25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um tollheimtu og tolleftirlit, sem er heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um það efni, á sér alllanga forsögu. Það eru allmörg ár síðan, eða nánast árið 1962, sem þáverandi fjmrh. skipaði n. til þess að endurskoða tolleftirlit. gildandi l. og reglur um tollheimtu og tolleftirlit með það í huga að styrkja tollgæzluna og athuga, hvort ekki væri hægt að setja ákveðnari og traustari reglur til þess að forðast það, að hætta væri á, að vörur væru fluttar til landsins, án þess að aðflutningsgjöld væru af þeim greidd. N., sem þá var skipuð, skilaði nokkru seinna, eða árið 1963, frv. um þetta efni. Frv. var þá ekki flutt, en eftir að ég tók við embætti fjmrh. fól ég nokkrum mönnum að endurskoða þetta frv. og sem þá var gert, og niðurstaðan af því var sú, að frv. var lagt fyrir síðasta Alþ. Það var þá ekki útrætt, en aflað hafði verið um það ýmissa upplýsinga hjá hv. n., sem fékk það til meðferðar, fjhn. Nd., og nú á milli þinga á s.l. sumri var frv. enn tekið til athugunar, og þær brtt., sem fram höfðu komið frá ýmsum aðilum, voru teknar sérstaklega til meðferðar og frv. síðan aftur lagt fram fyrir alllöngu síðan.

Því miður hefur frv. verið til meðferðar lengi í hv. Nd., þannig að það er orðinn naumur tími, að segja má, eftir því sem horfur eru um þinghald, að ljúka því. Ég mundi hins vegar telja það mjög æskilegt, ef þess væri nokkur kostur, að frv. gæti orðið að l. nú á þessu þingi, vegna ýmiss konar atriða, sem í því eru og sem tvímælalaust eru til umbóta á gildandi l. um þetta efni. Það voru gerðar á því nokkrar breytingar hjá hv. Nd., sem byggðust á umsögnum, sem fram komu, og athugunum, sem þar voru gerðar á frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja sérstaklega þær breyt. Þær eru í eðli sínu ekki veigamiklar, en þær ættu að auðvelda hv. n. í þessari deild að hafa e.t.v. skjótari handtök á málinu, þó að ég sé ekki að segja, að hún sé endilega bundin við það að fara eftir því, sem Nd. segir í því efni. Ed. hefur nú sínar sérskoðanir, en engu að síður hygg ég, að það ætti þó að geta auðveldað málin. Núgildandi l. um tollheimtu og tolleftirlit eru frá 1956, og síðan hafa komið fram ýmis atriði, sem hafa leitt í ljós, að það væru ýmsir annmarkar á þeirri lagasetningu, enda eru ýmis nýmæli í þessum l., sem sum hver hafa m.a.s. nú þegar tekið gildi enda þótt þau hafi ekki fengið neins staðar lögfestingu, svo sem t.d. það, að tollgæzlustjóri hér í Reykjavík hafi með höndum yfirstjórn tollgæzlunnar úti um land, það er gert ráð fyrir, að það verði nú lögfest, að heimilt sé að hafa þá skipan mála á. Aðalbreyt. á l. eru hins vegar í ákvæðum um flutning vöru, meðferð hennar og geymslu ótollafgreiddrar vöru, sem hafa víða verið miklir annmarkar á, hvernig frá hefur verið gengið, og hefur leitt til þess í mörgum tilfellum, að vörur hafa verið afhentar ótollafgreiddar, og hefur rn. að undanförnu staðið í allmiklu stríði víða að koma þessum málum í viðhlítandi horf, koma í veg fyrir, að líkt geti átt sér stað. Það var líka gert ráð fyrir því, þegar l. frá 1956 voru sett, að það mundi þurfa að endurskoða þessar reglur. Síðan þau gildandi tollal. hafa verið sett þá hefur líka margt breytzt í tollamálum. Þar á meðal má minna á, að vöruflutningar með flugvélum hafa farið stórkostlega vaxandi, og eru ýmis ákvæði í nýja frv. samin með tilliti til þessa, og er þar yfirleitt gengið út frá því, að sömu ákvæði gildi um skip og flugvélar, hvað snertir tollgæzlu og tolleftirlit, og eru því þessi farartæki einu nafni nefnd för í frv. Auk þess má þess geta, að ýmis l., sem varða tollamál, hafa verið sett eftir að núgildandi l. um tollheimtu og tolleftirlit voru sett, svo sem nýju tollskrárl. og lög um tollvörugeymslu, og er í þessu frv. höfð hliðsjón af þessum nýju l.

