12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

250. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. um breyt. á vegal. nr. 71 30. des. 1963 hefur verið afgr. frá Nd. með þeirri breyt., að burt var felld 5. gr. frv., sem kvað svo á að fella niður undanþágur af skólabifreiðum. Hæstv. samgmn. Nd. gat ekki fallizt á þetta, féllst ekki á þá breyt. frv. En það, sem felst í þessu frv., er það að hækka benzíngjald, eins og fram kemur í 4. gr. frv., og að heimila að taka í sýsluvegatölu ýmsa aðra vegi, sem höfðu heyrt til landsbrauta.

Eins og sjá má í 1. gr. frv. er upptalning á undanþáguákvæðum um landsbrautir í 5. málsgr. 12. gr. vegalaga felld niður, þ.e. kirkjustaðir, félagsheimili, opinber skóli eða heilsuhæli, fullgerð raforkuver, kauptún með færri en 300 íbúa eða tenging milli aðalleiða en í staðinn koma orðin „veg að kauptúni.“

Samkv. annarri gr. frv. kemur ný grein eftir 1. málsgr. 19. gr. um sýsluvegi, sbr. niðurfellinguna í 1. málsgr.

Samkvæmt 3. gr. er gerð sú breyt. á síðasta málsl. 2. málsgr. 28. gr., að hinir mörgu smávegir, þ.e. 393 talsins, sem nú færast úr flokki þjóðvega í flokk sýsluvega, hafa ekki bein áhrif á skiptingu ríkisframlags til sýsluvega, að svo miklu leyti sem sú skipting miðast við Lengd sýsluvegakerfis hverrar sýslu. en í 2. málsgr. 38. gr. vegal. segir, að mótframlag ríkisins til hverrar sýslu skuli aldrei vera lægra heldur en helmingur þess, sem viðkomandi sýsla lagði sjálf í sýsluvegasjóð sinn það ár, sem ríkisframlagið miðast við. Á þessu verður engin breyt. en ekki heldur ætlazt til, að viðbót sú við sýsluvegakerfið, sem hér um ræðir, hafi áhrif á skiptingu mótframlagsins, en heildarupphæð mótframlagsins nemur tvöfaldri heildarupphæð innheimtra sýsluvegagjalda næsta ár á undan. Hins vegar er gert ráð fyrir því að auka framlag nokkuð til sýsluvegasjóða á árunum 1970–71 og 1972, til þess að sýsluvegirnir standi ekki verr að vígi heldur en áður var.

Samkv. 4. gr. frv. er lagt til, að benzíngjald hækki um 1 kr. fyrir hvern lítra. Gjaldið er nú 4.67 kr. fyrir hvern lítra, og í aths. er greint frá, hver tekjuaukning Vegasjóðs mundi verða af þessari hækkun á áætlunartímabilinu, en hún er, eins og sjá má, að árið 1969, frá 1. júní, er gert ráð fyrir, að tekjurnar verði 29. 1 millj., en það er vegna þess, að það eru 5 mán. liðnir af árinu og síðustu mánuðir ársins koma ekki inn á þessu ári sem tekjur, heldur teljast sem tekjur á árinu 1970, og 1970 er gert ráð fyrir, að tekjuaukningin nemi 72.1 millj., 1971 76.8 millj. og 1972 82.6 millj. Þessar tekjur til vegakerfisins bætast við þær till., sem fylgdu þeirri till. til vegáætlana, sem hefur verið til meðferðar nú að undanförnu á árunum 1969–1972.

Nú heyrast þær raddir, að benzínverð hér á landi sé orðið það hátt, að á það sé ekki bætandi og þess vegna sé vafasamt um réttlæti þessa frv., en þess ber að geta, að benzínverð hér á landi er ekki hátt miðað við það. sem gerist í nágrannalöndunum, Ef við athugum okkar nágrannalönd, þá kemur í ljós, að á Íslandi er benzínverð nú 11 kr. og verður eitthvað rúmlega 12 kr. eftir hækkunina, ef frv. verður samþ., það er benzín af beztu tegund, 93 oktan, en í Noregi er benzínverð 14.90 til 15.40, það er misjafnt verð eftir landshlutum, en þetta er lakara benzín, það er 90, og í Danmörku 90 á 14.65, í Svíþjóð aðeins betra benzín, 94 oktan, 15–15.50, í V-Þýzkalandi 13,45, það er ekki getið um tegund benzíns, í Hollandi er það 87 oktan, 12.45–12.90, Skotlandi 91 oktan, 12.90–13.95, Í Englandi 91 oktan, 12.60–12.80.

