02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ein af athugasemdum yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn var um 200 millj., sem innheimtumenn víðs vegar um land voru búnir að innheimta fyrir ríkissjóðinn, en áttu eftir að skila af sér til eigenda fjárins í árslok 1967. Um þetta var nokkuð rætt við 2. umr. frv. Ég hélt því þá fram, að ríkissjóður ætti að opna viðskiptareikninga fyrir sig í bönkum og sparisjóðum, þar sem innheimtumennirnir eiga heima, og það ætti að láta þá leggja inn á þessa reikninga ríkissjóðs jafnóðum það, sem þeir innheimta fyrir hann. Hæstv. fjmrh. sagði, að reikningarnir í bönkum og sparisjóðum væru á vegum embættanna, en ekki ríkissjóðs, og taldi það ekki skipta máli. Ég hélt því hins vegar fram, að þetta gæti skipt máli. Nú er það vitað mál, að af þessu fé, sem geymt er í bönkum og sparisjóðum, eru greiddir vextir, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort sýslumennirnir hafi skilað til ríkissjóðs vöxtum, sem þeir hafa fengið greidda frá bönkum og sparisjóðum af því fé, sem þeir hafa geymt þar, sem er eign ríkissjóðs? Ég vil spyrja hann um það, hvort þeir hafi skilað til ríkissjóðs vöxtum af þessu fé hans?