Í aths. við frv., þegar það var flutt 1955, kom það fram, að stefnt væri að því, að tollgæzlan kæmi sjálf upp geymslum fyrir ótollafgreiddar vörur, enda var sá háttur hafður yfirleitt á í nágrannalöndum. Nú hefur þetta breytzt þannig í nálægum löndum, að frá þessu er horfið og talið rétt, að innflytjandi sjálfur eða farmflytjandi sjái fyrir geymslustöðum fyrir ótollafgreiddar vörur, og það virðist einnig vera þróunin hér, að þetta muni verða þannig í náinni framtíð. Það eru því í frv. ýmis ný ákvæði, er snerta vörugeymslur, meðferð og flutning ótollafgreiddrar vöru, afgreiðslu hennar o.fl. M.a. er gengið út frá því, að vörugeymslur þurfi að fá viðurkenningu hjá tollyfirvöldum á því, að ekki megi flytja vöru úr viðurkenndum eða leyfðum geymslustað nema með samþykki tollstjóra, svo og að ákveða megi með reglugerð, að varan skuli tollafgreidd innan ákveðins frests, en þetta síðasta ákvæði er sett til að leysa þann vanda, sem stafar af miklum þrengslum í vörugeymslum farmflytjenda, og reyna að koma í veg fyrir það, sem því miður hefur verið of mikið af, að vörur hafa verið fluttar í stórum stíl til landsins, án þess að menn hafi haft nokkur skilyrði til þess að leysa inn eða greiða þessa vöru fyrr en eftir dúk og disk.

Til þess svo að ýta ennþá betur á eftir innflytjendum vara að tollafgreiða þær er heimilað í þessu frv., sem er nýmæli, að veita megi gjaldfrest á greiðslu aðflutningsgjalda á vissum vörutegundum gegn því, að þær verði tollafgreiddar innan ákveðins frests, og ég skal taka það fram, þar sem hér er um nýmæli að ræða, að slík tollalán mundu ekki eiga sér stað, nema hægt væri að setja bankaábyrgðir eða öruggar greiðslutryggingar, þannig að ekki þyrfti að koma til venjulegrar skuldainnheimtu af hálfu tollyfirvalda síðar.

Það er gert ráð fyrir því, að það sé heimilt að sameina tollgæzlu og löggæzlu. Um það hefur oft verið talað, og í lögum um löggæzlumenn, sem sett voru fyrir nokkru, var heimilað, að þetta mætti gerast og varðaði löggæzluna, en sams konar ákvæði hefur vantað í tollgæzlul., og þurfa þau ákvæði að sjálfsögðu að koma og eru sett hér inn.

Þá hefur það um nokkurt skeið verið svo, að það hefur verið rekinn sérstakur tollskóli, og er gert ráð fyrir því í ákvörðun um kjaramál opinberra starfsmanna og ákvörðun Kjaradóms, að slíkur skóli sé rekinn, og hefur þetta verið gert, þó að ekki hafi verið bein lagaheimild til fyrir því, enda er hér um að ræða mjög mikilvægan skóla, því að til þess að tollgæzla geti verið virk, þurfa tollgæzlumenn að hafa ýmiss konar sérþekkingu til að bera. Hér er gert ráð fyrir því að lögfesta ákveðnar tollhafnir, en þau ákvæði hafa verið í reglugerð hingað til. og er gert ráð fyrir, að tollhöfnum verði skipt í tvennt, aðaltollhafnir, þar sem sé leyfð fyrsta og síðasta tollmeðferð vöru, en það eru fyrst og fremst kaupstaðirnir, sem þar er um að ræða, og síðan aðrar tollhafnir, þar sem heimil er tollafgreiðsla vara. Engin höfn er útilokuð, en gert ráð fyrir því, að ef einstakar vörusendingar þurfa að fara til annarra hafna, sé hægt að gera það með sérstökum undanþágum.

Eins og ég áðan sagði, er gert ráð fyrir því, að þyngdar séu allverulega refsingar við tolllagabrotum, og er það mikil nauðsyn. Þá er einnig sett inn nýtt ákvæði, sem er allveruleg breyt. frá því, sem nú gildir, en ég hygg, að sé sanngjörn breyt., og hún er sú, að þeir, sem verði sekir um brot á tollal., séu sóttir til saka fyrst og fremst, og skipafélögin og aðrir aðilar séu aðeins ábyrgðaraðilar og ábyrgð þeirra komi til, ef hinn seki ekki greiðir tilskildar sektir. Hingað til hefur það verið þannig, að það hefur yfirleitt verið haldið sér beint að skipafélögunum og skipafélögin haft mjög erfitt um vik að ganga síðan að þessum starfsmönnum sínum og ná inn þessum sektum. Þetta ætti ekki að skerða á neinn hátt aðstöðu ríkisins, munurinn er aðeins sá, að nú verður gengið að sökudólg sjálfum, og skipafélagið kemur fyrst til í annarri röð. Þetta held ég, að sé sanngjarnt og eðlilegt nýmæli. Auk þess er gert ráð fyrir því, að sektir og ýmsar refsingar séu hækkaðar allverulega frá því sem er í gildandi l., og sýnist það einnig vera sjálfsagt.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, þar sem með frv. fylgir tiltölulega glögg grg. um það, hvað eru nýmæli í frv. í einstökum atriðum og hvað eru breyt. og í hverju það er fólgið, að vera að rekja það í langri framsöguræðu og þreyta hv. þdm. á því nema sérstakt tilefni gefist til, og hef ég ekki lengri framsögu um málið, en ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að mér væri mjög mikil þökk í því, ef hv. fjhn. sæi sér fært að afgreiða málið, þannig að það gæti orðið að l. á þessu þingi, enda þótt tími sé orðinn tiltölulega naumur til þess.

Ég legg svo til. að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjhn.