28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Já, ég vil aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans varðandi fyrirheitin í Alþýðublaðinu. Það mál liggur þá alveg ljóst fyrir eftir þetta. Þær fjölskyldur, sem eiga námsmenn erlendis og vilja greiða fyrir þeim, vita þá alveg, hvað til þeirra friðar heyrir. Ég vil enn fremur segja það, úr því að ég er kominn hér upp, að nú vantar það til viðbótar frá hæstv. ráðh., að hann taki sér tíma til þess að útlista það, hvernig íslenzkir námsmenn erlendis eiga að kljúfa það að stunda þar nám eins og nú er komið. Það hefur farizt fyrir hjá þessum hæstv. ráðh. sem og öðrum talsmönnum hæstv. ríkisstj. að gera grein fyrir því, hvernig íslenzkt alþýðufólk á yfirleitt að lifa, eftir að kjaraskerðing gengisbreytingarinnar er komin að fullu til framkvæmda. Þetta hefur ekki verið skýrt almennt. Og nú bætist það við, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, að skýra þetta, hvernig námsmenn erlendis eiga að komast áfram. Og ég held, að hæstv. ráðh. hefði varið ræðutíma sínum betur við útvarpsumr. síðustu með því að skýra þetta fyrir mönnum heldur en að flytja þá ræðu, sem hann flutti þar þá.