17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. tók fram, varð n. sammála um þetta frv., svo langt sem það nær, þ.e.a.s. nm. voru sammála því, að þeir aðilar, sem taldir eru upp í frv., skyldu fá jafnrétti við aðra til þess að njóta aðstoðar frá Lánasjóði íslenzkra námsmanna. Hins vegar erum við því aðeins að opna þarna nýjan rétt, að sjóðurinn sé þess megnugur að standa undir þeim rétti. Ef hann megnar það ekki, erum við í rauninni að gera bjarnargreiða, bæði þeim sem átt hafa aðild að þessum sjóði, og þeim sem verið er að bæta við. En eins og allir vita, er þessi sjóður engan veginn þess megnugur að veita þá aðstoð, sem nú þarf á að halda. Ástæðan er fyrst og fremst gengislækkanir þær, sem framkvæmdar hafa verið, tvær á einu ári. Þessar gengislækkanir hafa raskað högum íslenzkra námsmanna erlendis ákaflega mikið. Kostnaður þeirra af náminu erlendis hefur yfirleitt tvöfaldazt á einu ári. Hins vegar hafa námslán og námsstyrkir úr þessum sjóði aðeins hækkað þannig, að upphæðin er óbreytt í erlendum gjaldeyri. Meginhluti tilkostnaðarins hvílir enn sem fyrr á námsmönnum sjálfum og hann verða þeir að bera af eigin rammleik eða með aðstoð aðstandenda sinna eða á einhvern annan hátt. Þarna er um ákaflega stórfellda bagga að ræða.