12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þar sem ég skil svo sem menn kjósi heldur að sleppa við kvöldfund og málið er nú komið nokkuð í eindaga, ef það á að ná fram að ganga á þessu þingi og hér verður samþ. eitthvað af brtt., þá skal ég mjög stytta mál mitt. Enda þótt brtt. séu allmargar, þá eru menn sammála um meginatriði málsins, og er ég þakklátur fyrir þær undirtektir.

Ég get nú að mestu vitnað til þess, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði um frv. Ég vil þó taka fram, að ég er honum ósammála í því efni, er hann taldi, að utanrrn. og viðskmrn. ætti að vera eitt og hið sama. Ég tel, að slíkt sé ekki framkvæmanlegt. Hvort sem menn vilji hafa rn. mörg eða fá, þá hljóti viðskmrn. ætíð að fjalla um ýmis mál, sem ekki með nokkru móti verða talin eðli sínu samkvæmt heyra undir utanrrn. Hitt tek ég undir, að það hljóti að koma mjög til athugunar að skipta störfum milli þessara rn. með nokkuð öðrum hætti heldur en verið hefur. En það er annað mál, og ég játa það, að utanrrn. hefur auðvitað takmarkaða þýðingu, — það er nauðsynlegt undir óllum kringumstæðum, — en það hefur takmarkaða þýðingu, nema það láti verulega að sér kveða í viðskiptamálum, sem það hefur raunar gert í miklu ríkara mæli heldur en menn sýnast nú almennt gera sér grein fyrir. Í þeim efnum ríkir töluverður misskilningur. Varðandi brtt. þá get ég sagt, eins og hv. síðasti ræðumaður, að flestar eru þær um smekksatriði, sem skipta í sjálfu sér ákaflega litlu máli.

Af brtt. hv. frsm., 3. landsk. þm., þá vildi ég einungis mæla gegn 9. till., um að breyta gildistíma l. Ég tel ekki, að það verði framkvæmanlegt eða gerlegt á svo stuttum tíma að skipta störfum, sem hér er um að ræða, enda ljóst, að eins og nú horfir, og ef núverandi ríkisstj. situr áfram, þá mundi þurfa nýja samninga um starfsskiptingu á milli þeirra flokka, sem sæti eiga í ríkisstj., svo að það yrði ekki einungis vandi að skipta störfum á milli rn., heldur koma þarna upp pólitískir samningar, sem nokkurn tíma þarf til, hvað sem öðru líður. Ég tel þetta ekki framkvæmanlegt. Hinar brtt. læt ég mig litlu skipta. Ég mundi halda, að það væri til bóta að láta þessa deildarstjóra, sem nú er gerð till. um, fá laun í 3 mánuði, full laun, ef þm. treysta sér til þess. Segja má, að þessir menn verði hart leiknir, ef þeir fá einungis hálf laun í 3 mánuði, en ég vildi fara varlega í minni tillögugerð um þetta og sýna, að það var ekki ætlunin að leggja verulegan nýjan kostnað á ríkissjóð. Ég mundi mælast til þess, að 3. brtt. hv. þm. yrði tekin aftur til 3. umr. og rædd nokkru nánar, það má vel vera, að efnislega sé hægt á hana að fallast, en ég vildi þó skoða það örlítið betur. Hitt er þess eðlis, að það eru hrein smekksatriði, eins og röðun á setningum, hvað eigi að taka fram ítarlegar, hvað um er getið, hvort eigi að kalla það reglugerð eða úrskurð, sem sett er með reglum og gert er með reglum. Þetta má sem sagt deila um. Aðrir eru, eins og ég mundi segja, kannske minnugri hins gamla danska lagamáls, en þeir um það, og ég tel, að það taki ekki að deila um þetta, úr því menn sýnast hafa áhuga á þeirri breyt.

