12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Ráðh. viðurkenndi, að hér væri í raun og veru um miklu víðtækara skuldamál að ræða en kom beint fram af ríkisreikningnum, enda þótt það hefði farið minnkandi undanfarin ár, eins og hann sagði. Hann tók líka aftur mikið af þeim ummælum, sem ég held, að séu rétt eftir honum höfð í dag, er hann sagði, að það væri í töluvert ríkum mæli, sem myndazt hefðu skuldir starfsmanna hjá ríkisstofnunum, sem þeir vinna hjá. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, því að ég reikna með því, að allur þorrinn af opinberum starfsmönnum séu saklausir í þessum efnum, að það er illt fyrir þá að liggja undir orðalagi eins og fólst í ummælum hæstv. ráðh. í dag. En hann hefur nú tekið aftur að hluta til þessi ummæli, og ég þakka fyrir það, en vil benda honum á, að það er nauðsyn vegna þeirra, sem ekki eru sekir í málinu. að bæði stofnanir og starfsmenn séu tilgreindir, og mér skilst. að það komi ekki allt fram í þeim efnum af ríkisreikningnum.