06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til samþykktar á ríkisreikningnum fyrir árið 1967 er samið með hliðsjón af ríkisreikningnum sjálfum, sem fylgir frv. sem fskj., og hafa yfirskoðunarmenn Alþ. gert aths. við reikninginn í ýmsum liðum, sem þar eru prentaðar með, sömuleiðis svör rn. við þeim aths. og að lokum úrskurðir yfirskoðunarmanna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í einstökum atriðum, eftir því, sem tilefni gefst til, að rekja aths. yfirskoðunarmanna. Ég sé heldur ekki ástæðu til þess að fara að ræða sérstaklega afkomu ríkissjóðs 1967 vegna þess, að við fjárlagaumr. gerði ég mjög rækilega grein fyrir afkomu ríkissjóðs það ár, og skýrði ástæður hinna ýmsu liða eftir því, sem tilefni gafst til, bæði umframgreiðslur og umframtekjur. Eins og hv. þm. sjá af úrskurðum yfirskoðunarmanna, eru allmargar úrskurðartill. þeirra viðurkenning á því, að svör, sem gefin hafa verið af rn., séu fullnægjandi til útskýringar á aths. Aðrar aths. eru þess eðlis, að þær eru til athugunar framvegis, og gefur það ekki heldur sérstakt tilefni til umr., en hins vegar er rétt að víkja að tveimur aths., sem vísað er til aðgerða Alþ. Að vísu er það mjög erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig Alþ. á með að fara, þegar slíkum till. er vísað til aðgerða Alþ. Það hefur stöku sinnum komið fyrir í sambandi við meðferð ríkisreiknings, að þetta hefur verið gert, og sannast sagna lítið út úr því komið, nema hvað það hefur gefið tilefni til umr., og það getur haft sitt gildi, að það gefist tækifæri til þess að ræða þessar sérstöku aths. Í raun og veru er hvorug þessara aths. veigamikil. En þó er rétt að fara um þær örfáum orðum.

Fyrri aths., sem vísað er til aðgerða Alþ., snertir Ríkisútvarpið og er í rauninni eingöngu bókhaldslegs eðlis. Yfirskoðunarmenn finna að því, að það séu færðar til afskrifta óinnheimtar tekjur af afnotagjöldum, en síðan komi þær að vísu til tekna að svo miklu leyti, sem þær innheimtast síðar. Þetta telja yfirskoðunarmenn, að leiði til þess, að það sýni lakari hag útvarpsins en efni standi til og geti orðið þess valdandi að kröfugerð útvarpsins um afnotagjöld byggist á röngum forsendum. Ég held ekki, að það sé nein ástæða til að halda, að svo sé vegna þess, að ákvarðanir um afnotagjöld útvarpsins eru miðaðar við áætlanir, sem hverju sinni eru gerðar um tekjur þess og gjöld á yfirstandandi rekstrarári, og er þá að sjálfsögðu áætlað, að inn komi meginhluti þeirra afnotagjalda, sem á eru lögð. Hitt er annað mál. að ég tel sjálfsagt og ég lýsti því yfir í hv. Nd., að þetta mál verði tekið til athugunar, og þeim tilmælum mun verða beint til Ríkisútvarpsins, að farið verði eftir ábendingum yfirskoðunarmanna varðandi uppsetningu reiknings útvarpsins að þessu leyti. Hér er hins vegar tvímælalaust ekki um að ræða neinar misfellur, heldur, eins og ég segi, ágreining um bókhaldslega uppsetningu á reikningi útvarpsins.

