08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

250. mál, vegalög

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Mig langar að koma á framfæri einni ábendingu til hv. n., sem fær þetta frv. til athugunar. Ég ætla ekki að blanda mér að öðru leyti í þær umr., sem hér hafa farið fram. En það er 1 . gr. frv., þar stendur, að vegurinn nái til þriggja býla, þannig að hann nái að 3. býli frá vegarenda. Þannig er þetta í núgildandi vegal., þar sem talað er um landsbrautirnar. Þannig er þetta í núgildandi vegalögum, en þar eru allt sýsluvegir, sem eru frá 3. bæ og til enda. En ég ætla að minna á, að í nál. vegalaganefndar, sem undirbjó þau vegalög, sem við höfum búið við síðustu árin, var einmitt gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir 3. býli væri það 4. býli. Ég ætla sérstaklega að beina því til hv. n. að athuga, hvort það sé ekki rétt að taka upp þessa reglu. Ég er þeirrar skoðunar, að við ættum að auka sýsluvegina, sýsluvegakerfið, að verulegu leyti. Til þess þarf einnig aukið fé, en þarna mun ekki vera um mjög mikla lengingu að ræða, þó nokkra, en við höfum yfirleitt komizt að þeirri niðurstöðu — sem höfum velt þessum málum fyrir okkur á þeim tíma, sem liðinn er síðan vegal. voru sett — að það hafi í raun og veru verið rétt sjónarmið, sem vegalaganefndin hafði í upphafi að því er sýsluvegina snertir. Ég skal játa það, að ég var ekki sammála því á sínum tíma, en ég tel mig ekki minni mann fyrir það, þó að ég hafi síðar komizt að raun um annað, og ég er þeirrar skoðunar, að þetta hafi verið rétt. Ég ætla ekki að bera fram neina sérstaka till., en ég ætla að beina þessu eindregið til hv. n. að athuga, hvort það væri ekki rétt að gera þessa breytingu nú á 1. gr. að því er sýsluvegina snertir, að þar sé miðað við 4. býli í stað 3.