02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta svar. En ég sný ekki til baka með það, að ég tel að ríkissjóður ætti að hafa þessa reikninga, og hann ætti að hafa ráð yfir þessum reikningum, en ekki embættismennirnir. Fjmrh. ætti að hafa ráð á þessum reikningum, því að þá gæti hann gefið út ávísanir á þá jafnóðum og þar myndast innistæður og notað þá peninga til þarfa ríkissjóðs strax, þegar þeir eru komnir inn í þessa banka og sparisjóði. Hitt tel ég mjög óeðlilegt, að þetta sé á vegum embættanna, sem hann nefnir svo, en það er þá sama sem á vegum sýslumannanna. Ég tel, að þetta sé óeðlilegt og það eigi að breyta þessu.