Hin aðfinnslan, sem má segja, að sé kannske meira efnislegs eðlis, er um það, að á árinu 1966 fór fram ítarleg athugun á afkomu Skipaútgerðar ríkisins. Rekstrarhalli hennar hafði vaxið geysilega, þannig að fjmrn. og samgmrn. þótti einsýnt, að það yrði að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að reyna að rétta við hag þessa fyrirtækis. Nú ætla ég hér ekki að fara að rekja það mál út af fyrir sig né deila á neinn hátt á þann mann, sem er forstjóri þess fyrirtækis, en það þótti hins vegar augljóst, að það yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fá þarna fram lagfæringar og skipulagsbreytingar. Niðurstaðan varð því sú, að til álita kom að setja þar annan forstjóra í bili a.m.k., en í stað þess voru settir tveir fulltrúar, annar tilnefndur af fjmrn. og hinn af samgmrn. til þess að vera við hlið forstjórans, þar til endanleg skipan yrði gerð á þessu máli. Vegna þeirra geysimiklu starfa, sem þessir menn hlutu að verða að gegna, þar sem þeir voru í rauninni nokkurs konar aðstoðarforstjórar, þá var svo ákveðið af samgmrh., að skoðuðu því máli og með samþykki fjmrh. þá, að hvor þessara manna skyldi taka hálf forstjóralaun, á meðan jafnmikil vinna og hér var um að ræða í þessu starfi stóð fyrir dyrum. Þetta var hins vegar aldrei hugsað nema til bráðabirgða og varð heldur ekki svo.

Hins vegar var þetta gert á árinu 1967 og yfirskoðunarmenn finna að því og telja, að ekki hafi verið haldnir nema tiltölulega fáir fundir í þessari stjórnarnefnd, og því sé þessi greiðsla óhæfileg. Fundirnir eru ekkert raunhæft mat á því, hvað þessir menn störfuðu. Það má telja álitamál, hvort það á að greiða svona háa upphæð eða ekki, það skal ég ekkert um segja. Það er alveg rétt hjá yfirskoðunarmönnum, að miðað við, að hér sé um nm. að ræða, þá er þetta óeðlilega há greiðsla. Ég tel hins vegar ekki, miðað við þann afrakstur, sem hefur orðið af þessari endurskipulagningu, að hér hafi verið um óhæfilegar fjárráðstafanir að ræða. Þessu máli hafði verið kippt í lag og úrskurðuð venjuleg þóknun til handa þessum stjórnarnm., þegar aths. yfirskoðunarmanna voru til meðferðar, en hafði láðst í svari til yfirskoðunarmanna að gera grein fyrir því, þannig að það er eðlilegt, að yfirskoðunarmenn gagnrýni það í sinni aths. og vísi því til aðgerða Alþ. En þessum mönnum hefur nú, eftir að breyting hefur aftur orðið á þeirra starfi, verið úrskurðuð almenn og venjuleg þóknun í samræmi við þær reglur, sem fjmrn. fylgir í því efni.

Ég vil jafnframt taka það fram, að það er misskilningur, sem fram kemur, að það hafi verið reynt að fela á nokkurn hátt þessar greiðslur, sem hér er um að reða. Það hefur með einhverjum hætti farið á milli mála, og síður en svo verið reynt að fela það, enda kemur þetta greinilega fram í reikningum Skipaútgerðarinnar. Ég er ekki að þakka þessum mönnum endilega það allt, sem gerzt hefur þarna til góðs. Ég efast ekkert um, að forstjóri útgerðarinnar hefur þar lagt sig fram líka, en ég vil aðeins til fróðleiks benda á það, sem má gjarnan koma fram, að eftir að þessi skipulagsbreyting er gerð, hefur orðið um að ræða mjög verulega lagfæringu á rekstri fyrirtækisins, og halli þess hefur minnkað mjög verulega, þó að um aukinn tilkostnað hafi verið að ræða.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða um Skipaútgerð ríkisins. Það gefst alltaf tækifæri til að gera það. En eina ástæðan til þess, að ég ræði þetta hér er af því, að þessu máli er vísað til aðgerða Alþ., en hvað sem menn kunna að hafa haft um það að segja á sínum tíma, hvort þóknun þessara manna hafi verið of há eða ekki, þá er það sem sagt staðreynd málsins, sem ég vil láta koma hér fram, að stjórnarnm. fá nú mjög hófsamlega þóknun fyrir sín störf í stjórnarnefndinni, enda eru þau störf miklum mun minni en upphaflega var á árinu 1967.

