08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

250. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. minntist á nokkur atriði, sem ég tók fram áðan. Ég vil segja aðeins örfá orð út af því. Hann sagði, að ríkissjóður hefði alltaf hirt meiri tekjur af umferðinni en lagt hefði verið til veganna og því væri það ekkert nýtt, sem gerzt hefði í þessum efnum á undanförnum árum, og þannig mundi þetta hafa verið, þegar ég fór með fjármál ríkissjóðs. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, sem ég held, að hann hljóti nú að minnast, að það hefur verið sýnt fram á, að þessu var alveg öfugt farið á þessum árum, því þá var meira lagt til veganna en beinar tekjur ríkissjóðs voru af umferðinni. En þetta hefur einmitt snúizt við á síðustu árum. Ef hæstv. ráðh. og hans félagar hefðu haft sömu stefnu áfram, hefði verið öðru vísi ástatt hér í vegamálum nú en raun ber vitni um. Framhjá þessu er ekki hægt að komast, og það er sú sorglega staðreynd, að í þessu efni var breytt um stefnu í óheillaátt.

Hæstv. ráðh. sagði, að 1958 hefði verið varið til vega 80 millj., en nú væri meiningin að verja nálega 500 millj. og allir sæju, að meiru ætti að verja til veganna nú en þá, jafnvel þó að ekkert væri gert umfram það, sem vegáætlunin gerði ráð fyrir. Eitthvað á þessa lund mun það hafa verið, sem hæstv. ráðh. hélt fram. En ég vil vara hæstv. ráðh. við þessu sífellda tali um það, sem gerðist fyrir 10 árum. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þeir, sem snúa andlitinu aftur, komast aldrei neitt áfram, og þess vegna er skynsamlegra fyrir þá, sem eiga að ráða málum landsins, að horfa fram, horfa á þau verkefni, sem fyrir liggur að leysa í dag. Samanburður af þessu tagi hefur sem sé ekkert gildi vegna þess, að það er gerólíkt ástatt nú og var fyrir 10 árum. Flutningaþörfin er allt önnur, bílafjöldinn í landinu er allur annar, jafnvel byggðin í landinu hefur sætt byltingu á þessum 10 árum. Segja má t.d., að þörfin fyrir varanlega vegi hér í þéttbýlinu sé orðin margfalt meiri en hún var þá. Þetta allt saman gerir það að verkum, að þessi samanburður hefur ekkert gildi og er bókstaflega hættulegur fyrir landið, á meðan ráðh. hefur eitthvað að segja í þessum málum. Og þetta, sem hæstv. ráðh. sagði, er því miður ekki eina dæmið um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hættir við að horfa alltaf um öxl og hnýtur því nálega í hverju spori, eins og allir gera, sem venja sig á slíkt. Það er bókstaflega enga lærdóma hægt að draga af þessari mynd, sem hæstv. ráðh. dró upp.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki ástæða til þess að vera alltaf að klifa á þessum 47 milljónum, sem átti að leggja af ríkisfé í Vegasjóðinn. En þetta voru þó samningar, sem gerðir voru, þegar vegal. voru sett, en í þeim voru lagðir skattar á benzínið og stjórnarandstaðan var með því að leggja á þessa skatta með því skilyrði, að ekki yrði minna lagt af ríkisfé fram til veganna en þá var gert, sem sé 471/2 millj. Það er sorglegt að þurfa að segja það, að hæstv. ráðh. sveik þetta samkomulag, því hann lét eftir eitt ár taka þessa fjárhæð út af fjárl. Hæstv. ráðh. þarf ekkert að vera hissa, þó að mönnum sé þetta minnisstætt og þó ástæða þyki til að halda þessu á lofti, vegna þess að sem betur fer er þetta nálega einsdæmi. Og ég held, að ég megi segja, að öll þau ár, sem ég hef starfað í þessum málum, þá hef ég sjaldan tekið þátt í samningum, sem