02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég veit, að hv. þm. er mjög vel kunnugur bankamálum, og ég las eftir hann grein á sínum tíma. Að vísu var hann nú ekki mjög hrifinn af þeirri starfsemi, sem upp er tekin í bönkum og hversu flókið það er og vélrænt allt saman, en ég veit þó, að hann veit nægilega mikið um bankamál til þess að vita, að það er auðvitað ekki hægt að ávísa á reikninga, sem aðrir eiga. Sýslumennirnir verða auðvitað að hafa sinn eigin viðskiptareikning, það verður ekki fram hjá því komizt. Það yrði þá um tvo reikninga að ræða í viðkomandi banka, reikning, sem sýslumaðurinn hefði og ávísaði þá á sjálfur, og síðan reikning ríkissjóðs, sem hann legði inn á. Mér finnst sannast sagna, að úr þessu yrði næsta skringilegt fyrirbrigði og mundi á engan hátt verða til þess að lagfæra þann vanda, sem hér er um að reða, síður en svo. Ég held því, að það hafi enga þýðingu að vera að deila um þetta atriði. Þetta leysir ekki vandann. Við erum sammála hv. þm. og ég um það, að það þurfi að sjá til þess, að þessir peningar komi til ríkisins sem skjótast, en þetta er ekki úrræði í þá átt. Það þarf allt aðrar ráðstafanir til þess.