08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

250. mál, vegalög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Enn vill ríkisstj. hækka benzínskatt. Benzín kostar nú 11 kr. lítrinn. Fyrir síðustu gengisfellingu var hann 9.40 kr.. nú á hann að verða eitthvað yfir 12.00 kr. Benzínið er mikil nauðsynjavara.

Mér kom þetta ekki á óvart, þótt stjórnin legði fram slíkt frv. Það er stefna hennar að auka álögur á nauðsynjar. Dæmi um það er t.d., að hún vill troða okkur inn í EFTA, fríverzlunarsamtök Evrópu. Ef það tekst, eigum við að afnema tolla á innfluttum iðnvarningi, óþörfum sem þörfum. Í staðinn talar stjórnin um að hækka tolla á kornvörum, kaffi og sykri og hækka söluskattinn. En fái stjórnin ekki nægar tekjur með þessum tollahækkunum á nauðsynjum almennings, eru bara tekin lán á lán ofan, aðallega erlendis. Mér reikast svo til, að á þessu þingi sé stjórnin búin að leggja fyrir þingið frv. um lántökur upp á samtals eitthvað yfir 1.300 millj. króna, og mest af þessu á að taka að láni erlendis. Það er talið, að vextir og afborganir af erlendum lánum muni á þessu ári verða yfir 30% af heildarverðmæti útfluttrar vöru frá landinu, eins og það var árið sem leið. En á meðan slíku vindur fram ganga eyðslan og sukkið taumlaust hjá ríkinu og stofnunum þess. Það má sjá í ríkisreikningnum, sem hér liggur fyrir. Ég ætla ekki að fara að lesa tölur úr honum hér, því að hann liggur ekki fyrir. En ég vil nefna það sem eitt dæmi af fjölmörgum, að sendiráð okkar erlendis eru helmingi fleiri en þörf er á. En þrátt fyrir það, að allir þessir sendimenn og umboðsmenn Íslands séu búsettir erlendis, eru ráðh. á þeytingi út um önnur lönd, sjálfsagt til að gæta hagsmuna Íslendinga og til að taka þátt í stjórn veraldarinnar með öðrum þjóðum. Séu haldnar ráðstefnur úti í löndum, telja íslenzkir ráðh. sig þurfa að reka við þar, og gera það. M.a. mæta þeir á ráðstefnum um efnahagsmál til að láta hlæja að sér, því að annarra þjóða menn vita töluvert um framferði ríkisstj. í efnahagsmálum. Og það er reyndar ekkert undarlegt, þó að útlendingar brosi að þessum herrum, því að þeirra öflugustu stuðningsmenn hér heima geta ekki lengur neitað sér um að hæðast að þeim. Þannig var í ritstjórnargrein eins af blöðum stjórnarflokkanna í gær skrifað um það, að stjórnin og einkum stærri stjórnarflokkurinn væri blanda framtaks og velferðar. Og þetta átti nú einkum við um þann stærri, manni skildist þó. að sá minni væri með í þessu auðvitað, en þó var eitthvað talað um það, að hjá honum væru vissar tilhneigingar í aðrar áttir.

Utanfarir ráðh. og annarra embættismanna kosta mikið fé. Það var haldin mikil afmælisveizla vestur í Ameríku í vetur. Og hæstv. forsrh. fór þangað. Þar var hann ljósmyndaður bæði aftan og framan með öðru stórmenni. Það var auðvitað eðlilegt, að hæstv. ráðh. langaði í veizluna. En hann fór ekki einn, hann hafði fylgdarmenn, til þess að þeir gætu séð og heyrt það, sem fram fór, og sagt þjóðinni heimkomnir frá dásemdunum. Og þjóðin hefur þegar fengið nokkuð upp í kostnaðinn við að borga undir þá til og frá Ameríku. Það var núna síðasta vetrardag, að kvöldi dagsins, að þá flutti einn eða annar, ég veit ekki hvort réttara er að segja, af förunautum ráðh. fréttaþátt í útvarpinu. Þar sagði hann okkur að vísu lítið frá ráðh. sjálfum, en meira af sinni eigin framgöngu. Og manni skildist, að hann hefði farið mikla frægðarför þangað vestur. Hann sagðist hafa rætt við menn í viðskiptamálaráðuneytinu þar í Ameríku, hjá Bandaríkjamönnum. Og hann fékk hjá þeim upplýsingar um viðskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna undanfarin ár og þuldi tölur um þetta yfir útvarpshlustendum. Náttúrlega þurfti maðurinn ekki þangað vestur til þess að sjá þetta, kynnast þessu, því að hann gat fengið þetta allt hjá Hagstofunni hér í Arnarhvoli í Rvk. Og hann þurfti m.a. s. ekki að gera sér ferð ofan í Arnarhvol, því að hann gat lesið þetta í Hagóíðindum, því að Hagstofan gefur út mánaðarlega rit, sem nefnist Hagtíðindi, og þar eru skýrslur um utanríkisviðskipti okkar, alveg eins við Bandaríkin eins og aðrar þjóðir. En auðvitað var það finna og í betra samræmi við stefnu stjórnarinnar að senda mann vestur í Ameríku á reikning og áhættu ríkissjóðs til að sækja upplýsingar um viðskiptin, heldur en fá þetta í skýrslum Hagstofu Íslands.

Það er rétt, að það vantar peninga í Vegasjóð, og stjórnin segist ætla að fá í hann 29 millj. á þessu ári með því að hækka benzínskattinn. Þeir þurfa ekki að hækka benzínskattinn til þess að ná í þessa peninga. Þeir þurfa ekki annað en að láta sækja dálítinn hluta af þeim fjármunum. sem ríkið á í vörzlu innheimtumanna út um allt land. Það er fé, sem þeir eru búnir að innheimta! fyrir ríkissjóð, en hafa ekki skilað af sér til hans. Og sýslumennirnir geyma þetta í reikningum þar, bönkum og sparisjóðum á sínum nöfnum eða á vegum embættanna eins og hæstv. fjmrh. orðar það. Þeir þurfa ekki annað en að taka dálítinn part af þessu til þess að geta borgað þessar 29 millj. Og það er auðvelt að ná í meiri peninga, það er auðvelt að ná í meiri peninga með því að spara dálítið af útgjöldum ríkissjóðs, og þetta mætti gera við næstu fjárlagaafgreiðslu á komandi hausti. Þetta er hægt að gera, ef vilji er fyrir hendi. En dugi það ekki til og vanti peninga í ríkissjóð til vegamála eða annarra þarfa, þá á að byrja á því að skattleggja eyðsluna og óþarfann, óþarfa innflutning, en ekki á því að auka tolla á nauðsynjavarningi. Það er auðvelt að leysa þetta mál Vegasjóðs án þess að hækka benzínskattinn, og því eigum við að fella þetta frv. hér í þd.