17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. og ætla ekki að fara að bæta neinu við það, sem hér hefur komið fram frá hæstv. forsrh. Ég er alveg sammála í meginefnum þessu frv.. en vildi aðeins segja þó örfá orð frá dálítið öðrum sjónarhóli heldur en hér hefur komið fram, þó að mönnum kannske í fljótu bragði kunni að þykja það einkennilegt.

Það hefur verið vakin athygli á því af hæstv. forsrh., að þó að hér sé gert ráð fyrir að leggja línur um framtíðarstefnu varðandi Stjórnarráðið um fjölgun rn., sem í fljótu bragði virðist gefa til kynna, að um stórfellda útþenslu sé þar að ræða, og auðvitað mundi verða þar, ef ætti að framkvæma þetta í einstökum atriðum, þá liggur það ljóst fyrir, að það er ekki hugmyndin að gera það nú, og það er ákveðin stefna ríkisstj., að ekki verði ráðizt í neina útþenslu á þessu sviði eins og nú standa sakir. Og vitanlega þarf það ekki að leiða til neins í þeim efnum, þó að þarna sé mörkuð ákveðin stefna, vegna þess að það er á valdi ríkisstj. nú að stofna nýjar stjórnardeildir. Það er auðvitað eðlilegt, að af hálfu fjmrh. sé lögð áherzla á þetta atriði, en mönnum kann, eins og ég sagði, að þykja það kannske einkennilegt, en ég vil þó taka það fram, að ég álít það ekkert höfuðatriði til þess að stuðla að sparnaði í ríkiskerfinu, að endilega verði séð um það, að Stjórnarráðið ekki stækki. Það er alger misskilningur. Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að of veikt stjórnarráð getur gert að engu alla viðleitni til þess að koma við endurskipulagningu í ríkiskerfinu, því að ef stjórnardeildirnar ekki hafa aðstöðu til þess að beita sér fyrir slíkum skipulagsbreytingum, hafa mannafla til þess að framkvæma þær rannsóknir, sem til þess þarf að gera, missum við þetta allt úr höndum okkar. Þannig að sannleikurinn er sá, að á erfiðleikatímum er það síður en svo, að það megi teljast sem nr. 1 að sjá um, að það eigi sér ekki stað nokkur fjölgun starfsmanna í stjórnardeildum. Ég skal játa það sjálfur, að ég hef átt hlut að því sem fjmrh. að stofna nýja stjórnardeild, og ég álít, að það hafi verið mjög gott verk og það hafi skilað þjóðfélaginu verulegum sparnaði, og á ég þar við fjárlaga- og hagsýslustofnunina. En tilkoma þeirrar deildar hefur gert mögulegt að taka skipulagsmál ríkiskerfisins allt öðrum tökum. Við höfum núna starfskrafta, þó að mjög takmarkaðir séu, til þess að taka til rannsóknar viðfangsefni, sem engin leið var að sinna áður. Og það hefur komið í ljós, að margir þættir ríkiskerfisins hafa þróazt með óeðlilegum hætti fyrst og fremst vegna þess, að það hafa ekki verið tök á því að hafa eftirlit með þessari þróun. Og það hefur jafnframt komið í ljós við þessa eflingu fjmrn., að í rauninni eru ýmis önnur rn. of veik, þannig að þau geta ekki sinnt því aðhaldi, sem þarf að vera með hinum einstöku stofnunum. Þær verða í mörgum greinum allt of sjálfráðar og fara sínar eigin götur, og þetta er það, sem hefur komið fram sem megingallinn í þróun ríkiskerfisins. Vissulega er það orðið stórt, og það verður aldrei nógsamlega á það lögð áherzla, að í litlu þjóðfélagi verður að gæta hins ýtrasta sparnaðar og hagsýni varðandi rekstur ríkisstarfseminnar, sem verður auðvitað alltaf hlutfallslega mjög dýr hjá lítilli þjóð. En þetta sjónarmið vildi ég láta koma hér fram, að þótt það sé auðvitað tvímælalaust, að á erfiðleikatímum verður að sporna fótum gegn allri útþenslu — og það væri ekki hagkvæmt, að Stjórnarráðið gengi á undan í því efni — þá vil ég samt leggja áherzlu á það sem æðikunnugur þeirri hlið málsins, að leiðina til sparnaðar mega menn ekki umfram allt telja þá, að það eigi alltaf að byrja á höfðinu eins og menn segja, þ.e.a.s. sjá til þess, að sem allra fæstir menn starfi í stjórnardeildum, þeim deildum, sem eru einu tækin, sem við höfum til þess að hafa aðhald að stjórnsýslukerfinu í landinu. Þetta verður auðvitað að meta hverju sinni og reyna að komast af með það allra minnsta, sem hægt er að komast af með á þessu sviði. En við sjáum það bara stöðugt, eftir því sem þessi mál eru krufin betur til mergjar, að það þarf í ýmsum greinum að efla Stjórnarráðið til þess að ná þessum árangri. Þetta sjónarmið vildi ég aðeins láta koma hér fram við þessa umr., af því að tekið er að ræða málið, sem eðlilegt er, frá því viðhorfi, að við þurfum nú, sem vissulega er rétt, að gæta ýtrasta sparnaðar og talið, að það megi með engu móti þess vegna verða svo, að stjórnardeildirnar megi á neinn hátt eflast. Ég tel, að það megi ekki vera meginsjónarmið og geti ekki verið sú leið, sem liggi til farsældar, og ég vara við því, að menn mega ekki, þótt allir hafi áhuga á sparnaði, telja, að upphafið að þeim sparnaði eigi að vera það að halda Stjórnarráðinu sem mannfæstu.