08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

250. mál, vegalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. sagði hér áðan, að það væri nú eiginlega ekki rétt, að það væri sama og ekkert fé til nýbyggingar vega. Ég held, að við höfum athugað það, og ég man ekki betur heldur en það kæmi í ljós, að framkvæmdamáttur vegafjárins mundi hafa lækkað yfir 40% frá því, sem áður var. Það kann að vera, að hæstv. ráðh. telji þetta aðeins smámuni, en í okkar augum eru þetta engir smámunir. Það náttúrlega kemur til af skiptingunni, hvernig hún er. Meginféð, eins og þessi vegáætlun var lögð fram, átti að fara í hraðbrautir og svo ekkert lítill hluti til þess að greiða rentur og afborganir af lánum, sem hvíldu á þessum vegum, eins og þetta var lagt fram. Hæstv. samgmrh. las upp hér tölur um, hvernig benzínverðið yrði hér og í öðrum löndum eftir að þessi hækkun, sem hér er rætt um, yrði á benzíninu. En ég skil nú ekki í, að þetta segi í raun og veru mikið. Vill ekki hæstv. ráðh. upplýsa það, hvernig almenningur í þessum löndum stendur að vígi til þess að kaupa benzínið? Hvað þurfa þeir margar mínútur í þessum löndum öllum til þess að vinna fyrir hverjum lítra? Er það ekki raunhæfari samanburður heldur en tala um krónuupphæðina? Það væri mjög fróðlegt, að það kæmi fram hjá ráðh., og ég skil ekki þessi rök. Hins vegar vitum við allir, að það er full þörf á því að gera meira og langtum meira heldur en hægt verður, jafnvel þó að þetta frv. verði samþ.