06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. hefur hér vikið að nokkrum atriðum. Það eru þrjú atriði, held ég, sem hann gerði að umtalsefni: 1) yfirvinnugreiðslur, 2) utanfarir, 3) vanskil Ríkisábyrgðasjóðs.

Ég verð því miður að hryggja hann varðandi Ríkisábyrgðasjóð, að útgjöld hans hafa orðið miklum mun hærri á árinu 1968 en á árinu 1967. Þau eru sannast sagna óhugnanleg. Ég hef nú vonazt til og getur verið, að það verði auðið að koma því við að útbýta til hv. þm., áður en þinginu lýkur, reikningsyfirliti Ríkisábyrgðasjóðs fyrir árið 1968. Það er tilbúið. Það hafa fallið á ríkið greiðslur, sem sannast sagna eru með þeim hætti, að við það verður ekki unað. Það hefur ekkert gerzt umfram það, að sjálfsögðu, sem lagaheimildir hafa verið fyrir, ríkisábyrgðir, sem Alþ. hefur samþ. og ekkert um það að segja, ekkert athugavert við það, en þetta á kannske ekki hvað sízt rætur sínar að rekja til mjög slæmrar afkomu atvinnuveganna á árinu 1968, sem hefur valdið hér ýmsu. Þeir, sem jafnvel hafa alltaf staðið í skilum, hafa þar orðið vanskilamenn.

Ég hef gert grein fyrir því undanfarin ár, að vanskil á ríkisábyrgð minnkuðu mjög verulega á árunum 1965 og 1966. Var þá hagur atvinnuveganna góður, og útgjöld ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðar minnkuðu mjög. Þau hafa aftur vaxið 1967, eins og hv. þm. sagði, og 1968 vaxið enn þá að miklum mun. Þar eru vissar stórar fjárhæðir, sem ég skal ekki fara út í hér, en eru mikið áhyggjuefni. Ég er hv. þm. sammála um, að hér er um mikið alvörumál að ræða, þegar kannske falla á ríkið 70, 80 og upp í 100 millj. kr. umfram allar áætlanir fjárlaga í sambandi við þetta. Það gefur okkur þess vegna mynd af því, sem ég hef oft tekið fram, en menn ekki alltaf kannske hugsað sem skyldi út í, að það er ekki einfalt mál að veita ríkisábyrgð. Það getur haft í för með sér stórfellda hættu. Hins vegar hefur það þó oft verið gert til að greiða fyrir ýmsum framfaramálum, og er ekkert við því að segja. En vonir okkar eru nú þær, að með batnandi hag útgerðarfyrirtækja t.d. takist að ná meiru inn af vanskilum á ríkisábyrgðum en ella væri. Mér er það ljóst, að þarna er um mjög mismunandi greiðslur að ræða, sem ég ætla ekki að fara út í hér, en sem sagt, ég verð því miður að segja, að hagurinn hefur að þessu leyti versnað mjög á árinu 1968.

Varðandi utanfarir, þá er það auðvitað alltaf mikið álitamál, hvað á að leyfa af utanförum. Ég hef sagt frá því í fjárlagaræðu ár eftir ár, síðan ég tók við störfum. að ég hafi lagt á það áherzlu, og ég hef gert það hverju sinni og skrifað rn. um það, að setja allan þann hemil sem auðið væri á utanferðir. Það er mikil pressa á utanferðir, það er ekki eingöngu íslenzkt vandamál. heldur hjá öllum þjóðum, að embættismenn og ýmsir, sem eru í alls konar alþjóðlegu samstarfi, vilja gjarnan fá að fara til útlanda. Auðvitað er það miklu tilfinnanlegra hjá okkur, sem erum lítil þjóð. Í mörgum tilfellum verðum við auðvitað að senda fulltrúa á alls konar fundi og til þátttöku í stofnunum, þar sem við höfum mikilla hagsmuna að gæta, en það mætti kannske þó hafa þetta með nokkru meiri hófsemd. Ég álít þó, að það hafi verið reynt nú allra síðustu 2 árin að halda þessu í algjöru lágmarki. Það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir og beinlínis breytingar í útgjöldum ríkisins við utanfarir, sem hafa leitt til þess, að þarna hefur orðið um töluverðan samdrátt að ræða.

Varðandi yfirvinnuna, þá hefur verið reynt að fylgjast með því, og hagsýslustofnunin hefur gert margvíslegar athuganir á yfirvinnu í einstökum stofnunum. Það er um mjög mismunandi yfirvinnu að ræða, og í sumum stofnunum verður ekki hjá þessu komizt, það er margsannað og sýnt mál, að það verða ekki settir inn þar óvanir menn til þess að taka við í stað þeirra, sem þurfa að vinna yfirvinnuna. Ég get hins vegar fullvissað hv. þm. um það, að rn. hefur fullkomlega opin augu fyrir þessu vandamáli og hefur sannarlega ekki löngun til þess að greiða meiri yfirvinnu en þörf er á. En fram hjá yfirvinnu verður, eins og ég sagði, ekki komizt í fjöldamörgum tilfellum, og þær stofnanir, sem mesta yfirvinnu hafa haft, hafa verið teknar til sérstakrar meðferðar og athugunar í þessu sambandi. Í langflestum tilfellum hefur það reynzt svo, að þetta hefur verið mjög erfitt. Þarna þarf tvímælalaust að hafa aðhald vegna þess, að hættan er alltaf sú, að þegar yfirvinna tíðkast á annað borð, freistast menn til þess að vinna þá nokkrum klukkutímum lengur en ella og fá fyrir það kaup, þannig að mér er fullkomlega ljós nauðsyn þess að halda í hemilinn á þessum útgjöldum.

Þessar aths. hv. þm. eru því allar þess virði, að þeim sé fullkomlega gaumur gefinn.