24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka allshn. fyrir vinsamlegar undirtektir við þetta frv. Ég hef ekkert að athuga við þær brtt., sem fluttar eru. Þvert á móti tel ég þær til bóta.

Ástæðan til þess, að ég stend upp nú, er sú, að s.l. föstudag — hygg ég það hafi verið —barst mér bréf frá ráðuneytisstjórum í Stjórnatráðinu, þar sem þeir senda mér eins konar álitsgerð eða aths. við frv. Mér er ekki kunnugt um, hvort hv. n. hafi fengið þá álitsgerð einnig, en vafalaust er hún ekki mér einum ætluð, og þó að ég hafi hana ekki við hendina, þá er rétt, að ég skýri frá því, að ráðuneytisstjórarnir virðast vera í meginatriðum andvígir frv., telja höfuðbreytinguna, þá fyrirhuguðu fjölgun rn., sem hér er lögboðin, vera til ills og þá geri ég ráð fyrir einnig það bann við skiptingu rn., sem tíðkazt hefur, því að annan hvorn háttinn verður að hafa á, til þess að svipaðir stjórnhættir á afgreiðslu mála haldist og reynslan hefur skorið úr, að væru nauðsynlegir, þ.e.a.s. að hafa töluverðan sveigjanleik í skiptingu starfa á milli ráðh. Ráðuneytisstjórarnir telja, að með því að gera rn. svo mörg sem hér er ráðgert, muni af því leiða, að þau verði of smá, að þeim geti ekki vaxið svo fiskur um hrygg, sem þeir telja nauðsyn vera á, að það fáist ekki mannafli, er ekki einungis sinni afgreiðslu daglegra starfa, heldur geti einnig unnið að ýmsum frambúðarverkefnum. Ég tek vissulega undir það, að þetta er ágalli á okkar stjórnháttum. En hann kemur fyrst og fremst af okkar mannfæð og af okkar fjárskorti, miklu frekar heldur en menn hafi ekki gert sér ljósa nauðsyn á því, að æskilegt væri að hafa allt stjórnkerfið miklu öflugra heldur en það er. En þrátt fyrir tal margra um hið gagnstæða, hefur mjög verið reynt að halda í fjáreyðslu til handa rn., og af því kemur þessi galli. Ég held, að hann bætist ekki við það, þó að staðið sé á móti þeirri fjölgun rn., sem þetta frv. ráðgerir, og haldið sé hinum hættinum, sem ég hygg þó, að rétt sé að taka fram, að ekki segir berum orðum í álitsgerðinni, að halda beri, en óhjákvæmilega yrði að halda, ef þetta meginatriði yrði ekki samþykkt, þ.e. að sundra ráðuneytisstörfunum svo á milli ráðh. sem verið hefur, sem að mínu viti er einn mesti galli á starfsháttum okkar í Stjórnarráðinu og gerir ákaflega erfiða yfirsýn hjá ráðh. og hans starfsmönnum um málaflokka og einmitt torveldar mjög þá frambúðarráðagerð, sem ætíð verður að vera fyrir hendi. Menn verða að gera sér ljóst, að ef úr þeim galla á að bæta, þá mundi hann að nokkru leyti, að minni sannfæringu, lagast við samþykkt frv., en að öðru leyti verður ekki úr honum bætt nema með því að efla stórlega starfslið í Stjórnarráðinu, og hvað sem öðru líður, þá erum við væntanlega sammála um, að einmitt nú sé ekki tíminn til þess. Ég er því á allt annarri skoðun heldur en hinir ágætu ráðuneytisstjórar, þó að ég teldi sjálfsagt, að frá þeirra skoðun væri skýrt, því að þeir hafa mikla reynslu fram að færa og virðast vera sammála um þessa skoðun sína.

Þá telja þeir einnig, að það mundi leiða til árekstra og samkeppni á milli atvinnuvega frekar en orðið er, ef höfuðatvinnugreinarnar fengju hver sitt rn. eins og samkv. þessu frv. er ætlað. Mér kemur þessi skoðun gersamlega spánskt fyrir og held, að hún standist ekki með nokkru móti. Niðurstaðan hefur orðið sú, eins og við vitum, að hið gamla atvmrn. er nú þegar orðið margsplundrað. Þróunin hefur óhjákvæmilega leitt til þess og hlýtur að leiða til þess, að það fáist sérfræðingar í hverri af þessum höfuðatvinnugreinum til þess að starfa að málefnum hennar og leggja sig þar fram um afgreiðslu, en reyni ekki að spanna yfir málin á sama hátt eins og áður fyrri var gert. Það þarf miklu dýpri orsakir til þess að koma af stað skaðsamlegri samkeppni á milli höfuðatvinnugreina heldur en slíkar ráðstafanir sem hér er um að ræða, og fæ ég því ekki séð, að sú aths. skipti hér miklu máli.

Þetta eru höfuðaðfinningarnar við frv. frá ráðuneytisstjórunum, en ég tel sjálfsagt, að n. fái þeirra grg. og málið verði ekki afgreitt út úr d. fyrr heldur en hún skoði þau rök, sem þar koma fram. Ef menn óska, er hægt að prenta það í framhaldsnál. eða grg. einnig til athugunar fyrir þingheim.

Margt af aths. er um smekksatriði og annað slíkt, sem endalaust má deila um. Það er þegar búið að taka tillit til þess að breyta heitum á þeim rn., þar sem það á við. Annað er það, að bæði ráðuneytisstjórar og starfsmenn Stjórnarráðsins benda á, að forseti Íslands gefi aldrei út reglugerðir. Þetta er að mínu viti orðaleikur. Það þekkist a.m.k. og er boðið í lögum, að forseti Íslands staðfesti reglugerðir, sbr. háskólareglugerðina, sem hann staðfestir. Hvort það sé fallegra að kalla slíka viðbótarreglugjöf, eins og á sér stað með reglugerðum, úrskurð eða tilskipun, eins og er frá fornu fari af dönskum uppruna gert, eða reglugerð, það getur ekki skipt miklu máli. Það er frekar smekksatriði heldur en það skipti miklu máli. Þetta voru höfuðatriðin, sem fram komu, og það er vissulega sjálfsagt, að menn geri sér grein fyrir þeim málefnalega ágreiningi, sem hér virðist vera a.m.k. á milli mín og ég hygg ríkisstj. í heild og annarra þeirra, sem lengi hafa að þessum málum starfað, sbr. ummæli hv. 1. þm. Austf. við I. umr. á annan bóginn og hins vegar þeirra manna, sem hafa unnið í Stjórnarráðinu sem ráðuneytisstjórar og vissulega ber að hlusta á, hvað um þessi efni segja.