28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. gerði hér grein fyrir þeim breytingum, sem felast í frv. því til l., sem hér liggur fyrir til umr. Breytingin, sem í því felst, er ekki mjög stórvægileg, enda þótt hún sé tvímælalaust til bóta. Við Alþýðubandalagsmenn höfum lengi bent á nauðsyn þess, að námslánakerfið verði útvíkkað. Þegar lög um námslán og námsstyrki voru afgreidd frá Alþ. fyrir tveimur árum tæpum, lögðum við á það sérstaka áherzlu, að þetta kerfi næði ekki nema til hluta af nemendum í framhaldsnámi. Við vildum, að þetta kerfi næði einnig til 1. hluta Tækniskólans, til kennaraskólanema og menntaskólanema og jafnvel víðar, svo að við töldum fyrir tveimur árum mikla nauðsyn á því að veita nemendum í t.d. menntaskólum námsstyrki, og það má tvímælalaust segja, að nauðsynin sé enn brýnni nú, eftir að atvinnuástand hefur stórversnað og fjöldamargir menntaskólanemar hafa litla atvinnu eða enga á sumrin. Það er sem sagt komið aftur það ástand, sem einu sinni var, að börn lágtekjumanna hafa talsvert minni möguleika að ganga menntaveginn en börn efnaðra foreldra, a.m.k. ef börnin eru fleiri en eitt, sem vilja ganga menntaveginn. Jafnrétti til menntunar er tvímælalaust lágmarkskrafa í siðuðu þjóðfélagi. Þetta var ekki svo áberandi vandamál fyrir nokkrum árum, er unglingar gátu fengíð mikla atvinnu 4 mánuði ársins, en nú, þegar atvinnuleysið hefur haldið innreið sína, verður að reisa þá kröfu af fullum þunga, að nemendur í menntaskólum, kennaraskólum og öðrum framhaldsskólum fái námsstyrki, ef þeir þurfa þess með eða a.m.k. foreldrar þeirra eigi kost á vaxtalausum lánum. Ég vil sem sagt ítreka það, að þó að það sé góðra gjalda vert, að hér sé námslánakerfið útvíkkað, þá þarf betur, ef duga skal. Annars vil ég í tilefni af framkomnu frv. ræða hér alveg sérstaklega um námslán og námskostnað stúdenta erlendis, eins og viðhorfin eru nú, eftir þá stórfelldu gengisfellingu, sem nýlega var framkvæmd, og með sérstöku tilliti til ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan.

Í leiðara Alþýðublaðsins nú fyrir skömmu gat að líta fáein orð um námsaðstoð við stúdenta, og ég vil leyfa mér að lesa upp þessi fáu orð, með leyfi forseta. En þau voru þannig:

„Margir hafa haft áhyggjur af hlutskipti íslenzkra námsmanna, sem eru erlendis, eftir gengislækkunina. Er augljóst, að þeir mundu verða fyrir miklu skakkafalli, ef ekkert væri að gert. Gylfi Þ. Gíslason menntmrh. hefur á undanförnum árum gengizt fyrir stórfelldri aukningu á lána- og styrkjastarfsemi fyrir námsmenn, komið upp nýju kerfi til að gegna því verkefni. Nú hefur hann unnið að því, að námsmenn verði skaðlausir af gengislækkuninni, ef þess er nokkur kostur. Er málið komið vei áleiðis og verður birt um það tilkynning innan skamms.“

