í 6 millj. 909 þús. kr. og kandidatastyrkirnir í 1 millj. 544 þús. kr. Útgjöld til rekstrarkostnaðar og afborgana lána haldast óbreytt.

Eins og kunnugt er, hefur stjórn Lánasjóðs íslenzkra námsmanna fylgt vissum reglum við úthlutun námslána, og hefur upphæð námslánanna verið misjafnlega hár hundraðshluti af námskostnaði eða réttara sagt þeim hluta námskostnaðarins, sem eigin tekjur námsmannanna hafa ekki nægt til að greiða. Hafa lánin verið lægstur hundraðshluti á fyrsta ári, en síðan farið stighækkandi. Hafa lánin numið frá 30–80% af áætlaðri fjárþörf nemenda erlendis, en 25–80% af fjárþörf stúdenta við Háskóla Íslands. Þar eð gengislækkunin bitnar að sjálfsögðu þyngst á þeim, sem lægstan hundraðshluta fá að láni, þ.e.a.s. námsmönnum á 1. og 2. ári, hefur ríkisstj. ákveðið að leggja til, að Lánasjóðurinn fái nokkra viðbótarfjárveitingu, auk þeirra hækkana sem ég hef þegar getið um, að upphæð 1 millj. 659 þús. kr., til þess að gera Lánasjóðnum kleifi að létta sérstaklega undir með þessum námsmönnum eða öðrum, sem hún telur brýnasta þörf á að hjálpa. Samkv. þeim till., sem ríkisstj. mun leggja fram í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv., mun því ráðstöfunarfé Lánasjóðsins á næsta ári verða alls 61 millj. 552 þús. kr. Lánasjóðurinn fær fé sitt úr þrem áttum. Meginhlutinn er beint framlag ríkisins á fjárl. Þá hafa bankarnir sýnt starfsemi Lánasjóðsins sérstaka velvild með því að lána honum fé og að síðustu hefur sjóðurinn sem þegar er orðin öflug stofnun, nokkrar eigin tekjur. Áður en gengisbreytingin var ákveðin, var gert ráð fyrir því, að ríkisframlagið næmi 31 millj. 745 þús. kr., bankalán 9 millj., en tekjur af eigin fé 4.2 millj. Nú er gert ráð fyrir því, að ríkisframlagið hækki í 44 millj. 752 þús. og bankalánin hækki í 12 millj. 600 þús. Hækkunin nemur því samtals 16 millj. 607 þús. kr. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar í samráði við stjórn Lánasjóðsins, en í henni eiga sæti fulltrúar stúdenta við Háskóla Íslands og erlendra stúdenta, Háskólans og fjmrn., auk formanns skipaðs af menntmrn. Ég vona, að um þessar ráðstafanir megi segja, að þær beri vott um, að íslenzk stjórnarvöld hafi fullan skilning á gildi æðra náms, bæði hér heima og erlendis, fyrir íslenzkt þjóðfélag. Ég vona líka, að hið háa Alþ. líti á það aukna verksvið Lánasjóðsins, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sem endurbót, þannig að frv. fái skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþ.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari l. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.