Varðandi brtt. hv. 4. þm. Reykn., þá má segja slíkt hið sama um sumar hans till. Ég tel, að það sé ekki til bóta að færa kirkjumálarn. eða skilja það frá dómsmrn. Þessi rn. hafa ætíð verið saman, en þetta er þó helst smekks- og fyrirkomulagsatriði, sem endalaust má togast á um. Um Hagstofuna gilda sérstakar sögulegar ástæður. Með hagstofulögunum var Hagstofan gerð að sjálfstæðari stofnun strax í upphafi heldur en tíðkanlegt er um aðrar sambærilegar stofnanir. Á árunum 1956–57 var svo kveðið formlega á um það, að hagstofustjóri skyldi verða ráðuneytisstjóri. Ég sé enga ástæðu til þess að breyta því út af fyrir sig. Það mundi náttúrlega engum detta í hug, að ráðh. yrði eingöngu ráðh. Hagstofunnar, nema því aðeins ef menn vildu skapa embætti eins og tíðkast raunar í Englandi, að menn fá störf meira til þess að vera almennir ráðgjafar og ráðunautar heldur en að vinna mikið dagleg embættisverk. Að því gæti kannske komið, en eins og sakir standa þarf ekki að búast við því. Varðandi ríkisendurskoðunina, þá má færa nokkur rök á báða vegu fyrir því, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði og 3. þm. Norðurl. v., ýmist að þetta ætti að leggjast undir yfirskoðendur landsreikninga eða forsrh. Ég hygg þó, að það mál þurfi að skoða mikið betur, vegna þess að margt af þeim störfum, sem undir ríkisendurskoðunina heyra, eru í raun og veru skyldustörf fjmrh. og fjmrn. Það er skylda þeirra að sjá um, að ríkistekjur séu innheimtar með þeim hætti, sem vera ber, og það er ekki hægt að kanna það til hlítar eða fylgjast með því, að því er mér skilst, nema í mjög nánu samstarfi við sjálft fjmrn. Við skulum játa, að störf sýslumanna eru ákaflega margþætt. Þeir heyra embættislega undir dómsmrn. og dómsmrh. En mikið af þeirra störfum er nú orðið aftur á móti ýmiss konar fjársýsla, sem enginn getur fylgzt með eða á að fylgjast með, svo að í lagi sé, nema fjmrh., og hann verður að hafa tæki til þess undir sinni stjórn að gera það. Það er ráðstöfun mikilla fjármuna, sem hann verður að hafa fullt færi á að segja til um. Í þessu felst ekki, að ég sé því andstæður, að það sé athugað betur, hvort þarna megi skilja í sundur. Það verður þá að gera það á seinna stigi málsins, og að betur athuguðu máli. Fyrr er þetta að mínu viti ekki tímabært.

Varðandi aftur á móti eflingu rn. í heild og afstöðu ráðuneytisstjóranna til málsins, þá held ég, að þeir hafi nokkuð misskilið það. Það getur verið, að hvert rn. verði ekki ákaflega umfangsmikið eftir þá breyt., sem hér er gerð, og er það þó lítill munur frá því, sem á hefur komizt í framkvæmd. Ég er því sammála, að það þurfi að efla rn. mjög verulega frá því, sem er, en þá er það skilyrði, að þessari breyt. sé fyrst komið á, síðan verður með starfsbreyt., eftir atvikum með breyt. á löggjöf, að kveða á um yfirstjórn hvers málaflokks fyrir sig, hvort sé betra að hafa hann í sérstakri stofnun, sem rn. fylgist náið með, eða taka stofnunina beint inn í rn. Ég er sannfærður um það af minni reynslu, hafandi verið kennslumálarh., menntmrh., í nokkur ár, að það verður sparaður mikill tvíverknaður, þegar fræðsluskrifstofan verður sameinuð menntmrn., eins og nú er þegar raunar ákveðið, að gert skuli. Ég er sannfærður um, að slíkt hið sama er hægt að gera að verulegu leyti varðandi t.d. Fiskifélag og sjútvmrn. og a.m.k. um sum störf búnaðarfélagsskrifstofu hér í bænum og landbrn. Ég mundi gera ráð fyrir hinu sama varðandi lðnaðarmálastofnun og iðnmrn. En þetta eru ákvæði, sem taka verður ákvörðun um hvort út af fyrir sig að skoðuðu hverju máli um sig. Alveg eins og það var réttarbót, sem flestir viðurkenna nú orðið, þegar dómsmrn. var skorið í sundur og settur upp sérstakur saksóknari ríkisins. Þá var tekið frá rn. það, sem það áður hafði haft. Ég hygg, að það sé tvímælalaust til bóta. Það hefði mátt spyrja, þegar Efnahagsstofnunin var lögð undir forsrn.: Er þá ekki betra að taka það beint inn í forsrn. sjálft, heldur en að setja upp sérstaka stofnun? Ég held, að það sé heillaríkara að hafa Efnahagsstofnunina sérstaka, einmitt vegna þess að forsrh., þótt hann hafi yfirstjórn slíkrar upplýsingastofnunar, sem þarna er um að ræða, hefur svo mörgu öðru að sinna, svo að hann getur ekki tekið að sér daglega stjórn þess, sem þar gerist.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið. Ég hef getið um þær brtt., sem ég tel máli skipta, ýmist til góðs eða ills, og læt mig ekki varða, hvað um hinar verður.