Þetta sagði það ágæta blað, Alþýðublaðið, fyrir fáum dögum. Og þessi tilkynning, sem Alþýðublaðið boðaði í leiðara, hefur sem sagt séð dagsins ljós núna, en ég er hins vegar anzi hræddur um, að þessi málalok, sem hæstv. menntmrh. kynnti hér áðan, eigi eftir að vekja talsvert mikil vonbrigði meðal námsmanna og aðstandenda þeirra. Alþýðublaðið lofaði, eins og ég tók hér fram, að námsmenn skyldu vera skaðlausir af gengislækkuninni. En það er svo sannarlega komið í ljós, að það mun víst vera býsna fjarri lagi, að svo verði. Allt það, sem ríkisstj. hyggst gera til hjálpar námsmönnum, virðist samkv. ræðu hæstv. menntmrh. vera það að hækka lánin í hlutfalli við gengisbreytinguna, svo að lánin haldi áfram að vera eins og þau hafa verið, að meðaltali um 30% af meðalfjárþörf stúdenta erlendis, á sama hátt og raunar var gert eftir seinustu gengisfellingu. Ég held, að það hljóti að vera öllum heilvita mönnum ljóst, hve hróplegt öfugmæli það er, að námsmenn séu skaðlausir af gengisfellingu, þótt lán séu hækkuð í hlutfalli við gengisbreytinguna. Lán og styrkir eru, eins og ég tók fram hér áðan, yfirleitt aðeins þriðjungur af námskostnaði, og þótt ríkið hækki lánin, svo að þau haldi áfram að nema 1/3 námskostnaðar, er hitt auðvitað aðalatriðið, að 2/3 hlutar námskostnaðar hækka í hlutfalli við gengisbreytinguna. Það mun nú víst flestum landsmönnum vera ljóst, að gengisfellingin felur í sér gífurlega kjaraskerðingu fyrir almenning á Íslandi. 54% hækkun á erlendum gjaldeyri er talin skerða lífskjör manna hérlendis um 15–20% að áliti hinna vísustu hagspekinga. En áfallið, sem íslenzkir stúdentar erlendis verða fyrir, er hins vegar þrefalt meira, 54% gengisfelling táknar hreinlega 54% hækkun á námskostnaði þeirra, og ef lánin væru ekki hækkuð til jafns við gengisbreytinguna, væru lífskjör stúdenta erlendis skert um meira en nemur gengisbreytingunni. Áfallið, sem þeir yrðu fyrir þá, væri sem sagt um það bil fjórfalt meira en almenningur á Íslandi verður fyrir, en þökk sé hæstv. menntmrh., þá stendur nú til, að þetta áfall verði ekki meira heldur en þrefalt meira en það, sem almenningur á Íslandi verður fyrir.

