12.05.1969
Efri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég held nú, að hæstv. fjmrh. hafi tekið mig of bókstaflega þannig, að ég væri að heimta prófessorsritgerðir frá þessum fyrirtækjum. (Fjmrh.: Voru það ekki reikningar?) Jú, það voru reikningar með smáaths., aðeins meira en kemur fram þarna. Ég get tekið sem dæmi t.d. Tunnuverksmiðjur ríkisins. Þarna er bara efnahagsreikningur. Það væri ekkert á móti því, þegar maður er að fjalla um þessi mál, að við sæjum, hvað var framleitt mikið, hvað kostaði tunnan o.s.frv.? Við getum farið í annað. Við getum farið í Laxeldisstöð ríkisins hér í Kollafirði, sem ég sé nú ekki einu sinni á blaði þarna. Við getum tekið fjárræktarbúið á Hesti, eitthvað slíkt. Því má ekki hafa nokkur orð kringum þessar niðurstöður frá ári til árs? Eða skila þessar stofnanir ekki yfirliti á annan veg en hreinni niðurstöðu, til fjmrn. eða ráðh.? (Fjmrh.: Þær skila öllum fskj.) Þær skila öllum fskj. já. Ég reikna ekki með því, að það séu vanhöld á fskj., en þegar við erum látnir samþykkja svona hluti vildi ég fá aðeins meira í veganesti með þeim. Mig langaði rétt til þess að fá að vita ýmislegt um Tunnuverksmiðjur ríkisins t.d. eða jafnvel fjárræktarbúið á Hesti og Laxeldisstöðina í Kollafirði. Þetta eru fyrirtæki, sem fá margar millj. úr ríkissjóði, en ég hef ekki enn séð skýrslu frá þessum fyrirtækjum. En ég hef séð ágætar skýrslur frá öðrum ríkisfyrirtækjum, og þær eru ekki viðamiklar. Þær koma frá síldarútvegsn. og frá Síldarverksmiðjum ríkisins, og margar fleiri ágætar skýrslur koma. Það var einmitt í svipuðu formi, sem ég var að tala um, að væri æskilegt að fá með. En það er auðvitað allt of viðamikið að ætlast til þess, að hver einasta ríkisstofnun skili slíkri skýrslu. Við höfum enga þörf fyrir það. En við höfum þörf fyrir vissa þætti frá þessum fyrirtækjum.