12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það kom fram í dag hjá hæstv. fjmrh. í umr. um ríkisreikninginn, að það væri í töluvert ríkum mæli, sem myndazt hefðu skuldir starfsmanna hjá ríkisstofnunum, sem þeir vinna hjá. Mér finnst. að hér sé anzi mikið sagt og miklu dróttað að mörgum starfsmönnum þess opinbera, þar sem það virðist sem svo, að þeir liggi flestallir undir grun um að hafa brotið trúnað og reglur í starfi samkv. þessum ummælum. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi, hvaða stofnanir eiga hér hlut að máli, og í öðru lagi, hvaða starfsmenn eiga hér hlut að máli?

Ég trúi ekki, að hér eigi allir jafnan hlut að máli, og því tel ég nauðsynlegt, að það sé þegar upplýst, hverjir það séu, því að ég geri ráð fyrir því, að þegar ráðh. hefur slík ummæli um hönd sem þessi, sé honum fyllilega ljóst, hvað hann er að segja.