08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

250. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 1. þm. Norðurl. v. talaði um það, að ríkisstj. vildi hækka tolla og skatta á nauðsynjavörum og helzt á því nauðsynlega og talaði um EFTA og annað slíkt. En það er nú ekki ástæða til þess að fara út í það í sambandi við þetta mál. Ég held, að það sé rétt að halda sig við efni þessa frv. og þá um það, hvort það er réttmætt og eðlilegt að hækka benzínið um eina krónu. Og ég hygg það, að þegar menn gera sér grein fyrir því, hvað benzínverð verður á Íslandi eftir hækkunina samanborið við það benzínverð, sem gildir í okkar nágrannalöndum, þá þyki þessi hækkun eðlileg og sjálfsögð. Og það getur náttúrlega ekki farið saman eins og kom óneitanlega fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., bæði af því, sem hann sagði nú, og hefur sagt áður, þ.e. að heimta auknar vegaframkvæmdir og standa gegn því, að Vegasjóði sé aflað aukinna tekna og fordæma, að það verði tekið fé að láni til framkvæmdanna. Það sjá auðvitað allir, að þetta samrýmist ekki. Maður, sem stendur gegn því að auka fé Vegasjóðs og fordæmir lántökur, hlýtur að sætta sig við það, að framkvæmdir stöðvist. En meiri hl. Alþ. vill auknar framkvæmdir, og meiri hl. Alþ. talar og hugsar í samræmi við það, sbr. það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að af því að hann vill auknar framkvæmdir í vegamálum, þá styður hann hækkun benzínsins, af því að það á að verja benzíngjaldinu til aukinna vegaframkvæmda.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. hugsaði heldur ekki alveg rökrétt, er hann var að tala um það, að það mætti ná þessum 29 millj. með því að ná í það fjármagn, sem væri útistandandi hjá ýmsum innheimtumönnum ríkissjóðs. Ég held, að það sé nú allt annar kassi eða allt annað hólf. sem þeir peningar hljóta að fara í. Hv. 1. þm. Norðurl. v. er búinn að vera með í því að afgreiða fjárl., og hann veit, að það fé, sem er útistandandi hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, á að fara í ríkissjóð. Og það er búið að ráðstafa þessu fé, þó það sé ekki komið í ríkiskassann. En það, sem hér er um að ræða, þessi króna, sem við ætlum að hækka benzínið um, á að fara í Vegasjóð. Það er allt annar kassi, allt önnur fjárhirzla, sem það á að fara í, og verður ekki fært þar á milli, og það hélt ég, að hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði sér alveg ljóst. Hv. 1. þm. Austf. var að tala um það, að það yrði að gera þessar ráðstafanir, vegna þess að ríkissjóður hefði ekki látið af hendi meira af umferðinni til vegamála. Það er þetta, sem oft hefur verið talað um hér í Alþ.. að ríkissjóður fái of stóran hlut af umferðinni til sín og þess vegna fái Vegasjóður ekki nægilegt fjármagn. En hefur þetta ekki alltaf verið þannig, að ríkissjóður hafi tekið drjúgan hluta af umferðinni til sín? Skyldi það ekki einnig hafa verið, er hv. 1. þm. Austf. var fjmrh.? Víst var það, að þá fór mestur hluti af benzínskattinum í ríkissjóð. En ríkissjóður greiddi að vísu aftur til vegaframkvæmdanna, og 1958 var varið til vegaframkvæmda, þ.e. síðasta árið, sem hv. 1. þm. Austf. réð yfir ríkiskassanum, 84 millj. kr. Samkv. þeirri vegáætlun, sem hér er um að ræða, verði þetta frv. samþ., þá fara til vegaframkvæmda á sjötta hundrað millj. kr. á einu ári, eða nær átta sinnum meira heldur en 1958. Og þegar það er borið saman við vegagerðarvísitöluna, hvað hún hefur hækkað, sjáum við það, að fjármagn til vegamála hefur stórum aukizt, það hefur margfaldazt, og vitanlega varð það að aukast vegna aukinnar umferðar og vegna aukinnar kröfugerðar alls almennings um bætta vegi, og þetta þurfum við ekki að metast um. En ríkissjóður þarf á sínu að halda nú eins og hann þurfti fyrir 10–12 árum. Þannig hefur þetta alltaf verið, að ríkissjóður hefur þurft á sínu að halda. og það liggur alveg ljóst fyrir, að ef taka ætti 1–2 hundruð millj., sumir segja, að það eigi að taka miklu meira frá ríkissjóði af þeim tekjum, sem hann nú fær, af því sem kallað er af umferðinni, þá yrði að afla fjár til handa ríkissjóði með öðrum hætti. Það yrði að leggja á nýja skatta eða auka tolltekjur ríkissjóðs til þess að brúa það bil, sem kæmi, ef af ríkissjóði væri tekið það, sem hann nú hefur. það, sem hv. þm. Austf. kallar tekjur af umferðinni. Um þetta hefur nú svo oft verið talað hér, að það er ekki ástæða til þess að fara fleiri orðum um það, enda skilja allir þm., hvað hér er um að ræða. Það var minnzt hér áðan á 47 millj. kr., sem voru í fjárl., en voru teknar þaðan út, að það hafi ekki verið staðið við samkomulag, sem gert var, er vegalögin voru sett, en ég held, að það sé búið að bæta fyrir það. Það hefur verið létt af ríkissjóði miklu meiru heldur en því, sem því nemur, og hv. 1. þm. Austf. sér ástæðu til þess að hafa orð á því og þakka fyrir það, að ríkisstj. hefði nú eiginlega borgað þá skuld, sem hann hefur oft verið að kalla eftir undanfarið, og það er ekki nema rétt hjá hv. þm., að nú tekur ríkissjóður á sig að greiða árlega hærri upphæð heldur en nemur þessum 47 millj. kr., og þá held ég sé ekki lengur ástæða til þess að tala um þær.

Hv. 1. þm. Austf. vill gera stórátök í vegamálum, og þar er ég honum algjörlega sammála, en ég veit, að sá ágæti og reyndi maður gerir sér alveg fyllilega grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir því nú, hvað hægt er að verja miklu fé árlega til vegaframkvæmda, eins og var. þegar hann var fjmrh. og ríkissjóður greiddi þá allt, sem til veganna fór. Á síðasta ári, sem hann fór með völd, þá treysti hann sér ekki að láta nema 84 millj. kr. til vegaframkvæmda, sem vitanlega var allt of lítið þá, og ég veit, að hv. þm. viðurkennir það, að það er tiltölulega miklu meira, sem nú er látið til vegaframkvæmdanna heldur en þá var, enda þótt við séum sammála um, að það væri æskilegt, að það væri meira. Og þess vegna er það, að flestir hv. alþm. í öllum flokkum eru sammála um það að hækka benzíngjaldið til þess að geta aukið framkvæmdirnar. Það er náttúrlega ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að eins og vegáætlunin hefði verið lögð fram, þá hafi verið gert ráð fyrir því, að það yrði hætt við alla nýbyggingu vega nema hraðbrauta, það er náttúrlega ekki rétt. En fjvn. og aðrir hv. alþm. voru sammála um það, að það væri æskilegt að auka við þetta, það væri of lítið, sem væri hægt að framkvæma, án þess að tekjurnar væru auknar.