Í þriðja lagi vil ég aðeins að því víkja, vegna þess að það var mikið um það rætt í hv. Nd., að skil innheimtumanna um áramót væru ekki sem skyldi, og það tekið fram, að útistandandi hafi verið af innheimtufé 200 millj. kr. í árslok 1967 og talið mjög vítavert, að þetta skuli hafa átt sér stað. Ég tel einnig rétt, að fram komi á þessu skýring.

Það er ekki svo, að 200 millj. hafi legið í kassa hjá innheimtumönnum. Það er lögð á það rík áherzla í fjmrn. allan desembermánuð að innheimta hverja þá kr., sem hægt er að innheimta frá innheimtumönnum og öðrum, enda gefur auga leið, að fyrir fjmrh., sem slíkan. er það að sjálfsögðu mikið áhugamál að fá inn sem mest af ríkistekjum. En ástæðan til þess, að þessi upphæð er tilgreind svo há sem þessi tala ber vitni um, er af þrennum ástæðum.

Í fyrsta lagi er það, að sýslumenn eiga að borga út ýmsar greiðslur, sem ekki er komin endanlega skilagrein um frá viðkomandi rn. um áramót, og er talið, að í þetta sinn hafi það numið milli 30–40 millj. kr., sem var ekki eðlilegt af þessum ástæðum, að væri skilað, þar sem í flestum tilfellum hafa sýslumennirnir lagt þetta út, en ekki fengið því ávísað aftur til endurgreiðslu frá viðkomandi rn.

Í annan stað er alltaf töluvert síðasta dag ársins, sem innheimtist. Ég vil nefna það t.d. hér í Reykjavík, að 31. des. s.l. innheimtist eftir hádegi, eftir að lokað var bönkum, milli 7–8 millj. kr., sem gersamlega var útilokað að bókfæra inn sem tekjur hjá ríkissjóði þann dag og kom því ekki inn fyrr en 1. janúar, en var hins vegar bókað innheimt hjá Gjaldheimtunni. Þannig geta verið allmargar millj. kr. samtals hjá hinum ýmsu embættum. En það, sem þó veldur mestu um þessar upphæðir, er, að innheimtumennirnir hafa, — ja, ég vil segja því miður, miðað við þær reglur, sem um þær eiga að gilda og ekki sízt, sem gilda eftir að nú eru komin ný lög um ríkisbókhald og ríkisreikning, — haft þann hátt á að hafa opið nokkra daga fram yfir áramót til þess að reyna að innheimta sem allra mest og fært það síðan sem innheimt fé 31. des. í stað þess að færa það í eftirstöðvum. Þetta nemur mjög verulegum fjárhæðum. Meginhlutinn af þessum upphæðum kom hins vegar inn snemma á árinu og ég tel rétt, að það komi hér fram, að í janúarmánuði 1968 voru strax greiddar inn af þessu fé 45 millj., í febrúar 1968 65 millj., í marz 1968 48 millj. eða meginhlutinn af öllu því fé, sem hér var um að ræða, og var endanlega frá þessu gengið, þegar áramótaskilagreinir embættanna bárust.

Ég er hins vegar sammála þeim mönnum, sem þetta hafa gagnrýnt. Ég er sammála yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, að það þurfi að leggja á það áherzlu, að innheimtan fari ekki fram fyrstu daga í janúar eða febrúar, heldur fari hún fram fyrir áramót og þessum fjármunum sé skilað í ríkissjóð. Á það mun verða lögð ríkasta áherzla. Bæði hefur verið sent til embættismannanna og þeim margsinnis skrifað og fundir haldnir með þeim til þess að leggja áherzlu á þetta atriði, og það mun tvímælalaust verða lögð öll áherzla á að kippa þessu í lag. Ég taldi hins vegar miðað við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, að þá væri rétt, að þær upplýsingar kæmu fram, að hér er ekki um neina fjármálaóreiðu að ræða, heldur hinar tilteknu málsástæður, sem ég gat hér um.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.