25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig langaði til að gera hér smá fsp. til hæstv. fjmrh. Eins og hann drap á í framsöguræðu sinni, er þetta mikilvægt spor í meðferð á vörum varðandi tollafgreiðslu o.s.frv. Hann minntist hérna á 53. gr., sem hann sagði réttilega nýmæli, en hún kveður svo á um, að fjmrh. getur með reglugerð heimilað tollstjórum að veita innflytjendum tiltekinn greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Ég var reyndar svolítið hissa, þegar ég las þetta, vegna þess að ég hélt persónulega, að greiðsluaðstaða ríkissjóðs væri ekki slík, að hann hefði tök á því að veita fyrirtækjum um einhvern tíma greiðslufrest, þótt takmarkaður sé, og vildi þess vegna inna ráðh. nánar eftir því, hvort hann óttist ekki, að hér sé farið út á braut, sem gæti verið til þyngsla fyrir ríkissjóð, og hvort hér verði vaxtareiknað fyrir þessa fyrirgreiðslu o.s.frv., og eins er það, hvort fyrirtækjum sé mismunað með svona aðstöðu? Nú má segja, að ef fyrirtæki er vel rekið og það getur fengið bankatryggingu og allt þar fram eftir götunum, þá eigi það að njóta þess, en ég veit ekki, hvort það er æskileg þróun að gera slíkan aðstöðumun varðandi aðflutningsgjöld. Ég vildi varpa þessari spurningu fram.

Í öðru lagi vil ég svo aðeins drepa á eitt, sem ég persónulega varð að standa í fyrir nokkru. Þannig háttar til, eins og hv. þd. er kunnugt um, að ég á hluta að útgerðarfyrirtæki og þurfti að afgreiða snurpuvír með snarheitum fyrir nokkru. Hann vantaði og var ekki til á skipið, sem kostar 40 millj. Ég varð að bíða í 3 daga, þótt öll skjöl og annað væri klárt. Ég talaði þarna við mann á skrifstofunni, og hann sagði, að þetta kerfi, sem væri komið í dag, væri orðið herra yfir okkur og þú yrðir bara að bíða í rólegheitum, hvort þú værir með svona mikilvæga tollafgreiðslu eða naglalakk, skipti ekki máli. Áður var mín reynsla sú, að hér í Rvk. gekk allt ljómandi vel á vissum vöruflokkum. Um snurpuvír liggur ljóst fyrir, að hann kemur beint og er ekkert hægt við hann að gera, menn afgreiða hann strax. Skoðun liggur strax fyrir, og er ekkert vandamál. En ef kerfið býður ekki upp á lausn í viðurlögum, þá vildi ég mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann athugaði um það, að þegar slík undantekningartilfelli eru, að þau gætu fengið sérstaka fyrirgreiðslu og að kerfið væri ekki orðið þræll vélanna, jafnvel þótt vélakerfið sé gott og nauðsynlegt, og að þetta sé tekið til athugunar. Ef þetta frv. gerir ráð fyrir því, að skyndiafgreiðsla, sem alltaf getur komið fyrir vegna bilana í stórum skipum og jafnvel í flugvélum, sé áfram, þá er það vel. Slík fyrirgreiðsla var fyrir hendi, og tollþjónar sýndu lipurð í því efni, og sú fyrirgreiðsla má ekki stöðvast.