08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

250. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er svo eftirtektarvert, að þegar minnzt er á liðna tíð, þegar minnzt er á fortíðina, þá kemst hv. 1. þm. Austf. alltaf í slæman ham og liggur við, að hann verði reiður. Og til marks um það var það áðan, að þegar hann var að tala um 47 millj. og það, sem ríkissjóður tekur að sér nú að greiða með vöxtum og afborgunum af lánum, sem hvíla á hraðbrautum, þjóðbrautum og landsbrautum, þá fór hv. þm. viðurkenningarorðum um það. Og þá raunverulega kvittaði hann fyrir þessar 47 millj., sem hann hefur svo oft talað um.

En þegar hann kemur nú upp í ræðustólinn, er eins og hann hafi séð eftir því að hafa gefið þessa kvittun, séð eftir því að hafa verið sanngjarn og telur, að það fari nú bezt á því að fullyrða það, sem hann áður hefur haft í frammi og halda ósanngirninni uppi, úr því að ég gerðist svo djarfur að minnast á fortíðina, að minnast á liðna tíð, því að það er það, sem hv. þm. vill ekki, að menn geri. En vissulega er það nauðsynlegt, bæði hér í Alþ. og eins utan þings, að þjóðin öll geri sér grein fyrir því, hvernig ástandið var í þjóðmálunum, m.a. á þeim tíma, sem hv. 1. þm. Austf. var fjmrh., geri sér grein fyrir því, að þá skorti fé til framkvæmda ekki aðeins í vegamálum, heldur í flestum framkvæmdum á landinu. Og þá dugði ekki að gera kröfur, vegna þess að þá var sagt, að það væru ekki til peningar. Og það er fjarri mér að halda því fram, að það hafi verið af nokkurri illgirni hjá hv. 1. þm. Austf., þegar hann neitaði um fjármagn til framkvæmda og vegamála. Sumpart var það vegna þess, hvernig stjórnarfarið var á þessum tímum, að fjár var ekki hægt að afla, og sumpart var það vegna þess, að árferðið var þannig, að fjármagn var eðlilega ekki til. En svo reyndur þm. sem hv. 1. þm. Austf. er, ætti hann að hafa hreinskilni og dug til þess að viðurkenna, að nú á síðari árum hefur verið varið til framkvæmda, vegamála og annarra uppbygginga í landinu tiltölulega miklu meira fjármagni heldur en áður hefur verið gert. Og það er leiðinlegt, að hv. þm. skuli gera það aðeins óviljandi að fara viðurkenningarorðum um það, sem vel hefur verið gert og tala aðeins óviljandi af sanngirni eins og hann virðist hafa gert hér áðan, að hv. þm. skuli endilega hafa fundið hvöt hjá sér til þess að koma hér upp til þess að taka það aftur, sem hann sagði af sanngirni hér áðan í sambandi við 47 millj. og fara svo að tala um það, að það hafi verið svikið samkomulag, sem gert var við hann og fleiri hér í sambandi við vegal., sem nú er unnið eftir. En það hefur alltaf verið talið Íslendingum til hróss, að þeir séu sögufróðir, bókaþjóð og sögufróð þjóð, og það væri sannarlega illa farið, ef Íslendingar kynntu sér ekki stjórnmálasöguna 30–40 ár aftur í tímann. Og það er vissulega nauðsynlegt, að unga fólkið í þessu landi fletti upp spjöldum sögunnar, stjórnmálasögunni, og líti til baka, en líti einnig fram. Og þegar litið er til baka yfir stjórnmálaferil síðustu áratuga, kemur það vitanlega í ljós, að hv. 1. þm. Austf. hefur ekki alltaf mikið til þess að hrósa sér af. Og það er kannske þess vegna, sem hann kemst í vont skap, þegar á fortíðina er minnzt og hann ráðleggur stöðugt, þegar einhverjum vill það til að minnast á liðinn tíma, að gera það ekki. En sjálfsagt er að horfa fram, en af reynslunni er einnig nauðsynlegt að læra og gera sér grein fyrir því, sem áður hefur gerzt í þessu landi, og þá munu menn vera færari um að gera sér grein fyrir staðreyndum í landi Tímans.