Erlendur gjaldeyrir hefur almennt hækkað í verði síðan um miðjan nóvember í fyrra um 104%. Þó hefur danska krónan, pundið og nokkrar fleiri myntir hækkað aðeins minna eða rétt um 100%. Þrátt fyrir hækkun lána á seinasta ári og þessa fyrirhuguðu hækkun, sem menntmrh. hæstv. hefur boðað, er sem sagt óhætt að segja, að á einu ári hefur aðstaða stúdenta erlendis versnað um meira en 100% á einu ári, þó að með talin sé sú aðstoð, sem hæstv. menntmrh. hyggst veita þeim. Námskostnaður í hinum ýmsu löndum er mjög mismunandi, en meðalnámskostnaður fyrir einu ári mun hafa verið á 9 mánaða námstíma um 90 þús. kr. Við gengisfellinguna í fyrra fór meðalnámskostnaður upp í á að gizka 120 þús. kr., og eftir seinustu gengisfellingu er hann kominn upp fyrir 180 þús. kr., og ég tek það fram, að þetta er meðalnámskostnaður, hann er lægri í sumum löndum og hærri í öðrum. En sem sagt þetta meðaltal námskostnaðar, sem ég hef að vísu ekki nákvæmlega fyrir framan mig, en ég held, að það sé tala, sem ekki sé fjarri lagi — meðalnámskostnaður hefur þannig hækkað um 90 þús. kr. á einu ári. Ef fyrirhuguð hækkun lána er meðtalin, má hins vegar gera ráð fyrir, að meðallán og styrkur sé kominn upp í 60 þús. kr. á ári. Það sem sagt er að gerast núna þessa dagana, að allt lánið og styrkurinn nægir ekki einu sinni til þess að greiða þá hækkun, sem orðið hefur á námskostnaði á einu ári, breytingin, sem orðið„hefur á þessu eina ári, jafngildir því, að öll lán og allir styrkir, sem áður voru veittir, væru afnumdir með einu pennastriki og námskostnaður þar að auki hækkaður um þriðjung, og þetta er það, sem Alþýðublaðið leyfir sér að kalla „að námsmenn muni verða skaðlausir af gengisfellingunni“. Ég held, að annað eins öfugmæli hafi ekki lengi sézt í nokkru íslenzku blaði. Ég er sannfærður um, að verði ekki gerðar frekari ráðstafanir til styrktar stúdentum erlendis en þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að gera, mun stór hluti stúdenta flosna upp frá námi. Það var hugsanlegt í fyrra, að menn réðu við 60 þús. kr. námskostnað, þegar lánin voru frá dregin, en hvernig eiga menn-ég spyr-hvernig eiga menn að halda sér úti við nám, þegar þeim er ætlað að útvega á eigin spýtur að meðaltali um 120 þús. kr. á ári? Mér er það algerlega óskiljanlegt. Um 600 námsmenn munu uppfylla skilyrði til lánveitinga úr Lánasjóðnum og stunda núna nám erlendis. Þetta fólk er erlendis, vegna þess að Háskóli Íslands er enn of einhæfur, býður ekki upp á menntun nema í tiltölulega fáum greinum. Ég tel það hörmulega þróun, ef ríkisstj. ætlar að stuðla að því, að íslenzkir stúdentar leiti í enn ríkara mæli en nú er í þær tiltölulega fáu greinar, sem hægt er að leggja stund á við Háskólann. Íslenzkt þjóðfélag hefur þvert á móti þörf fyrir, að stúdentar hljóti miklu fjölbreyttari menntun en núna er, það verður ekki gert öðruvísi en þeir eigi þess kost að stunda nám við erlenda háskóla. Ef þjóðfélag okkar þykist ekki hafa efni á að “styrkja áfram til náms þá, sem búnir eru að vera erlendis í nokkur ár og verða nú að gefast upp í miðju námi, má sannarlega segja, að það sé nokkuð seint séð. Það hefði áreiðanlega verið betra, að þessir ungu menn hefðu aldrei farið utan og aldrei fengið eina einustu krónu að láni, heldur en að vera nú slegnir niður í einu höggi og neyðast svo til að snúa heim próflausir með nokkurra ára námsskuldir á bakinu. Eða ég spyr: Hafa Íslendingar ekki efni á að láta námsmenn sína sitja í skólum erlendis? Erum við tilneyddir vegna ástandsins í sjávarútvegsmálum og vegna gjaldeyrisvandræða að leggja slíkar drápsklyfjar á stúdenta erlendis, sem nema yfir 100% hækkun námskostnaðar á einu einasta ári?

Ég get upplýst, um hve mikla fjármuni hér er að tefla. Námsmenn erlendis eru um 600, og meðalhækkun á námsmann með seinustu gengisfellingu er sennilega ekki fjarri því að vera einhvers staðar í kringum 60 þús. Upphæðin, sem gengisfellingin tekur frá námsmönnum erlendis og færir íslenzkum atvinnurekendum, er því sennilega einhvers staðar yfir 30 milljónir, ég gæti gizkað á, að það væri nálægt 36 milljónum. Þar af hefur nú hæstv. menntmrh. lýst yfir, að hann ætli að bjarga með hækkuðum lánum svona á að gizka 12 milljónum. Mér sýnist því, að það, sem til þarf til þess að stúdentar erlendis losni við áhrif gengisbreytingarinnar og til að koma í veg fyrir að verulegur hluti af íslenzkum námsmönnum flosni upp frá námi, sé ekki mikið meira en svona 24–25 millj., en ég tek það fram að þetta eru að sjálfsögðu ágizkanir, en sennilega ekki mjög fjarri lagi, ágizkanir, sem sýna, að hér er svo sannarlega ekki um stóra fjármuni að tefla. Við Alþýðubandalagsmenn álítum, að þetta fjármagn verði að útvega. Það er unnt að gera það með ýmsum leiðum, en kannske væri einfaldast, að ákveðið væri sérstakt námsmanna-gengi, sem væri talsvert hagstæðara en núverandi gengi. Það væri sem sagt tekinn upp sérstakur námsmannagjaldeyrir til þeirra, sem uppfylltu viss skilyrði, og þeir fengju sem sagt gjaldeyrinn á eitthvað lægra verði heldur en almennt væri. En hvaða leið, sem valin væri til stuðnings námsmönnum, þá held ég; að hitt sé ljóst, að stuðningurinn fyrir íslenzka námsmenn verður að vera margfalt meiri en það eitt, að námslán séu hækkuð í réttu hlutfalli við gengisbreytinguna. Sú ráðstöfun er ekki nema sjálfsagður hlutur, sem í raun og veru þarf varla að ræða um. Mér datt ekki annað í hug en að þær ráðstafanir, sem gera ætti, væru eitthvað veglegri en bara þessi sjálfsagði hlutur, að lánin væru hækkuð til jafns við gengisbreytinguna eða í hlutfalli við hana. Nei, ég spyr enn: Hafa Íslendingar ekki efni á að láta námsmenn sína sitja í erlendum skólum? Þessar gífurlegu byrðar, sem lagðar eru á íslenzka námsmenn, eru á þá lagðar vegna þess að ríkisstj. gat ekki hugsað sér neitt annað úrræði til bjargar íslenzku efnahagslífi en að fella gengi íslenzku krónunnar.