Af þessu má sjá, að benzínverð hér er talsvert lægra þrátt fyrir þessa hækkun, heldur en gerist í nágrannalöndunum, og munu margir telja, að það sé ekki eðlilegt, þar sem við búum í strjálbýlu landi með löngu vegakerfi, þar sem mikið er ógert, enda býst ég við því, að allur almenningur, þegar hann áttar sig á þessu, telji ekki benzínið dýrast, heldur miklu frekar kaupverð bílanna sjálfra og ýmsa varahluti til þeirra.

Það liggur í augum uppi, að um leið og við gerum kröfur um bætta vegi, sem allir gera núna í auknum mæli, þá verður að tryggja tekjur til Vegasjóðs. Tekjur Vegasjóðs verða nú, sérstaklega ef þetta frv. verður samþ., allmiklu hærri heldur en á síðasta áætlunartímabili. Á síðasta áætlunartímabili eftir endurskoðunina. sem fram fór 1967, voru tekjur Vegasjóðs á árunum 1965–1968 1487.4 millj. kr., en á tímabilinu 1969–1972 yrðu þær 2480.6 millj. Þetta er 67% hækkun, en á þessu tímabili hefur vegagerðarvísitalan hækkað um ca. 35%. Með því að vélakosturinn hefur batnað talsvert nú í seinni tíð og vegagerð að því leyti ætti að nýtast betur og vegagerðarvísitalan hefur ekki hækkað þó meira heldur en þetta er ljóst, að það er meira fjármagn til vegagerðarinnar nú, heldur en áður hefur verið, enda er ætlað að ráðast í ýmsar framkvæmdir nú umfram það, sem áður hefur þótt fært að gera. Til viðbótar þeirri tekjuaukningu, sem leiðir af benzínhækkuninni, hefur ríkissjóður fallizt á að taka að sér að greiða vexti og afborganir af þeim lánum, sem hvíla á landsbrautum. Um leið og till. til vegáætlunar var lögð fram þá lýsti ég því yfir, að ríkissjóður hefði fallizt á að taka að sér að greiða á árunum 1970–72 vexti og afborganir af láni, sem hvílir á Siglufjarðarvegi, en það eru tæpar 9 millj. kr. á ári. En til viðbótar þessu tekur ríkissjóður að sér að greiða öll önnur lán landsbrauta og þjóðbrauta, og nemur þetta 53.5 millj. kr. á áætlunartímabilinu. Þá hefur verið fyrir því séð að létta greiðslum af Vegasjóði af þeim lánum, sem hvíla á hraðbrautum, að öðru leyti en því, að Vegasjóður mundi áfram greiða 6.8 millj. á ári í vexti og afborganir af Reykjanesbraut. En á þessu ári greiðir ríkissjóður vexti og afborganir af lánum, sem hvíla á hraðbrautum, 39 millj. kr., og verður það aðeins minna ár hvert en 1970, 1971 og 1972. En greiðslur vaxta og afborgana á þessum árum, sem ríkissjóður tekur að sér, nema 255.8 millj. kr.

Það er ekki margt meira um þetta frv. að segja út af fyrir sig. Ljóst er, hver tekjuaukningin verður, sem af þessu leiðir. Það kom í ljós, þegar fjvn. ætlaði að fara að afgreiða till., að fjárveitingarmönnum fannst landsbrautir og þjóðbrautir fá of lítið fé með því að samþykkja till. óbreytta. Þess vegna var það, að fjvn. öll samþykkti áskorun um það að hækka benzínverðið eins og hér greinir til þess að hækka það fjármagn.

