13.05.1969
Efri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

250. mál, vegalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Í grg. varðandi 2. gr. þess frv., er hér um ræðir, stendur: Í b-lið er hins vegar tekið fram, að vegir að kirkjustöðum, félagsheimilum, opinberum skólum og heilsuhælum skuli vera í tölu sýsluvega, þ.e. þeir vegir, sem áður voru landsbrautir. samkv. undanþáguákvæðum 12. gr. vegal.

Hér er að vísu ekki um stórt mál að ræða, og er breyt. þessi til sparnaðar fyrir Vegasjóð ekki stórvægileg, en aftur á móti eru tekjur sýsluvegasjóða ekki miklar miðað við þau verkefni, sem fyrir liggja. Þau sýslufélög, sem engin kauptún hafa, eru mörg með í kringum hálfa millj. kr. í árstekjur, og nægir það vart fyrir svo mikið sem hálfum km í nýbyggðum vegi samkv. þeim upplýsingum, sem Vegagerð ríkisins telur meðalkostnað við km í vegi, frá 800 þús. upp í 1.2 millj. kr.

Í till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1969 til 1972 er á bls. 53 gerð grein fyrir sýsluvegum. Þar kemur það fram, að sýsluvegir lengjast á þessu ári um 430 km og verða því alls 2572 km. Eins og hv. þm. rekur minni til, féll úr gildi við s.l. áramót hið svokallaða 5 ára ákvæði vegalaganna, en það var um það, að vissir vegir, sem voru komnir áður í þjóðvegatölu, en voru teknir inn samkv. nýju vegal. aðeins til 5 ára, féllu allir út við s.l. áramót og lengja því talsvert sýsluvegakerfi landsins. En engar auknar tekjur fá þó sýsluvegasjóðirnir samkv. því frv., sem hér um ræðir, utan l millj. kr. á ári, sem er fylgifé með b-lið 2. gr., þ.e. þeirra staða, sem ég taldi upp í byrjun míns máls. Hér er gert tvennt í einu, annars vegar eru lagðar nýjar álögur á þegna þjóðfélagsins með hækkun á benzínskatti um 1 kr., og á hinn bóginn veltir Vegasjóður af sér verkefnum, sem honum voru ætluð samkv. vegal. í upphafi. Nú veit ég það vel, að Vegasjóður hefur ekki úr miklu fé að moða miðað við verkefni. og ég vil taka það fram, að ég styð þá tekjuöflun, sem frv. þetta felur í sér, og það geri ég af illri nauðsyn, því af tvennu illu vil ég heldur borga benzínskattinn en horfa fram á það, að vegir verði illfærir áfram, og það kostar líka sína peninga að eyða benzíni á slæmum vegum og eyðileggja einnig bíla á vegleysum, þannig að ég hygg, að þegar þessi mál eru tekin til athugunar hvort tveggja í senn, þá verði benzínskatturinn hagfelldari, heldur en aka áfram á vondum vegum og eygja enga bót á vegakerfinu framvegis. Og með tilliti til þess styð ég þessa tekjuöflun. Ég þekki það af eigin raun, að sýsluvegasjóðir geta ekki svo vel sé bætt við sig auknum verkefnum og leyst þau nema til komi auknar tekjur hjá þeim. Ég er á móti b-lið 2. gr. og óska eftir, að þegar kemur að atkvgr. um þetta mál, þá verði hann sérstaklega borinn undir atkv. Ég sé ekki ástæðu til að bera fram till. að þessu sinni um auknar tekjur fyrir sýsluvegasjóði, en hjá því verður ekki komizt til lengdar, þar sem þeir eru nálægt því fjórði hluti af vegakerfi landsins, en hafa þó ekki nema u.þ.b. 20 millj. kr. í árstekjur, bæði til viðhalds og nýbyggingar. En aftur á móti hafa þjóðvegirnir um 200 millj. kr. til nýbyggingar og viðhalds. Sýsluvegasjóðir hafa samkv. vegáætlun 1968 1 kr. á móti hverjum 10 kr., sem þjóðvegakerfið hefur í árstekjur, en sýslurnar þurfa hins vegar að sjá um hvern einn km á móti hverjum þremur, sem tilheyrir þjóðvegakerfinu. Hér er því augljóst mál, að það hallar verulega á sýslufélögin og ekki hvað sízt, þegar haft er í huga, að oftast eru það þau sýslufélögin eða þær sýslurnar, sem fámennastar eru, sem hafa jafnframt lengstu sýsluvegina. Hér þarf því aukinn jöfnuð frá því sem nú er á milli sýslufélaganna innbyrðis samhliða því, sem sýsluvegasjóði vantar aukið fjármagn til þess að valda verkefnum sínum. Ég vildi láta þetta sjónarmið koma fram nú, enda þótt ljóst sé, að þeir er völdin hafa hlusti frekar eftir öðru um þessar mundir en á þær raddir, sem tilheyra útkjálkabyggðum.