Hæstv. menntmrh. fjallar einnig um viðskiptamál. Hann gat ekki hugsað sér að skerða óskabarn sitt, viðskiptafrelsið margrómaða, á nokkurn hátt eða setja hömlur á eyðslu erlends gjaldeyris aðrar en þær að hækka gjaldeyrinn svo í verði, að menn treystu sér ekki til að kaupa hann. Fyrstu fórnardýr þessarar stefnu eru auðvitað námsmenn okkar erlendis. Þeir verða að gefast upp, og þjóðin sparar dýrmætan gjaldeyri. Síðan geta Íslendingar haldið áfram að flytja inn í landið fisk í dósum fyrir nokkrar milljónir á ári í erlendum gjaldeyri, eins og við höfum gert á undanförnum árum.

Formaður stjórnar Lánasjóðs íslenzkra námsmanna hefur til skamms tíma, ef ég man rétt, verið dr. Jóhannes Nordal, bankastjóri Seðlabankans. Þótt Jóhannes Nordal hafi ekki lengur yfirstjórn sjóðsins með höndum, mun víst óhætt að segja, að hann beri nú nokkra ábyrgð á því, að tekjustofnar sjóðsins hafa verið nokkuð visnir, svo að sjóðurinn stefndur nú algerlega févana gagnvart þeim verkefnum, sem við honum blasa. Ég nefni nú þetta fyrst og fremst vegna þess, að seðlabankastjórinn og hæstv. menntmrh. hafa starfað mikið saman á öðru sviði, og þegar þeir hafa lagt saman, dr. Gylfi Þ. Gíslason bankamálarh. og dr. Jóhannes til stuðnings öðrum skjólstæðingi sínum, Seðlabankanum, þá hefur ekki verið að því að spyrja, að nógir peningar hafa verið fyrir hendi. Það eru ekki nema 7 ár síðan Seðlabankinn kom í þennan heim úr móðurkviði Landsbankans og varð að sjálfstæðri stofnun. En þetta afkvæmi doktoranna Jóhannesar Nordal og Gylfa Þ. Gíslasonar hefur dafnað býsna vel á uppvaxtarárunum. Nú þegar bankinn hefur starfað í 71/2 ár, munu starfsmenn hans vera orðnir nokkuð á 2. hundrað talsins. Þessi stofnun, sem ekki var til fyrir fáeinum árum, hefur nú fleiri starfsmenn en öll ráðuneytin samanlagt. Ég nefni þetta aðeins sem eitt dæmi af mörgum. Það hefur líka verið upplýst hér á Alþ., að á 9 árum hafa 4 ríkisbankar fjárfest til eigin þarfa 328 millj. kr. Það vantar sem sagt ekkí fjármagnið, þegar skjólstæðingar hæstv. bankamálarh. eiga í hlut.

En ég spyr: Hvers eiga skjólstæðingar menntmrh., námsmennirnir, að gjalda, að á þá skuli vera lagðar meiri byrðar með seinustu efnahagsráðstöfunum en alla aðra íslenzka þegna?