Herra forseti. Mér er tjáð, að það vanti atkv. í Nd., og af því það hefur aldrei áður skeð, að ég væri truflaður í miðri ræðu til þess að fara í aðra deild í atkvgr., þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvað hæfir í þessu efni. Á ég að gera hlé á ræðu minni og fara til atkvgr., eða vill hæstv. forseti bara gera svo vel að bíða í eina mínútu á meðan ég geng yfir? (Forseti: Það er sjálfsagt að verða við þeim tilmælum að fresta umr. örstutta stund, ef óskað er eftir.) — [Fundarhlé.]

Sumir hv. þm. hafa nú sagt, að ef till. hefði verið samþ. óbreytt, þá hefðu engar framfarir orðið við landsbrautir eða þjóðbrautir. Þetta er náttúrlega ekki rétt, en hitt get ég viðurkennt, að vitanlega er æskilegt að auka fjármagn til þjóðbrauta og landsbrauta, því þörfin er brýn um allt landið. Það dylst engum, það eru auknar kröfur, sem koma fram hjá þjóðinni. Það þykir ekki nóg nú, sem áður þótti gott, og þrátt fyrir það, þótt vegakerfið hafi farið stórum batnandi undanfarin ár, þá vitanlega er ákaflega margt ógert enn þá í okkar vegamálum. Og við gerum ráð fyrir því að auka fjármagn til veganna nú um 67% frá því, sem ákveðið var, þegar vegáætlunin var endurskoðuð 1967, og leiðir það vitanlega af sér, að vegaframkvæmdir verða allmiklu meiri. Það er gert ráð fyrir því að hefjast handa við gerð hraðbrauta með varanlegu slitlagi og þá fyrst og fremst á þeim leiðum, sem fjölfarnastar eru. Það er leiðin hér frá Reykjavík og upp að Þingvallavegi og helzt alla leið upp í Kollafjörð. Það eru 2800 bifreiðar á dag, sem fara þennan veg. Þegar komið er upp í Kollafjörð, minnkar umferðin verulega, en á austurleiðinni eru það 1770 bifreiðar, samkv. umferðartalningu í Svínahrauni, og er það fjölfarnasti þjóðvegurinn, þegar Vesturlandsveginum er sleppt. Það sem umferðin er orðin svona mikil, þá er tæplega gerandi að halda þessum vegum við sem malarvegum, þótt miklu fjármagni sé til þess varið, og það er nú enginn vafi á því, að ef það tækist að koma varanlegu slitlagi á þá vegi, sem fjölfarnastir eru og sem dýrastir eru í viðhaldi, þá mundu aðrir njóta þess og fá meira í sinn hlut af því fé, sem notað yrði til vegaviðhalds. Við getum t.d. minnzt þess, hversu mikið vegaviðhaldsfé fór í Keflavíkurveginn gamla á meðan hann var malarvegur. Það var alltaf verið að hefla þann veg, jafnvel kvölds og morgna. Það var verið að reyna að setja ofaníburð í holurnar og halda honum akfærum, en þetta var gersamlega ómögulegt. Það fóru miklar fjárhæðir af viðhaldsfénu í þennan veg á meðan hann var malarvegur, en síðan varanlegt slitlag var sett á hann hefur þetta vitanlega sparazt og meira af viðhaldsfé þess vegna orðið til skipta annars staðar á landinu. Þannig mundi það verða, þegar varanlegt slitlag er komið á veginn hér upp í Kollafjörð og austur yfir fjall. Þá sparast geysilegar upphæðir í viðhaldsfé, sem nýtast annars staðar á landinu. Þess vegna kemur það öllum landsmönnum til góða, ef það mætti takast að koma varanlegu slitlagi á fjölförnustu vegina. En það er bezt að játa það og gera sér alveg grein fyrir því, að það verður ekki hægt að gera stórátök eða að gera varanlega vegi á stuttum tíma nema til þess fáist lánsfé og lánsfé til vegaframkvæmda má ekki taka nema hagstæð lán fáist. Það þarf að vera til langs tíma, og það þarf að vera með vægum vöxtum. Samkv. þeirri till., sem nú liggur fyrir um vegaframkvæmdir hraðbrauta, er gert ráð fyrir lántökuheimild allt að 800 millj. kr. í þessu skyni. Á það reynir, hvort slíkt lán fæst, sem þykir fært að taka til vegaframkvæmda, sem verður að vera hagstætt lán.

Herra forseti, ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.