ekki hefur verið staðið við, þótt þetta sé því miður ekki í eina skiptið. En við þetta var ekki staðið, og þess vegna þarf hæstv. ráðh. ekki að halda, að þessu verði gleymt. Þetta er dæmi, sem verður sagt frá af og til, til viðvörunar. Hæstv. ráðh. verður að hljóta þá refsingu fyrir framkomu sína í þessu máli, auk þess sem slíkt er nauðsynlegt til þess að veita mönnum aðhald við efndir slíkra samninga, en það er ekkert hégómamál, þegar gerðir eru pólitískir samningar, hvort við þá er staðið eða ekki. Hvar stöndum við, ef ekki er hægt að treysta slíkum samningum? Þess vegna verður þessi atburður aldrei máður úr sögunni, jafnvel þó hæstv. ráðh. gangi fram í því að fá einhverjar skuldir færðar yfir á ríkissjóð, sem hvíla nú á Vegasjóðnum.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði ofmælt, þar sem ég hefði haldið fram, að eins og vegáætlunin kæmi frá ríkisstj. ætti nálega að fella niður allar nýlagningar þjóðvega í 4 ár, nema hraðbrautir. Þetta sagði ég, og við þetta stend ég, og þetta er hægt að sýna með því að fara gegnum vegáætlunina og sundurliðunina, sem nú liggur fyrir um uppástungur um fjárveitingu til einstakra vega. Þetta eru engar ýkjur, og þetta er ekki mín persónulega skoðun, heldur vitneskja allra þeirra, sem þetta hafa séð og lesið. Ef farið er í gegnum þessi mál. sjáum við, að það eru nálega engar fjárveitingar í nýja vegabúta af þjóðbrautum og landsbrautum, nema til þess að greiða lán, sem áður er búið að taka og vinna fyrir, afborganir og vexti, það eru ekki nýlagningar, og svo til þess að leggja vegabúta í sambandi við endurbyggingu brúa. Þegar þetta er tekið frá, er nálega ekkert eftir. Og um þetta getum við auðvitað talað seinna eins og hæstv. ráðh. sagði, þegar vegáætlunin kemur úr nefnd. Þó að við séum nú sammála um að bæta úr þessu, þá er þetta samt sem áður þýðingarmikið atriði af þeirri einföldu ástæðu, að það sýnir, hvernig hæstv. vegamálaráðh. datt í hug að afgreiða þessi mál. Það er nú það. Þess vegna hefur þetta verulegt gildi. Við höfum staðið frammi fyrir þeirri staðreynd, og við stöndum frammi fyrir henni, eins og ég sagði áðan, að það fæst ekki meira af ríkisins fé í vegagerðirnar. Þá eigum við um það tvennt að velja að sætta okkur við það eða semja um að bera þann bagga, að leggja 1 kr. á benzínið. Og þá er ég og þeir, sem hugsa svipað og ég í okkar flokki, ráðnir í að bera þann bagga. En það er með það ástand fyrir augum, sem ég hef verið að lýsa. Það er við þær kringumstæður, sem við tökum þennan bagga á okkur. Aðrir hugsa öðruvísi, eins og t.d. kom hér fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., og það sjónarmið á vitanlega fullkomlega rétt á sér að segja sem svo: Ég beygi mig alls ekki fyrir þessu og tek ekki neinn þátt í að leggja meiri álögur á benzínið og krefst þess, að þessi mál séu færð í heppilegra horf í heild sinni. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti ekki að liggja hv. 1. þm. Norðurl. v. eða öðrum, sem hugsa líkt og hann, mikið á hálsi fyrir að hugsa eins og þeir gera um þetta. Ég tel, að það sé vel hægt að skilja þeirra sjónarmið. En við, sem höfum tekið í þessu tilliti hina leiðina, að fá hvað sem það kostar, svo að segja. meira fé í vegina, við hugsum eitthvað svipað og ég hef verið að lýsa hér. Við gerum það ekki með neinum þakkarávörpum til hæstv. ráðh. Það er langt frá því. Við gerum það af þeirri illu nauðsyn, sem hæstv. ráðh. hefur framkallað.