02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að embætti sýslumanna hafa með fleira að gera en mál ríkissjóðs og innheimtu á fé til ríkissjóðs. Sýslumenn hafa líka yfirstjórn sýslusjóða, og þeir geyma fé, sem er eign sýslusjóðanna, og er það nú rétt að grauta þessu öllu saman og setja þetta allt á bankareikninga, sem kallað er að séu á vegum embættanna? Hvernig fara þeir þá að því að greina í sundur vexti af því fé, sem ríkissjóður á og sýslusjóðirnir eiga?

Það er miklu einfaldara að vera ekkert að blanda þessu saman. Ríkissjóður á að hafa reikninga á þessum stöðum, í þessum bönkum og sjóðum, og þangað eiga sýslumenn að leggja inn, í reikninga ríkissjóðs, jafnóðum allt, sem þeir innheimta fyrir ríkið, og það er fjmrh., sem á að geta ávísað á það fé, en ekki sýslumennirnir. Þeir eru búnir að skila því af sér um leið og þeir eru búnir að borga inn á þessa ríkisreikninga, svo það kemur bara ekki þessu máli við, þó að þeir hafi aðra reikninga í bönkum, þar sem fé sýslusjóða er eða annað, sem þeir hafa með höndum, sem ekki kemur ríkinu við. Þetta er hið eina rétta í þessu máli, hitt getur leitt til ófarnaðar að grauta þessu öllu saman, og það á ekki við. Þess vegna vil ég skora enn á hæstv. ráðh. að breyta þessu og stofna svona reikninga fyrir ríkissjóð í bönkum og sparisjóðum, þar sem sýslumennirnir eiga heima og fyrirskipa þeim að greiða þar inn jafnóðum allt, sem þeir innheimta fyrir ríkið.